Alþingi Unnur Brá Konráðsdóttir er formaður allsherjarnefndar.
Alþingi Unnur Brá Konráðsdóttir er formaður allsherjarnefndar. — Morgunblaðið/Ómar
Lögmaður tveggja albanskra fjölskyldna, sem ekki fengu hæli hér á landi og fluttar voru til síns heima í síðustu viku, hefur sótt um íslenskan ríkisborgararétt fyrir fólkið, alls um átta einstaklinga.
Lögmaður tveggja albanskra fjölskyldna, sem ekki fengu hæli hér á landi og fluttar voru til síns heima í síðustu viku, hefur sótt um íslenskan ríkisborgararétt fyrir fólkið, alls um átta einstaklinga. Tvö börn í þessum fjölskyldum eiga við alvarleg veikindi að stríða.

Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður allsherjarnefndar Alþingis, segir að ekki hafi gefist tími til að fara yfir umsóknirnar. Hún er ásamt tveimur öðrum þingmönnum í undirnefnd allsherjarnefndar sem ætlað er að gera tillögu til nefndarinnar um hvaða einstaklingum eigi að veita ríkisborgararétt með lögum. Venjan er að Alþingi afgreiði slíkar tillögur tvisvar á ári. Unnur Brá segir að tillagan verði lögð fram þannig að hægt verði að afgreiða hana fyrir þingfrestun fyrir jól.

Hún segir ekkert hægt að fullyrða um niðurstöðu Alþingis um málefni albönsku fjölskyldnanna.

Skapar ekki fordæmi

Meginreglan er sú að fólk sem sækir um ríkisborgararétt sé statt á landinu. Það á ekki við um albönsku fjölskyldurnar. Bobby Fischer skákmeistari og ómálga barn sem kom frá Indlandi eru undantekningar frá þessu. Unnur Brá óttast ekki að hugsanleg ákvörðun þingsins um að veita albönsku fjölskyldunum ríkisborgararétt með þessum hætti skapi fordæmi fyrir aðra flóttamenn sem fá synjun hjá Útlendingastofnun. Hún bendir á að ríkisborgararétturinn sé ávallt veittur samkvæmt lögum frá Alþingi. Ef þingið telji að einhver mál séu svo sérstök að þau fari í þennan farveg, hafi það ekki fordæmisgildi.

Innanríkisráðherra hefur óskað eftir því við forseta Alþingis að fá að flytja munnlega skýrslu um flóttamannamálin. Vonast Ólöf Nordal til að það verði síðar í vikunni.

helgi@mbl.is

Óskað eftir upplýsingum

Innanríkisráðherra hefur óskað eftir skýringum Útlendingastofnunar og Rauða kross Íslands á því hvernig staðið er að málum við brottvísun fólks sem ekki fær hæli hér á landi, sérstaklega með tilliti til barna. Kom þetta fram í svari við óundirbúinni fyrirspurn Katrínar Jakobsdóttur, formanns VG, um brottvísun tveggja albanskra fjölskyldna með tilliti til barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Ólöf Nordal sagðist, eins og þingheimur allur, þurfa að skilja það hvernig þessir hlutir ganga fyrir sig. Fyrirspurnin til Útlendingastofnunar lýtur sérstaklega að því hvort regluverkið nái utan um þennan tilgang og hvaða breytingar þurfi að gera til að svo verði.