Björn Magnússon fæddist 15. september 1932. Hann lést 29. nóvember 2015.

Útför Björns fór fram 14. desember 2015.

Mér er það bæði ljúft og skylt að minnast tengdaföður míns, Björns Magnússonar, með nokkrum orðum. Ótal minningar renna fyrir hugskotssjónum og í hugann koma orð eins og ljúfmennska, góðvild, æðruleysi. Alla þessa eiginleika átti tengdapabbi í ríkum mæli og svo miklu meira fallegt og dýrmætt sem fjölskyldan geymir nú í minningunni.

Fyrstu kynni okkar tengdapabba voru svolítið brosleg því svo bar til einn sólríkan júnímorgun að kærasta sonarins, ég, sem enginn í fjölskyldunni vissi neitt um enn, átti að sækja sinn heittelskaða á Hörpugötuna. Fyrsta stefnumótið var í uppsiglingu og spenna í loftinu. En ég greip í tómt því þegar ég kom að húsinu þar sem kærastinn átti að standa og bíða, sá ég aðeins ókunnan mann tilsýndar sitja undir bílskúrsvegg og sóla sig. Hann kom strax á móti mér og sagði að sonurinn hlyti að vera rétt ókominn og bætti við blátt áfram og ljúflega: „Viltu ekki setjast hérna í sólina með mér?“ Örstuttu síðar kom kærastinn, skelfingu lostinn yfir að nú væri búið að klúðra sambandinu sem alls ekki var, eins og sagan sýnir. En svona viðbrögð voru einkennandi fyrir tengdapabba.

Fyrsta jeppaferðin með Sigrúnu og Birni um hálendið er mér minnisstæð. Það var snemma sumars 1982 og fremur kalt í veðri. Stöðugt gátum við hjónin ausið af þekkingu þeirra og reynslu hvar sem komið var. Ég man vel fyrsta kvöldið þegar við stoppuðum í næturstað hvernig tengdapabbi dró mig íbygginn aftur fyrir jeppann sinn, opnaði skottið og við blasti haganlega gerður ferðabar með öllu tilheyrandi. Aldrei hafði ég séð neitt þvílíkt.

Síðan komu barnabörnin hvert af öðru og það þarf ekki að orðlengja það hve afburða barngóður afinn var og hvernig börnin hændust að honum. En þau voru ung þegar hann fékk heilaáfall, langt um aldur fram. Þá komu talörðugleikar til sögunnar og erfiðara varð fyrir hann að tjá sig. Slíkt er áreiðanlega þungbært fyrir góðan afa. En alla tíð hefur afi skipað alveg sérstakan sess í lífi þeirra. Þau þakka nú ljúfar minningar.

Eins og fyrr segir þá veiktist tengdapabbi alvarlega, allt of ungur, 59 ára gamall. Upp frá því fannst mér æðruleysið verða mest áberandi þáttur í lífi hans. Það var svo eftirtektarvert og okkur öllum til eftirbreytni. Lengst af á sjúkdómsgöngu sinni virtist hann sem betur fer lífsglaður miðað við aðstæður, enda færniskerðingin minnst fyrst. En síðustu mánuði dró hægt af honum. Sigrún, tengdamóðir mín, stóð fast við hlið hans. Þeir voru ekki margir dagarnir sem hún lét sig vanta á Hrafnistu og sinnti um hann af alúð. En svo hrakaði honum nokkuð skyndilega og hann lést innan sólarhrings. Það var engu líkara en hann hefði tekið þennan fallega sunnudag frá, fyrsta sunnudag í aðventu, til að kveðja þennan heim í sátt. Allir þeir nánustu voru búnir að koma og kveðja hann, þeir sem voru á annað borð á landinu, og hann lést rétt fyrir miðnættið.

Ég og fjölskylda mín þökkum og blessum minningu góðs manns. Megi góður Guð styrkja okkur öll sem syrgjum.

Guðrún Dóra Guðmannsdóttir.

Þakklæti er mér efst í huga þegar góður bróðir er horfinn á braut, þakklæti fyrir langa samleið og góða. Það verður erfitt að velja úr öllum þeim aragrúa minninga sem hann skilur eftir. Hann var barngóður með afbrigðum og nutum við yngri systkinin þess ríkulega. Ekki nóg með það, Búbbi, eins og fjölskyldan kallar hann, var alltaf til í að glettast við vinkonur mínar þótt aldursmunurinn væri 10 ár. Þær voru ekki margar sem áttu stóran bróður og hvað þá tvo, eins og ég var svo heppin að eiga. Búbbi skemmti vinum mínum í eftirfermingarveislunni minni og sló auðvitað í gegn. Það er í raun ótrúlegt hvað við áttum mikla samleið þrátt fyrir aldursmuninn. Þar munaði miklu, að maðurinn minn gekk í Lionsklúbbinn Frey en þar var Búbbi stofnfélagi. Á hverju sumri var farið í merkingarferðir og þá sett upp skilti við merka staði sem oft var erfitt að koma fyrir. Þarna naut bróðir minn sín til hins ýtrasta enda var hann eins og alfræðiorðabók þegar kom að örnefnum landsins, þekkti nánast hverja þúfu með nafni. Hann og aðrir félagar klúbbsins kenndu okkur ótalmargt enda voru þarna kappar úr Jöklarannsóknarfélaginu sem kunnu að fara um viðkvæm öræfi landsins okkar fagra. Ein minningin er þegar Gæsavatnaleið var merkt og átti að merkja m.a. kvíslar sem mynda Jökulsá á Fjöllum. Þegar áð var í Gæsavötnum var einu skilti ofaukið vegna þess að farvegur einnar kvíslarinnar var skraufþurr. Það varð því að snúa við og færa skiltin til að rétt væri farið með en sem betur fer þurfti bara að grafa einn staur til viðbótar, sem var það erfiðasta. Þessi ferð er ofarlega í minningunni bæði vegna þessa atviks og eins hversu ótrúlega flókið og erfitt það var að fara í svona ferðir en líka hversu góð öll skipulagning var og undirbúningur góður. Það voru þó ekki bara ferðalög sem bundu okkur vinaböndum. Við vorum heldur betur heppin með foreldra, áttum yndislega æsku á heimili þar sem allir voru ævinlega velkomnir. Sigrún, mágkona mín, bættist í hópinn og sonurinn Magnús stuttu síðar og bjuggu þau fyrst í kjallaranum á heimili okkar á Hagamel 17 en fluttu stuttu síðar en ekki langt, bara yfir á 21. Þar var ég heimagangur, passaði Magnús oft og síðar Ragnar.

Á meðan ég og maðurinn minn bjuggum í Kaupmannahöfn, kom Búbbi oft í heimsókn enda ferðaðist hann mikið vinnu sinnar vegna. Hann var sannarlega velkominn og áttum við margar ánægjustundir í kóngsins Köben. Aðeins 59 ára varð Búbbi fyrir því áfalli að fá heilablæðingu sem setti heldur betur mark á allt hans líf eftir það. Hann varð óvinnufær og missti margt, m.a. hæfileikann til lesturs og sérnöfn hurfu úr minninu. Hann kvartaði samt aldrei enda má segja að hann hafi verið mesta Pollýanna í heimi. Eftir ítrekaðar blæðingar, sem ollu meiri og meiri skaða, gat hann alltaf fundið eitthvað jákvætt. Honum leið alltaf vel, að eigin sögn, og leiddist aldrei en var þó bundinn hjólastól. Það er hægt að læra svo óendanlega margt af viðhorfi og lífssýn þessa góða bróður.

Ég kveð hann með virðingu og þökk. Guð blessi minningu hans.

Stefanía Magnúsdóttir (Níní).