Porsche Cayenne Plug-In Hybrid er þýðgengur og fágaður í akstri en fer létt með að spretta úr spori þegar slegið er í. Það er hrein unun að aka þessum kraftmikla bíl.
Porsche Cayenne Plug-In Hybrid er þýðgengur og fágaður í akstri en fer létt með að spretta úr spori þegar slegið er í. Það er hrein unun að aka þessum kraftmikla bíl.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mómentið hjá Porsche heldur áfram. Fyrirtækið hefur átt miklu bílaláni að fagna undanfarin misseri þar sem hvert toppmódelið á fætur öðru (Macan, 911 Targa, nýr Cayenne) hefur litið dagsljós.
Mómentið hjá Porsche heldur áfram. Fyrirtækið hefur átt miklu bílaláni að fagna undanfarin misseri þar sem hvert toppmódelið á fætur öðru (Macan, 911 Targa, nýr Cayenne) hefur litið dagsljós. Bílarnir eru margvíslegir að gerð en einlægt skulu þau fantavel heppnuð. Kjarni málsins er vitaskuld sá að hvaða nafni sem tiltekin týpa kann að nefnast þá er erfðaefnið ávallt til staðar og alla bílana ber að sama brunni sportbílsins sem er að finna í kjarna hvers einasta módels. Hafi svo einhver haft áhyggjur af því að rafmagnsútfærslur væru minna spennandi kostur – „því rafbílar eru alltaf einhverjar bévaðar saumavélar“ – þá skal hinum sömu snarlega bent á að allt slíkt tal er fráleitt.

Fjarri en samt svo nærri uppruna sínum

Það hefði í eina tíð þótt sæta allmiklum tíðindum að frá Porsche kæmi jeppi. Að sama skapi fannst einhverjum það saga til næsta bæjar þegar fyrirtækið tilkynnti að það hygðist hasla sér völl á vettvangi rafbíla. Rafknúinn jeppi má því við fyrstu sýn virka sem eitthvað órafjarri uppruna hinna eftirsóknarverðu þýsku sportbíla. Í konseptinu er það sjálfsagt svo – þetta hljómar ekki neitt í ætt við 911-bílinn – en þegar sest er undir stýri og akstur hafinn blasir skyldleikinn undireins við. Porsche Cayenne Plug-In Hybrid er einfaldega frábærlega skemmtilegur akstursbíll og nú búinn rafhleðslutækni sem gerir hann að enn meira spennandi valkosti. Bæði er þar um að ræða innstunguhleðslu þegar slökkt er á bílnum en einnig má stilla á „E-Charge“ og þá hleður hann sig á ferðinni, glettilega fljótt og vel. Í innanborgarstússi er svo hægt að láta hann ganga á rafmagni einu saman, einmitt við þær aðstæður þegar bílar hreinlega leka bensíninu í löturhægagangi og stoppað ótt og títt, og má því segja að Porsche hafi veðjað á hárréttan hest þegar hliðsjón er höfð af þeim samþykktum sem festar voru á loftslagsráðstefnunni í París um daginn. Jarðefnaeldsneyti er á útleið og bílaframboð Porsche ber þess merki í auknum mæli. Rafmagnið fer Porsche vel og framtíðin er björt.

Sportbíll í jeppabúningi

Eins og framar greinir hefur Porsche borið gæfu til að halda sportlegum aksturseiginleikum til staðar, sama hver bíllinn er. Cayenne fer nærri tveimur og hálfu tonni en rýkur engu að síður af stað með rymjandi krafti og nær í hundraðið á rétt um sex sekúndum. Það er hreint frábær keyrsla og hér er ekki verið að fórna hinni væntu skemmtun sem alla jafna hlýst af akstri Porsche, bara af því umræddur bíll er jeppi. Innanstokks er allt umhverfi ökumanns keimlíkt því sem maður á að venjast úr öðrum módelum frá Porsche, uppröðun takka og framsetning búnaðar er nokkurn veginn allt saman á sömu bókina lært. Ökumaður situr hátt og plássið er nægt en hátt til lofts og vítt til hliðarrúða. Um innviði Porsche er óþarfi að fjölyrða að ráði; búnaður er feikivel útilátinn og efnisval framúrskarandi fínt. Hér sem í öðrum týpum Cayenne sem undirritaður hefur ekið er það þó óneitanlega ókostur að jafn gríðarlega vel búinn bíll skuli ekki vera með bakkmyndavél sem staðalbúnað. Hennar sakna ég sem fyrr.

Ótrúlega umhverfisvænn!

Aftur að umhverfisvænum eiginleikum bílsins. Annars vegar hleður hann sig í akstri og þegar bíll skartar jafn öflugri vél að upplagi kemur ekki að sök þótt rafallinn sem hleður rafhlöðuna gegnum akstur bílsins sé gangsettur. Það er nánast með ólíkindum hversu fljótt nálin í mælaborðinu rís, og gefur þannig til kynna að rafhleðslunni vaxi ásmegin á rafhlöðunni. Þá er hann býsna snöggur að hlaða sig þegar stungið hefur verið í samband, sem er alltaf kostur. Í því sambandi má ennfremur nefna að nú er hægt að fá Cayenne Plug-In Hybrid með nýjum búnaði sem er nokkurs konar stækkun á „on board charger“ eða því sem lýsa mætti sem innbyggðri hleðslustöð bílsins. Upp á staðlaða mátann kemur hún 3.6 kw en hægt er að uppfæra hana í 7.2 kw og styttir það bæði hleðslutíma í akstri og hleðslu þegar bílnum er stungið í samband. Hleðslutíminn minnkar þannig úr 2,7 klst í 1,3 klst með því að stækka hleðslustöðina. Drægið á rafmagninu einu saman er allt að 36 kílómetrar.

Enn er ótalið eitt stærsta trompið; koltvísýringsgildið er ekki nema skitin 79 grömm á hundraðið! Geri aðrir betur! Þetta gerir það að verkum að bíllinn er á hagstæðara verði en búast hefði mátt við af bíl með aðra eins vigt, þökk sé núllflokki í tollinum. Það er af sem áður var er jeppar voru litnir hornauga sem undantekningarlausir útblásturssóðar og mengunarpésar. Porsche Cayenne Plug-In Hybrid tekur sér hér með stöðu í fremstu röð hvað varðar umhverfisvænleika í bland við ómengaða skemmtun í akstri.

jonagnar@mbl.is