Linda Jackson forstjóri Citroën stillir sér upp við E-Mehari steinsnar frá París. Opinn og sumarlegur er hann.
Linda Jackson forstjóri Citroën stillir sér upp við E-Mehari steinsnar frá París. Opinn og sumarlegur er hann. — AFP
Citroën hefur ákveðið að smíða sinn fyrsta rafbíl en óhætt er að segja að hann sé heldur óvenjulegur – eins og svo margur annar bíllinn sem komið hefur frá Citroën um dagana.
Citroën hefur ákveðið að smíða sinn fyrsta rafbíl en óhætt er að segja að hann sé heldur óvenjulegur – eins og svo margur annar bíllinn sem komið hefur frá Citroën um dagana.

Eiginlega er um að ræða smíðisútgáfu Cactus M-hugmyndabílsins, tvennra dyra blæjubíls, sem sló í gegn á bílasýningunni í Frankfurt í haust. Ber hann nafnið E-Mehari og var formlega kynntur í París í síðustu viku.

Franski bílsmiðurinn hefur teflt fram rafbíl undanfarin ár, C-Zero, en þar hefur eiginlega fremur verið um að ræða rafbílinn Mitsubishi i-MiEV í frönskum fötum.

Að sögn Citroën hefst raðsmíði E-Mehari á nýju ári og munu fyrstu fjöldaframleiddu eintökin renna af færiböndum bílsmiðju fyrirtækisins í Rennes á Bretaníuskaganum í Frakklandi næsta vor. Ekki er þó búist við að hann muni seljast í miklu magni og hér sé fremur bíll sem menn telji dýrðarljóma stafa af og kaupi hann sem slíkan.

Hámarksafl E-Mehari verður 50 kílóvött eða 67 hestöfl og hámarkshraði 110 km/klst. Mun hann því ekki ná hámarkshraða franskra hraðbrauta, sem er 130 km/klst. Drægi bílsins verður 200 km og hann verður tæpast til langferða mikið brúkaður því taka mun heilar átta klukkustundir að hlaða tóma 30 kílóvatta LMP-rafhlöðuna. Og þótt hugsaður sé meðal annars til fjöruferða kemst E-Mehari ekki niður að sjó frá París og til baka á einni geymisfylli rafmagns.

Yfirbygging E-Mehari er úr sterku hitamótuðu plastefni og því þarf ekki að óttast ryðmyndun í henni. Hinar mjúku og vingjarnlegu línur yfirbyggingarinnar virka nútímalegar. Innréttingin er svo úr efnum sem þola mislynd veður.

Því er ekki að neita, að nýi bíllinn minnir að nokkru á annan bíl með sama nafni frá Citroën, Mehari, sem smíðaður var um tveggja áratuga skeið, 1968-88.

agas@mbl.is