Hella Foreldrar geta sótt um heimgreiðslu.
Hella Foreldrar geta sótt um heimgreiðslu. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Um áramótin geta foreldrar barna á aldrinum 9 til 18 mánaða í Rangárþingi ytra sótt um að fá 30 þúsund króna heimgreiðslu ef þeir kjósa að hafa barnið heima.
Um áramótin geta foreldrar barna á aldrinum 9 til 18 mánaða í Rangárþingi ytra sótt um að fá 30 þúsund króna heimgreiðslu ef þeir kjósa að hafa barnið heima.

„Við viljum hafa þennan valmöguleika fyrir foreldra ef þeir kjósa að hafa barnið lengur heima eða að barnið kemst ekki strax inn á leikskóla en mörg ung börn eru í sveitarfélaginu,“ segir Ágúst Sigurðsson, sveitarstjóri Rangárþings ytra.

Tveir leikskólar eru starfræktir í sveitarfélaginu, þeir taka inn börn við 12 mánaða aldur. Engir dagforeldrar hafa verið starfandi um nokkurt skeið í sveitarfélaginu.

„Við höfum þá stefnu að hlúa vel að barnafólki og höfum m.a. lækkað leikskólagjöldin um 25%. Þetta skiptir máli fyrir ungt fólk,“ segir Ágúst.

Reykjavíkurborg var með sambærilegar greiðslur sem nefndust þjónustugreiðslur en voru lagðar niður frá og með 1. apríl 2011. Áður en þær voru afnumdar var rætt um réttmæti slíkra greiðslna og þær m.a. taldar virka öfugt í jafnréttismálum. Í því samhengi bendir Ágúst á að sveitarstjórnin hafi farið vel yfir þau rök og ekki talið þau eiga við. Leikskólagjöld eru 20.800 krónur á mánuði m.v. átta tíma vistun. thorunn@mbl.is