Dekkjunum er ætlað að endurnýta hitaorkuna sem verður til í þeim á ferð.
Dekkjunum er ætlað að endurnýta hitaorkuna sem verður til í þeim á ferð.
Mikil tækni liggur að baki þróun og framleiðslu bíldekkja. Þau eru ekki bara gúmmí og stálþræðir. Dekkjaframleiðendur horfa stundum langt inn í framtíðina.
Mikil tækni liggur að baki þróun og framleiðslu bíldekkja. Þau eru ekki bara gúmmí og stálþræðir. Dekkjaframleiðendur horfa stundum langt inn í framtíðina.

Á bílasýningunni í Genf kynnti Goodyear til að mynda tvö framúrstefnuleg dekk sem endurspegla mat fyrirtækisins á vissum framtíðarþáttum í vegasamgöngum.

Bílar endurheimta nú orðið nokkuð af orkunni sem fer í að knýja þá, með kerfum sem endurnýta til dæmis hemlunarorku svo og skriðorku á ferð.

Goodyear freistar þess að stíga næsta skref í þessari þróun með BH03-hugmyndadekkinu sem ætlað er að nýta hitann sem myndast í því á ferð til framleiðslu á rafmagni. Þessi lausn myndi skila stöðugri hleðslu svo lengi sem dekkið snýst.

Hitt hugmyndadekkið nefnist Triple Tube og er þeirrar náttúru að geta aðlagað dekkið að aðstæðum og umhverfi. Eins og nafnið bendir til er það í raun þrjár slöngur undir sólanum, ein í miðjunni og hinar tvær undir öxlum dekksins. Innri loftdæla lagar þrýsting í hverri þeirra og er um þrjár stillingar að ræða fyrir hverja slöngu.

Ein myndi hámarka loftþrýsting í þeim öllum í þágu betri nýtingar eldsneytis með minna veltiviðnámi. Önnur myndi auka snertiflöt dekksins í þágu betri meðfærileika bílsins og sú þriðja myndi fylla miðslönguna í votviðri til að draga úr vatnsskautun.

Talsmaður Goodyear segir að dekk þessi séu á algjöru hugmyndastigi. Þau sýni engu að síður hvað hugsanlega verður hægt að gera í framtíðinni með nýjum tæknilausnum.

agas@mbl.is