Þóra Viktorsdóttir verslunarmaður fæddist á Akranesi 30. apríl 1929. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Skjóli 5. desember 2015.

Foreldrar hennar voru Friðmey Jónsdóttir húsmóðir, f. 14. september 1904, d. 15. maí 1986, og Viktor Björnsson verksmiðjustóri, f. 4. nóvember 1901, d. 4. október 1997. Systkini Þóru eru Jóna Ágústa, f. 6.6. 1924, gift Ólafi Elíassyni, f. 27.11. 1925, d. 23.4. 1913, Björn, f. 25.6. 1925, d. 11.8. 1990, kvæntur Sigríði Pétursdóttur, f. 26.10. 1928, Alfreð, f. 10.9. 1932, kvæntur Erlu Karlsdóttur, f. 10.10. 1932, Lilja, f. 23.5. 1936, d. 11.4. 1997, gift Guðmundi Einarssyni, f. 22.8. 1922, d. 24.4. 1907.

Eiginmaður Þóru var Úlfar Einar Kristmundsson kennari, f. 30.8. 1929, d. 11.10. 1901. Foreldar Halldóra Nikólína Björnsdóttir, f. 10.12. 1905, d. 22.1. 1951, og Kristmundur Guðmundsson, f. 18.2. 1903, d. 5.1. 1961. Úlfar á einn bróður, Björn Kristmundsson, f. 8.12. 1937, kvæntur Sigríði Kjartansdóttur, f. 21.3. 1939.

Þóra og Úlfar eignuðust tvö börn: 1) Halldór, f. 13.4. 1952, kvæntur Ingu Jóhönnu Birgisdóttur, f. 17.6. 1957, d. 1.6. 1911. Þau eiga tvö börn; Ásdísi, f. 5.11. 1979, í sambúð með Guðmundi Finnbogasyni, f. 4.5. 1978. Þau eiga saman tvö börn; Viktor Matta, f. 5.4. 2006, og Jóhann Inga, f. 10.1. 2013. Úlfar Þór, f. 29.3. 1987, í sambúð með Örnu Dögg Gunnlaugsdóttur, f. 24.12. 1988. Þau eiga saman tvær dætur; Angelu Dögg, f. 5.10. 2013, og Aþenu Ingu, f. 8.9. 2015. Fyrir átti Úlfar Þór soninn Björn Ómar, f. 15.10. 2006. 2)

Þóra, f. 22.6. 1960, gift Ásgeiri Magnússyni, f. 20.12. 1957. Þau eiga þrjú börn; Magnús, f. 22.12. 1985, Þóru Björgu, f. 30.6. 1988, og Erlu, f. 27.1. 1994.

Þóra og Úlfar giftu sig 24. mars 1951. Mestan hluta ævinnar rak Þóra heildverslunina Satúrnus með eiginmanni sínum. Satúrnus var heildsala með hannyrðavörur og prjónagarn. Síðustu árin vann Þóra í mötuneyti hjá Lögreglustjóraembættinu við Hverfisgötu. Þau hjónin voru mikið í hestamennsku og síðan skiptu þau yfir í skíðin. Með skíðunum seinni árin fóru þau einnig að spila golf.

Útför Þóru fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 15. desember 2015, klukkan 13.

Kæra Þóra mín.

Mín fyrstu kynni af þér voru þegar ég kom til ykkar hjóna og við Þóra vorum ákveðin í því að flytja norður og trúlofa okkur. Og hvað sagði Úlfar þegar hann áttaði sig á að dóttir hans væri að fara til Akureyrar um stund með dreng sem hann þekkti lítið sem ekkert? Hann sagði við mig: „Dóttur minni þykir greinilega vænt um þig, það sé ég, en farðu vel með hana, annars er mér að mæta.“

Hann var pabbi sem passaði sitt og við hlið hans var kona sem var hreint ómetanleg. Hún tengdamóðir mín var ekki margmál en hún var traust, svakalega traust og góð við okkur og barnabörnin sín og passaði upp á þau með natni og nærgætni.

Ég gleymi aldrei tímanum sem við áttum saman og hennar hljóðu ráðum og dáðum og hvernig hún fór fram með hæglæti og hógværð og skapaði virðingu og gleði þegar það átti við. Einnig eru skemmtilegar minningar með ykkur hjónum í sumarbústaðnum við Apavatn þar sem börnin voru frjáls úti og við spil með þér og Úlfari.

Hvernig verður lífið án þín, ekkert samtal um tilveruna eða þjóðmálin hvað þá augnaráðið sem sagði það sem segja þurfti.

Nú er hvíldin þín, mín kæra.

Drottinn er minn hirðir,

mig mun ekkert bresta.

Á grænum grundum

lætur hann mig hvílast,

leiðir mig að vötnum,

þar sem ég má næðis njóta.

Hann hressir sál mína,

leiðir mig um rétta vegu

fyrir sakir nafns síns.

Jafnvel þótt ég fari um dimman dal,

óttast ég ekkert illt,

því að þú ert hjá mér,

sproti þinn og stafur hugga mig.

Þú býr mér borð

frammi fyrir fjendum mínum,

þú smyr höfuð mitt með olíu,

bikar minn er barmafullur.

Já, gæfa og náð fylgja mér

alla ævidaga mína,

og í húsi Drottins bý ég langa ævi.

(23. Davíðssálmur)

Fátækleg orð skrifuð til þín, kæra tengdamóðir, far í friði. Ég og fjölskyldan kveðjum þig með söknuði, virðingu og ást.

Ásgeir, Þóra, Magnús, Þóra Björg og Erla.

Fallin er frá hún Þóra. Þóra Viktorsdóttir, eða Stóra-Þóra, eins og ég kallaði hana sem barn til aðgreiningar frá dóttur hennar, Litlu-Þóru, var konan hans Úlfars föðurbróður míns og mágkona hans pabba. Hún var reyndar miklu meira en það! Við tímamót sem þessi koma minningarnar á fleygiferð, minningarnar um það sem einu sinni var.

Ég er Þóru svo þakklát fyrir margt, veit varla hvar bera skal niður fæti í upptalningunni. Þegar hún giftist honum Úlfari föðurbróður mínum rétt tvítug að aldri tók hún við heimilinu á Víðimelnum en þar fylgdu með sorgmæddir feðgar, tengdafaðir og ungur mágur. Tengdamóðirin hafði fallið frá skömmu áður, langt fyrir aldur fram. Öllum þótti sjálfsagt að Þóra tæki að sér heimilið og engar sérstakar þakkir fékk hún fyrir. Aldrei talaði hún um að þetta hafi verið erfitt en pabbi segir að þeir feðgar hafi ekki verið henni auðveldir. Ég hef oft velt því fyrir mér hvort þetta hafi ekki reynt á ungu hjónin, sérstaklega Þóru, í upphafi síns búskapar. Á þessum tíma voru tilfinningarnar ekki til umræðu, og Þóra bar sínar heldur aldrei á torg.

Síðar áttu Þóra og pabbi eftir að vinna saman í mörg ár í heildversluninni Satúrnus sem Þóra rak um árabil. Þar fékk ég líka vinnu innan um garn og stramma og ýmislegt fleira. Þegar ég var barn var heimili Þóru og Úlfars að mörgu leyti mitt annað heimili, fyrst á Víðimelnum og síðar í Huldulandinu. Við frænkurnar, Litla-Þóra og ég, vorum nánast jafnöldrur og tengslin mikil. Þegar Þóra eldri fór vegna vinnu sinnar til Danmerkur þá keypti hún t.d. alltaf föt og gjafir handa mér eins og Þóru dóttur sinni.

Það er þeim hjónum að þakka að ég hóf að stunda skíðaíþróttina af miklum móð. Úlfar og Þórurnar tvær fóru í Kerlingarfjöll og lærðu að skíða og urðu alveg forfallnir skíðaunnendur. Næst var mér boðið með og síðan ótal sinnum eftir það, jafnvel alla leið til Geilo í Noregi til að skíða. Það var gott að eiga öruggt bílfar upp í Bláfjöll á þessum árum þegar við frænkurnar æfðum skíðin af kappi, Þóra og Úlfar létu sig ekki vanta í fjöllin. Löngu síðar tóku þau hjónin upp á því að spila golf af sama áhuga og þau stunduðu skíðaíþróttina. Þá stunduðu þau hjónin einnig hestamennsku í mörg ár áður en skíðin og síðar golfið tóku við. Jóhanna langamma var mikil hestakona og Þóra og Úlfar vildu fylgjast með gömlu konunni svo hún færi sér ekki að voða og tóku því þátt í áhugamáli hennar. Alltaf jafn samhent og tilbúin að hafa gaman saman.

Þóra var mjög skemmtileg kona með frábæran húmor, mikill fagurkeri og lífskúnstner. Þau hjónin voru sem fyrr segir afar samhent. Það var því Þóru þungbært þegar Úlfar féll frá allt of snemma. Við fráfall hans missti hún kraftinn sem hafði einkennt hana alla tíð. Nú hafa þau sameinast á ný. Ég þakka Þóru fyrir samfylgdina, allan stuðninginn í gegnum árin og fyrir það sem hún var föður mínum, Birni Kristmundssyni, unga mági sínum.

Elsku Þóra, Halldór og fjölskyldur, ég votta ykkur mína dýpstu samúð en minning um skemmtilega og góða konu lifir.

Halldóra Björnsdóttir.