Dr. Nicole Dubus
Dr. Nicole Dubus
Eftir dr. Nicole Dubus: "Ein af okkar grunnþörfum er þörfin fyrir heilbrigðisþjónustu. Mikilvægt er að sú þjónusta sé góð og öllum aðgengileg. Stöndum vörð um hana!"
Ég bý í Bandaríkjunum en er nú í heimsókn á Íslandi. Í heimsókn minni hef ég orðið vör við umræður um einkavæðingu á hluta af því heilbrigðiskerfi sem er nú við lýði á Íslandi. Við í Bandaríkjunum erum í upphafi þess ferlis að innleiða lög sem mikið hefur þurft að berjast fyrir. Þessi lög munu tryggja heilbrigðisþjónustu fyrir fleiri þegna en áður, en þó ekki fyrir alla. Það verður ennþá langt frá því að vera fyrir jafnmarga og heilbrigðiskerfið hér á landi.

Heilbrigðiskerfið okkar byggist á einkafyrirtækjum sem græða á því að veita heilbrigðisþjónustu. Læknar og aðrar heilbrigðisstéttir, sem og tryggingafélög græða peninga þegar við erum veik. Kerfið okkar hvetur lækna til þess að panta próf fyrir sjúklinga til þess að leggja til skurðaðgerðir vegna veikinda sem væri hægt að lækna með vægari og ódýrari hætti. Þó að tryggingafélög greiði stóran hluta af kostnaði okkar getur sá kostnaður sem við greiðum sjálf auðveldlega orðið tugir þúsunda dollara, allt eftir því hver meðferðin er. Land okkar hefur á að skipa afar hæfileikaríkum læknum og er búið mjög tæknilegum greiningartækjum. Samt sem áður mælist heilbrigði okkar lakara en í mörgum öðrum löndum sem eyða fjórðungi af því sem við eyðum í heilbrigðisþjónustu. Af hverju eyða Bandaríkin mun meira í heilbrigðisþjónustu, þrátt fyrir að mælast með lakara heilbrigði en önnur lönd? Það eru margir þættir sem hafa áhrif, en einn þáttur er skýr: Kerfið okkar virkar ekki. Heilbrigðisþjónusta er léleg sem byggist á því að græða peninga. Heilsufar er lakara þegar kerfið græðir á þeim sem eru veikir og heilsa ætti ekki að vera lúxus fyrir þá ríku. Það er dýrara fyrir þjóðfélagið í heild þegar ekki allir hafa greiðan aðgang að heilbrigðisþjónustu. Bandaríkin eiga margt ólært af Íslandi. Endilega lærið af Bandaríkjunum!

Höfundur er lektor í félagsráðgjöf við San Jose State University.