Núna er alveg hreint ljómandi gott íþróttaár að renna sitt skeið. Maður áttar sig best á því þegar kemur að því að skrá tíu nöfn niður á blað og skila því inn í kjöri á íþróttamanni ársins.
Núna er alveg hreint ljómandi gott íþróttaár að renna sitt skeið. Maður áttar sig best á því þegar kemur að því að skrá tíu nöfn niður á blað og skila því inn í kjöri á íþróttamanni ársins. Það er erfitt en skemmtilegt að velja það fólk, þjálfara og lið sem skarað hefur fram úr, en erfitt og eiginlega hundleiðinlegt að þurfa að skilja fullt af frábæru íþróttafólki eftir utan listans. Kannski að maður ætti að nýta þennan dálk í svona „honorable mentions“ eftir að úrslitin í kjörinu liggja ljós fyrir. Sem sagt nefna nokkra sem hefðu sómt sér vel a listanum.

Þá eitt ár er liðið annað tekur við. Næsta íþróttaár er þegar orðið ótrúlega spennandi í hugum margra. Ég er búinn að bóka flug á EM karla í handbolta í janúar, EM karla í fótbolta í júní, og Ólympíuleikana í Ríó í ágúst, og hef ekki trú á öðru en að þetta verði algjör veisla.

Í íþróttum getur heppni stundum haft talsvert mikið að segja. Ég ætla til dæmis að halda því fram að Ísland hafi verið frekar heppið með riðil á EM karla í handbolta. Þar leika strákarnir okkar með Króatíu (reyndar engin heppni fólgin í því, en varla verra en Frakkland, Spánn eða Danmörk), Hvíta-Rússlandi og Noregi. Ekki hefði ég viljað lenda gegn Þýskalandi eða Rússlandi í stað Hvíta-Rússlands, svo dæmi sé tekið.

Sama má segja um EM karla í fótbolta. Það var reyndar ekkert spes að fá Austurríki, en gott að fá Portúgal og losna við ofurlið eins og Þýskaland og Spán. Ungverjaland var mitt draumalið úr 3. styrkleikaflokki. Ég þarf vonandi ekki að taka fram að þetta breytir engu um það að gríðarlega erfiðir leikir bíða Íslands, bæði í Póllandi og Frakklandi.