Heimssmiðurinn Hermann Stefánsson endurskapar á hugvitssamlegan hátt söguna um Palla sem var einn í heiminum með þéttriðnu neti „vísana og hugmynda sem sóttar eru í önnur listaverk og hugmyndakerfi“.
Heimssmiðurinn Hermann Stefánsson endurskapar á hugvitssamlegan hátt söguna um Palla sem var einn í heiminum með þéttriðnu neti „vísana og hugmynda sem sóttar eru í önnur listaverk og hugmyndakerfi“. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Hermann Stefánsson. Sæmundur, 2015. Innbundin, 89 bls.
Í upphafi sögunnar Leiðin út í heim vaknar maður í rúmi sínu. „Við skulum kalla hann Pál,“ segir höfundurinn lesendum og bætir við: „Páll er ástríðusál. Hann veit að hann dreymdi eitthvað en man aðeins óljós svipleiftur draumsins“ (5). Og Páll er einn og í kringum hann er undarlega kyrrt og hljótt. Þarna hefst saga ævintýralegs en um leið martraðarkennds ferðalags manns gegnum daginn í breyttum heimi, heimi sem alráður höfundurinn hnoðar og mótar hugvitssamlega og hefur fjarlægt aðra menn úr. Skiljanlega verður Páll – sem stundum virðist vera drengur, stundum fullorðinn – blúsaður við þessar aðstæður en hann „fóðrar stundum sína eigin þögn með gömlum blúslögum. Blúslög hefjast á því að einhver vaknar um morgun. Sá nývaknaði í blúsunum er jafnan einmana og blár. En Páll er hvorki einmana né blár“, segir höfundurinn okkur og bætir við að Páli líði prýðilega og bætir við: „og það er víst ég sem hef það verkefni með höndum að lýsa því“ (7).

Þessi knappa nóvella Hermanns Stefánssonar er byggð á kunnri sögu Jens Sigsgaard, Palli var einn í heiminum . Sú myrka einsemdarsaga kitlaði hugarflug þessa rýnis í æsku, eins og hún hefur fangað hug ótal lesenda síðan. Hermann hefur á sínum höfundarferli orðið einn helsti fulltrúi meta -skáldskapar hér á landi, póstmódernískur kyndilberi sem vinnur iðulega á snjallan hátt með persónulegt net vísana og tilvitnana í önnur bókmenntaverk og skapar úr þeim vefnaði persónulegar frásagnir. Og er oft á tíðum líka ískrandi írónískur í frásögn sem afstöðu.

Hér endurgerir Hermann söguna um Palla á athyglisverðan hátt en þótt svarthvít barnasaga Sigsgaard sé grunnlagið í verkinu getur hver og einn lesandi séð eða frekar skynjað þéttriðið net vísana og hugmynda sem sóttar eru í önnur listaverk og hugmyndakerfi. Eins og til að mynda endurteknar hugleiðingarnar um einsemdina. Einn af fyrstu köflunum, þegar Palli er enn að átta sig á breyttum veruleika, hefst svona: „Staðreyndin er þessi: ÞAÐ ER ENGINN TIL Í ÖLLUM HEIMINUM NEMA PALLI.“ Og sögumaður spyr: „Hvernig má skilja þessa staðreynd?“ Bætir svo við: „Einu sinni var sett fram merkileg kenning sem lagði áherslu á einsemd mannsins og sagði: Maðurinn er alltaf einn“ (17). Þar dregur höfundurinn fram hugmyndir tilvistarheimspekinnar, Camus kemur í hugann, líka Thor Vilhjálmsson, Hlutskipti manns ; höfundum og verkum er brugðið upp í höfði lesenda en sögumaðurinn heldur sig við Palla og segir að af þeirri staðreynd að maðurinn sé einn með sjálfum sér spretti ábyrgð; hann sé niðurstaðan af eigin ákvörðunum og gjörðum. Og hann hafnar kenningum um staðreyndir málsins: það sé ekki nokkur maður til í heiminum nema Palli, ekkert samfélag og engin félagsleg samskipti. „Engin kenning getur skákað þeirri staðreynd“ (19)

Og á hvaða ferðalagi er þessi drengur eða maður, hann Palli? Er þetta draumur? Þessi lesandi þóttist stundum finna fyrir vísunum í skáldsögur og tveggja-heima-sýn Gyrðis Elíassonar, eins og í drenginn Sigmar í Gangandi íkorna sem vaknar líka í breyttum heimi. Og í sögu Gyrðis Svefnhjól , eða aðrar um afturgöngur sem sjást ekki í speglum en Palli fær á einum stað þá hugdettu að hann muni ekki sjást í spegli, eins og þekkist úr slíkum frásögnum. Og vissulega má finna fyrir bergmáli úr þessum söguheimum sem mörgum öðrum. En Palli fer út í daginn og rekst á tómar verslanir og getur gert hvað sem honum sýnist, rétt eins og Palli hans Sigsgaard. Hann stelur súkkulaði, tæmir hraðbanka, hugsar um misskiptingu auðs í heiminum og um eftirlætisljóð, „Berjum fátæklingana“, eftir Baudelaire. Ýmiskonar heimspekilegar hugleiðingar kallast á við athafnir Palla og hugsanir hans, þar sem minnið um tvífarann fer til dæmis að koma við sögu; hann leitar á ráfinu skugga síns, eftirmyndar, og líka að stúlku og beitir við leitina galdrakorti sem virðist sótt beint til Harrys Potter. Og sífellt er lesandinn minntur á að hann er að lesa skáldskap, þegar sögumaðurinn, í anda æðstaprests slíkra meta -frásagna, Italos Calvino, minnir á að við séum að lesa og að höfundurinn kunni að hafa eitthvað að segja okkur, og sjálfum sér um leið, því sá „sem skrifar bók á erindi við sjálfan sig ekki síður en heiminn“ (56). Þannig er lesandinn iðulega minntur á uppsprettu frásagnarinnar í ímyndunarafli og reynslubanka höfundarins, og að sá hugur geti gert hvað sem er við persónurnar og aðstæður þeirra. Palli er sendur í bíó þar sem ólíkar skáldaðar senur og gamlar fréttamyndir birtast á tjaldinu; hann dottar og í martraðarkenndri senu á hann samfarir við spörfugl; þegar hann upplifir fljúgandi peningaseðla er hann „líkt og nýkominn af fundi hjá félagi ímyndunarveikra“ (32); og í einsemdinni prófar hann að ganga nakinn um og leitað er skýringa á hvarfi annarra: „Kannski eru allir fluttir yfir í sýndarveruleikann nema hann.“ (34).

Og Palli fær líka að takast á við sköpun heims, eins og höfundurinn sem býr hann sjálfan til, þegar hann mótar heim úr hrísgrjónum, klunnalegt sköpunarverk sem hann er samt stoltur af en borðar síðan upp til agna áður en höfundurinn heldur áfram að ráðskast með hann og heiminn í sköpunarleik sínum.

Hermann Stefánsson er flinkur höfundur sem kann vel þá list að skapa áhugaverðan söguheim og tengja hann við hitt og þetta. Þessi knappa saga, Leiðin út í heim , er þannig býsna hugvitssamlega sögð. Undirrituðum finnst hún þó á köflum full írónísk og köld, og sögumaðurinn látinn vera of meðvitaður um sköpunarferlið, möguleikana sem í því felast – og fá full mikið að stöðva það sem kalla mætti lestrarupplifun eða flæði við lesturinn. Fastur í snyrtilegu og vissulega áhugaverðu og þéttriðnu neti vísana og allrahanda hugleiðinga, um skáldskap, líf og heimspeki, fór þessi lesandi að velta fyrir sér hvort formið útilokaði einlægni, og hvort engin leið væri að fanga merkinguna, eitthvað sem kalla mætti kjarna verksins. Afstöðuna. Kannski er það ætlunin með þessari aðferð, hinni póstmódernísku, þar sem allt snýst um endurvinnslu. Nýtt púsl með gömlum stykkjum. En að þeim hugleiðingum slepptum er þetta býsna haganlega mótuð, vel skrifuð og forvitnileg saga.

Vert er að hrósa umbroti og kápuhönnun Leiðarinnar út í heim og því hvernig form- og myndhugsun hönnuðarins kallast á við heim sögunnar. Ragnar Helgi Ólafsson hefur á undanförnum árum náð afar athyglisverðum tökum á útlitshönnun bóka, er bæði fjölhæfur og frumlegur um leið og hann þekkir lögmálin, til að mynda hvernig letur á að sitja á síðu. Á kápu er söguhetjan í frjálsu falli, annaðhvort í draumi eða martraðarkenndum veruleika. Rétt eins og í sögunni.

Einar Falur Ingólfsson