[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
EM2016 Víðir Sigurðsson vs@mbl.
EM2016

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Ekki er annað að sjá en að forráðamenn íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu hafi verið tiltölulega heppnir þegar þeir völdu sér alpabæinn Annecy sem dvalarstað á meðan liðið tekur þátt í úrslitakeppni Evrópumótsins í Frakklandi næsta sumar.

Annecy er 50 þúsund manna bær í frönsku Ölpunum, alveg við svissnesku landamærin, og þaðan eru bara 35 kílómetrar yfir í svissnesku borgina Genf. Annecy er ágætlega staðsett miðað við fyrstu tvo leiki Íslands, sem eru í Saint-Étienne og Marseille og ljóst að ferðalögin hefðu getað orðið miklu lengri ef öðruvísi hefði dregist í riðla keppninnar á laugardaginn.

„Við völdum Annecy þegar undankeppnin var hálfnuð og höfðum þá úr 50-70 stöðum að velja í Frakklandi, af þeim sem í boði voru. Okkur leist best á Annecy af ýmsum ástæðum. Við vildum ekki vera á heitasta stað í Frakklandi, ekki í miðborg og heldur ekki langt úti í sveit. Niðurstaðan var sú að Annecy hentaði Íslandi vel og eftir að dregið var í riðlana á laugardaginn held ég að þetta hafi verið með betri svæðum sem við gátum valið,“ sagði Heimir Hallgrímsson, annar landsliðsþjálfara Íslands, við Morgunblaðið í gær.

Heimir sagði að ljóst væri að liðið myndi keyra í fyrsta leikinn í Saint-Étienne, enda tæki það ekki nema í kringum tvo klukkutíma. Íslenska liðið þarf alltaf að vera mætt á leikstað daginn fyrir leik og kemur því til Saint-Étienne frá Annecy mánudaginn 13. júní. Ekki er ólíklegt að gist verði í Saint-Étienne eftir leik þar sem leikið er seint að kvöldi, kl. 21 að staðartíma.

Keyrum til Saint-Étienne

„Við keyrum til Saint-Étienne, það er alveg á hreinu. Umstang í kringum flug gæti tekið lengri tíma. Það er verið að skoða ferðamátann til Marseille og Parísar, út frá því hvort sé betra að keyra eða fljúga og ákvörðun um það verður tekin fljótlega,“ sagði Heimir en eins og sjá má á kortinu tekur um fjóra tíma að keyra til Marseille og fimm tíma til Parísar.

Þess má geta að líkast til myndi liðið fara yfir landamærin til Sviss og fljúga frá Genf, verði sá ferðamáti fyrir valinu. Reyndar er líka flugvöllur í Annecy.

Heimir, Lars Lagerbäck og forráðamenn landsliðsins voru í Annecy í gær til að fara betur yfir aðstæður. „Þetta lítur vel út og það eina sem við settum út á síðast, æfingasvæðið sjálft, hefur verið tekið vel í gegn. Við vonumst eftir því að þarna verði allt 100 prósent. Svæðið er rólegt og svo verðum við á hóteli sem er aðeins fyrir utan bæinn sjálfan. Lars átti að sjálfsögðu drjúgan þátt í að velja þennan stað, með alla sína reynslu af stórmótum, og strákarnir fengu sjálfir að taka þátt í þessu vali okkar,“ sagði Heimir, en íslenska liðið átti enn fimm leiki í undankeppninni þegar dvalarstaðurinn var ákveðinn.

Fótboltaævintýri í Annecy

Í Annecy hefur á undanförnum árum átt sér stað eitt mesta ævintýri í sögu franska fótboltans. Enginn hafði heyrt af liðinu Évian Thonon Gaillard sem vann frönsku áhugamannadeildina, D-deildina, tímabilið 2007-2008. Enda var það stofnað árið 2007 og byrjaði því heldur betur með látum. Évian vann C-deildina 2010, B-deildina 2011 og var komið í efstu deild það haust, fjögurra ára gamalt. Þar náði Évian 9. sæti 2011-12, komst í úrslitaleik bikarkeppninnar 2013, en féll aftur niður í B-deildina síðasta vor. Þar er liðið nú í 12. sæti af 20 liðum og hefur því aðeins slegið á ævintýraljómann í bili.

Annecy er líka í nágrenni margra helstu skíðastaða Frakklands og sótti um að fá að halda vetrarólympíuleikana árið 2018 en beið lægri hlut fyrir Pyeongchang í Suður-Kóreu. Þá er bærinn ein helsta miðstöð áhugamanna um svifdrekaflug og þar hefur m.a. verið haldið heimsmeistaramót í þeirri grein.

Bærinn hefur ekki alltaf tilheyrt Frakklandi. Héraðið var undir stjórn konungsríkisins Sardiníu í margar aldir en færðist yfir til Frakklands árið 1860, ári áður en Sardiníuríkið fékk betur þekkt nafn sitt í dag, Ítalía.

Annecy
» Ríflega 50 þúsund manna bær í héraðinu Rhone-Alpes, í suðausturhluta Frakklands. Aðeins 35 km frá Genf í Sviss.
» Annecy er við samnefnt vatn og í nágrenninu eru vinsælir skíðastaðir og keppnisstaðir í svifdrekaflugi.
» Bærinn hefur verið byggður frá tímum Rómverja, eða í 1.500-2.000 ár.