[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Baldur Arnarson baldura@mbl.is Fjöldi erlendra hótelkeðja hefur sýnt því áhuga að reka fyrirhugað risahótel í Vatnsmýri í Reykjavík. Hótelið verður það stærsta á Íslandi með 400-450 herbergjum. Jóhann Halldórsson, framkvæmdastjóri S8 ehf.
Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Fjöldi erlendra hótelkeðja hefur sýnt því áhuga að reka fyrirhugað risahótel í Vatnsmýri í Reykjavík. Hótelið verður það stærsta á Íslandi með 400-450 herbergjum.

Jóhann Halldórsson, framkvæmdastjóri S8 ehf., stýrir undirbúningi vegna uppbyggingar hótelsins. Hann segir áformað að hefja framkvæmdir eigi síðar en í júní næsta sumar, þannig að hótelið geti hafið starfsemi haustið 2017.

„Síðustu tveir mánuðir hafa farið í viðræður við ýmsa aðila. Markmiðið hefur verið að fá erlendan aðila til að reka hótel í þessari byggingu sem búið er að forhanna. Þessar keðjur eru af þeirri stærðargráðu að hlutirnir gerast ekki á íslenskum hraða. Svona verkefni eru hluti af margra mánaða ferli. Nánast hver einasta erlenda hótelkeðja sem dæmigerður Íslendingur kannast við hefur sýnt því áhuga að koma hingað. Það er síðan önnur saga hvort ég hef að bjóða lausnir sem henta þessum keðjum,“ segir Jóhann og víkur að sérstöðu íslenska markaðarins.

Annað fyrirkomulag á Íslandi

„Það hefur komið í ljós að íslenskur fjármálamarkaður býður ekki upp á þær lausnir sem þarf fyrir erlenda aðila. Flestar erlendu hótelkeðjurnar leigja ekki hótelin heldur gera rekstrarsamninga. Á Íslandi er bankakerfið vant því að til staðar sé leigusamningur. Þetta er áhugaverð staðreynd og kann að skýra hvers vegna nánast engar erlendar keðjur reka hótel á Íslandi. Ástæðan er að erlendu keðjurnar gera ekki leigusamninga og íslenska fjármálakerfið hefur ekki aðlagað sig að þeim veruleika,“ segir Jóhann og tekur fram að samstarfið við þessa erlendu aðila gangi engu að síður vel. Þessi sérstaða íslenska markaðarins flæki hins vegar allan undirbúning.

Spurður hvers vegna hann sé öðrum þræði að horfa til erlendra aðila segist Jóhann telja að markaðurinn þurfi á því að halda. Þá bendir hann á að Bandaríkjamönnum sem komi til Íslands fjölgi. Sá hópur sé áhugasamur um að gista á keðjum sem þeir þekkja. Almennt sé eftirspurnin eftir erlendum hótelkeðjum að aukast á Íslandi.

Hótelið í Vatnsmýri verður 22.450 þúsund fermetrar og með 400-450 herbergjum. Kostnaður við bygginguna er áætlaður um 9 milljarðar króna. Til samanburðar kom fram á mbl.is í lok september að miðað væri við 300-400 herbergi á hótelinu, 8 milljarða fjárfestingu og að byggingin yrði 18 þúsund fermetrar.

Mun betri nýting á Íslandi

„Það er slík eftirspurn núna – og raunar umframeftirspurn – að hótelmarkaðurinn myndi þola það að vaxa ekki neitt og jafnvel að verða fyrir áföllum. Almennt er gert ráð fyrir í hótelrekstri að menn þurfi 65% eða meiri nýtingu til að geta verið á markaði. Íslensku hótelin eru að nálgast 90% nýtingu. Fram kemur í nýrri skýrslu Háskólans á Bifröst að aðeins um 13% af 1.900 íbúðum sem leigðar eru til ferðamanna í Reykjavík í gegnum vefinn Airbnb eru löglegar. Það kemur væntanlega að því að farið verður að þrengja að slíkri ólöglegri starfsemi.“

Fram kemur í umræddri skýrslu Háskólans á Bifröst að árið 2005 voru um 2.000 hótelherbergi í boði á höfuðborgarsvæðinu en um 3.400 herbergi árið 2014. Á sama tíma jókst meðalnýtingin úr um 60% í 85%. Frá síðustu áramótum hafa mörg hundruð herbergi bæst við markaðinn og má þar nefna 320 herbergi í Fosshótelsturninum á Höfðatorgi í Reykjavík. Þá hafa Hótel Stormur (93 herbergi) og Hótel Skuggi (100 herbergi) tekið til starfa á árinu og Hótel Borg tekið í notkun nýja álmu (43 ný herbergi), líkt og Icelandair Hotel Reykjavík Marina (40 ný herbergi).

Alls bættust við 596 herbergi á þessum fimm hótelum sem segir sitt um stærð hótelsins sem áformað er að reisa í Vatnsmýri næstu misseri.

Flýtimeðferð í flugvallarmáli

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur fallist á beiðni Reykjavíkurborgar um flýtimeðferð vegna stefnu borgarinnar á hendur ríkinu. Tilefnið er meintar vanefndir á samningum Reykjavíkurborgar og ríkisins um lokun NA-SV flugbrautar Reykjavíkurflugvallar.

Hefur ríkislögmaður fengið frest til 7. janúar nk. til að skila greinargerð ríkisins í málinu.

Fram kom á fundi borgarráðs 19. nóvember að Reykjavíkurborg hefði „ítrekað farið fram á við innanríkisráðuneytið að það tilkynni um lokun NA-SV flugbrautarinnar og hlutist til um endurskoðun á skipulagsreglum um Reykjavíkurflugvöll í samræmi við skuldbindingar sem ríkið gekkst undir með samningum frá 19. apríl 2013 og 25. október 2013 sem kveða á um að flugbrautinni verði lokað“.