Árni Richard Árnason
Árni Richard Árnason
Eftir Árna Richard Árnason: "Árni Richard Árnason segir frá baráttu sinni við heilbrigðisyfirvöld til að fá viðurkenningu á að mistök hafi verið gerð í krossbandsaðgerð."
Haustið 2007 gekkst ég undir krossbandsaðgerð í Orkuhúsinu þar sem sinar voru fjarlægðar af tveimur vöðvum í aftanverðu læri til að endurbyggja nýtt krossband. Árið 2009 kvartaði ég til landlæknisembættisins um að krossbandið hefði verið rangt staðsett, sem leiddi til þess að það slitnaði skömmu eftir aðgerð, og sjúkraþjálfun hefði verið of áköf, sem leiddi til eyðileggingar fyrrnefndra vöðva og síðan þá hefur lærið á mér verið hræðilega afskræmt og ég hef ekki getað hlaupið.

Þegar sinar eru teknar af vöðvum í aftanverðu lærinu standa eftir vöðvar án sina. Í frumrannsóknum á sinatöku hefur verið sýnt fram á að styrkur lærisins eftir sinatöku varðveitist ef ekki er beitt neinni þjálfun á aftanvert lærið. Aðrar rannsóknir hafa sýnt að nýjar sinar endurmyndast með tímanum en engar nýjar sinar eru þó sjáanlegar fyrr en um 6 vikum eftir sinatöku. Þess vegna tíðkast að stunda engar æfingar með mótstöðu í 6-12 vikur á umrædda vöðva, og engar svokallaðar „eccentric“-æfingar án mótstöðu í 1-2 mánuði eftir aðgerð, því að kraftur vöðvanna er mikill og hættan á að ofreyna vefjavöxt er augljós. Í sjúkraþjálfun er grundvallarregla að ofreyna ekki gróandi vef. Ég hef lagt fram viðamikil vísindaleg gögn sem sýna fram á þetta.

Í eftirmeðferðinni var ég látinn hefja margvíslegar æfingar á aftanverðu lærinu fyrsta daginn og fyrstu vikuna eftir aðgerð, og æfingar með mótstöðu hófust aðeins átta dögum eftir aðgerð, löngu fyrir endurmyndun sinanna. Þessi meðferð er verulega ákafari en áköfustu meðferðir sem tíðkast. Ég fékk enga þrepaskipta áætlun eða skriflegar upplýsingar um eftirmeðferðina í heild eins og tíðkast. Tvisvar í sjúkraþjálfunarferlinu var meðferð hætt og ég fékk ekki nýjan tíma hjá sjúkraþjálfara þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Eftirfylgni læknis var engin.

Landlæknisembættið og heilbrigðisráðuneytið hafa komið sér upp kerfi til að koma í veg fyrir að mistök verði viðurkennd. Landlæknir fær umsagnaraðila til að skrifa umsagnir þar sem staðreyndir eru hunsaðar eða afbakaðar til að fá fram „rétta“ niðurstöðu sem er „ekki verður séð að mistök hafi átt sér stað“. Sjúklingur svarar rangfærslunum með löngu bréfi sem umsagnaraðilar svara ekki. Í kæru til heilbrigðisráðuneytisins neitar ráðuneytið að fjalla efnislega um málið og vísar málinu frá.

Í málsmeðferð landlæknisembættisins var umsagnaraðilinn Magnús Örn Friðjónsson, sjúkraþjálfari. Hann segir að sjúkraþjálfunin hafi verið of áköf, en ákveður svo að hún hafi ekki verið að ráði sjúkraþjálfarans og ég hafi fundið upp á henni sjálfur! Þetta er ótrúlega fjarstæðukennt því það kemur skýrt fram í máli meðferðaraðilans að æfingarnar hafi verið ráðlagðar svo snemma í meðferðinni. Einnig hafa aðrir sjúklingar fengið sömu ráðleggingar. Meðferðaraðilinn mótmælti meira að segja fullyrðingum Magnúsar um að meðferðin hefði verið of áköf, meðferð sem ég átti að hafa fundið upp á sjálfur! Magnús sýnir ótrúlega hlutdrægni með ýmsum öðrum hætti. Hann segir að ekkert vit sé í að notast við þrepaskipta sjúkraþjálfun þó hann vitni í margar slíkar frá erlendum aðilum og jafnvel skrifar upp slíkt plan í umsögninni. Svo segir hann að þar sem ég hafi verið keppnishlaupari hafi ég ekki þurft leiðsögn frá sjúkraþjálfara! Ég skil ekki hvernig maður verður sérfræðingur í krossbandssjúkraþjálfun af því að hlaupa.

Í stjórnsýslukæru minni til ráðuneytisins fór ég fram á að Magnús yrði úrskurðaður vanhæfur á grundvelli 6. tölul. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem segir að vanhæfi eigi við ef til eru „ástæður sem eru fallnar til þess að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu“. Í úrskurði ráðuneytisins segir að við beitingu þessarar hæfisreglu þurfi viðkomandi að eiga „einstaklegra hagsmuna að gæta við úrlausn máls“. Hér er ráðuneytið greinilega að vitna í 5. tölulið greinarinnar en ekki 6. lið og niðurstaða ráðuneytisins því að Magnús sé hæfur.

Þó vísar ráðuneytið málinu aftur til nýrrar meðferðar, þar sem í áliti landlæknisembættisins koma ekki fram kvartanir mínar né rökstuðningur, og ekki einu sinni nafn aðalskurðlæknis krossbandsaðgerðarinnar sem er læknir sem ég hef aldrei séð.

Það var fyrst þegar meira en sex ár voru liðin frá aðgerð að ég fékk viðurkennda bótakröfu í sjúklingatryggingu. Til að fá bætur hef ég gengist undir örorkumat sumarið 2014 en örorkumatsmenn hafa enn ekki klárað matið. Ég get ekki farið með málið til dómstóla fyrr en örorkumat liggur fyrir. Núna eru liðin meira en átta ár frá aðgerðinni í Orkuhúsinu og tíminn að renna út. Mig hryllir við tilhugsuninni að dómstólar séu mögulega eins spilltir og heilbrigðisyfirvöld

Höfundur er stærð- og verkfræðingur.