[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigríkur fæddist í Bolungarvík 15.12. 1965 og ólst þar upp til átta ára aldurs. Þá flutti fjölskyldan í Grænuhlíð í Hjaltastaðaþinghá á Fljótsdalshéraði og þar átti hann heima þar til hann hleypti heimdraganum rúmlega tvítugur.
Sigríkur fæddist í Bolungarvík 15.12. 1965 og ólst þar upp til átta ára aldurs. Þá flutti fjölskyldan í Grænuhlíð í Hjaltastaðaþinghá á Fljótsdalshéraði og þar átti hann heima þar til hann hleypti heimdraganum rúmlega tvítugur.

Sigríkur var tvö ár í Barnaskóla Bolungarvíkur, var síðan í heimavist í Barna- og unglingaskólanum á Eiðum, lauk 8. og 9. bekk í Alþýðuskólanum á Eiðum og var eitt ár í Héraðsskólanum á Laugum í Reykjadal 1981-82. Hann hóf síðar nám við Bændaskólann á Hólum 1986 og lauk þaðan búfræðiprófi 1988.

Sigríkur ólst fyrst upp við sjávarsíðuna en síðan við öll almenn sveitastörf þess tíma en í Grænuhlíð var blandað bú. Hann vann við bústörf fram yfir tvítugt en var auk þess á vertíðum, s.s. í Grundarfirði, á Breiðdalsvík og á Fáskrúðsfirði.

Eftir námið á Hólum hóf Sigríkur störf við tamningar en starfaði auk þess á sambýlinu á Gauksmýri í Húnavatnssýslu 1992-93 og vann við unglingaheimili á Stóru-Gröf og síðan á Bakkaflöt í Skagafirði á árunum 1993-98.

Að því loknu vann Sigríkur alfarið við tamningar, fyrst í Skagafirði. Hann flutti með fjölskyldunni í New York-ríki í Bandaríkjunum árið 2000 og vann þar að uppbyggingu hestabúgarðs fyrir íslenska hesta. Hann flutti aftur heim vorið 2003, festi kaup á jörðinni Syðri-Úlfsstöðum í Austur-Landeyjum og hefur rekið þar hrossabú síðan, þar sem fjölskyldan ræktar hross og starfrækir tamningastöð: „Áhuginn á hrossum kom ekki fyrr en ég var kominn undir tvítugt. Ég lagði því áherslu á hrossarækt og hrossaumsýslu í náminu á Hólum og áhuginn hefur vaxið stöðugt síðan. Þetta er þannig starf að maður verður að hafa mikinn áhuga á hrossum til að sinna þeim af kostgæfni.“

Þegar hrossunum sleppir hefur Sigríkur áhuga á veiðimennsku, hvoru tveggja stangveiði og skotveiði: „Svo hef ég verið að vasast í félagsmálum, er nú formaður Hrossaræktarsamtaka Suðurlands og hef yfirleitt verið virkur í hestamannafélögum þar sem ég hef búið og starfað hverju sinni. Ég held ég sé ekkert að telja upp fleiri hugðarefni enda er það starfið og hrossin sem maður hefur mestan áhuga á og ég er að vasast í frá morgni til kvölds.“

Fjölskylda

Eiginkona Sigríks er Sigríður Kristjánsdóttir, f. 26.5. 1967, skrifstofumaður við sýsluskrifstofuna á Hvolsvelli. Foreldrar hennar: Ásta Guðmundsdóttir, f. 28.1. 1948, húsfreyja í Úlfsey í Landeyjum, og Kristján Jóhann Agnarsson, f. 4.7. 1946, d. 20.11. 2002, forstjóri Kassagerðar Reykjavíkur. Stjúpmóðir Sigríðar er Andrea Guðnadóttir, f. 9.12. 1950, kennari í Garðabæ.

Dætur Sigríks og Sigríðar eru Bryndís Sigríksdóttir, f. 30.10. 1993, nemi í viðskiptafræði við HÍ, búsett í Reykjavík en unnusti hennar er Ómar Friðriksson, nemi í íþróttafræðum við HR; Rikka Sigríksdóttir, f. 7.3. 2000, nemi við Grunnskólann á Hvolsvelli, og Sara Sigríksdóttir, f. 9.11. 2005, nemi við Grunnskólann á Hvolsvelli.

Systkini Sigríks eru Arnþór Jónsson, f. 28.1. 1962, véltæknifræðingur á verkfræðistofu á Ísafirði, búsettur í Bolungarvík; Freyja Jónsdóttir, f. 15.1. 1969, húsfreyja í Borgarfirði eystra; Dagbjartur Jónsson, f. 19.10. 1972, vélstjóri við Fljótsdalsvirkjun, búsettur í Fellabæ; Geirþrúður Jónsdóttir, f. 17.2. 1974, húsfreyja í Dubai í Sameinuðu furstadæmunum; Eygló Jónsdóttir, f. 31.1. 1975, húsfreyja í Noregi, og Trausti Jónsson, f. 7.6. 1977, d. 27.8. 2000, var bóndi á Randversstöðum í Breiðdal.

Foreldrar Sigríks: Emelía Mýrdal Jónsdóttir, f. 26.4. 1938, til heimilis í Grænuhlíð í Hjaltastaðaþinghá, og Jón Gunnlaugs Þórðarson, f. 14.7. 1938, d. 29.12. 2013, bóndi í Grænuhlíð.