Skoðun Heimir Hallgrímsson og Lars Lagerbäck taka væntanlega ákvarðanir um möguleika margra leikmanna að loknum leikjunum í janúar.
Skoðun Heimir Hallgrímsson og Lars Lagerbäck taka væntanlega ákvarðanir um möguleika margra leikmanna að loknum leikjunum í janúar. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
EM2016 Víðir Sigurðsson vs@mbl.
EM2016

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Lars Lagerbäck og Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfarar í knattspyrnu, gætu prófað allt að 40 leikmenn í vináttulandsleikjunum þremur sem fram fara í næsta mánuði þegar íslenska karlalandsliðið leikur gegn Finnlandi, Sameinuðu arabísku furstadæmunum og Bandaríkjunum.

Tveir fyrrnefndu leikirnir fara fram í Abu Dhabi í Sameinuðu arabísku furstadæmunum 13. og 16. janúar en leikið verður við Bandaríkin í Los Angeles 31. janúar.

Allir þrír leikirnir fara fram utan alþjóðlegra leikdaga og íslenska liðið verður væntanlega eingöngu skipað leikmönnum liða af Norðurlöndunum, frá Rússlandi og Kína, en aðrar deildir þar sem íslenskir leikmenn spila, eru í gangi á þessum tíma.

Þá er nokkuð ljóst að sinn hvor hópurinn fer í verkefnin tvö og fáir, ef nokkrir, fara bæði til Abu Dhabi og Los Angeles.

Fáum menn ekki í þrjár vikur

„Nei, ég sé ekki annað en að við förum með allt annað lið til Bandaríkjanna. Ég sé ekki að nokkurt félag muni gefa okkur leyfi til að vera með leikmann í tveimur ferðum og í þrjár vikur í heildina. Þau verða öll á sínu undirbúningstímabili og í æfingaferðum eða á leið í þær. Við göngum út frá því að vera með tvo hópa í þessum tveimur verkefnum, og reynum að dreifa mönnum sem best á milli þeirra,“ sagði Heimir við Morgunblaðið í gær.

Tólf til fjórtán ekki með

Alls voru 46 leikmenn í landsliðshópum hjá Heimi og Lars á síðasta ári og 41 þeirra spilaði landsleik. Ljóst er að tólf þeirra verða ekki í þessum verkefnum þar sem þeirra deildir verða í gangi. Þar á meðal eru Gylfi Þór Sigurðsson, Aron Einar Gunnarsson, Kolbeinn Sigþórsson, Emil Hallfreðsson, Alfreð Finnbogason og Jóhann Berg Guðmundsson. Þá er Hannes Þór Halldórsson frá keppni vegna meiðsla, og ólíklegt er að Rúrik Gíslason, Jón Daði Böðvarsson og Birkir Bjarnason fái leyfi þar sem þeirra deildir, í Þýskalandi og Sviss, verða í fríi en fara aftur í gang í byrjun febrúar.

Nýir leikmenn bætast við

Það verða því leikmenn sem spila í Svíþjóð, Noregi, Danmörku, Íslandi, Rússlandi og Kína sem koma til greina í liðið í þessum þremur leikjum og alveg ljóst að þar bætast við nokkrir leikmenn sem ekkert komu við sögu hjá landsliðinu á síðasta ári. Baráttan um sæti í EM-hópnum verður hörð og ljóst að frammistaða í þessum janúarleikjum, sem og á æfingum þeim tengdum, getur gert útslagið fyrir fjölmarga þeirra sem fara í ferðirnar tvær.