Ævistarf Hildur Guðnadóttir, sellóleikari og tónskáld, hóf tónlistarnám fimm ára og starfar enn þann dag í dag við tónlist.
Ævistarf Hildur Guðnadóttir, sellóleikari og tónskáld, hóf tónlistarnám fimm ára og starfar enn þann dag í dag við tónlist. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
Vilhjálmur A. Kjartansson vilhjalmur@mbl.
Vilhjálmur A. Kjartansson

vilhjalmur@mbl.is

Tónskáldið og tónlistarkonan Hildur Guðnadóttir hefur verið viðloðandi tónlist frá unga aldrei en hún var aðeins fimm ára þegar hún byrjaði að spila á selló og á unglingsárunum fór hún að vera viðriðin hljómsveitarbransann að eigin sögn. Leikurinn var því ójafn þegar kom að öðrum greinum, en kom aldrei til greina að gera eitthvað annað en að starfa í tónlistinni?

„Þrátt fyrir að það sé eitthvað af veirufræðingum og lögfræðingum í fjölskyldunni starfar mjög stór hluti hennar við tónlist eða er á einhvern hátt viðloðandi hana svo mér þótti þetta því mjög eðlilegur vettvangur að leita inn á og spennandi,“ segir Hildur enda tónlistin meira en bara vinna.

„Tónlistin er mín líflína, ég hætti ekki í henni úr þessu,“ og bætir við að ef hún sé fjarri tónlistinni í nokkra daga komi upp eirðarleysi og hún eigi það til að verða uppstökk.

Ástfangin af Berlín

Hildur er búsett í Berlín en kynntist borginni fyrst árið 2003 þegar hún var skiptinemi í UdK, Listaháskóla Berlínar.

„Ég varð strax ástfangin af borginni og hef verið það meira og minna síðan. Það eru ótalmargar ástæður fyrir því að mér líður vel í Berlín. Hún er mjög róleg, og þar er mikið olnbogarými. Þar er mjög auðvelt að hverfa og það hentar mér rosalega vel af því ég þarf mikið rými til að vera ein með hugsunum mínum.“

Það skemmir ekki fyrir að Berlín er einstök menningarborg að sögn Hildar og auðvelt að týna sér í menningarlífi borgarinnar.

„Ég ferðast líka mjög mikið og Berlín er miðsvæðis svo hún hentar mjög vel fyrir þessi Evrópuhopp mín, sem ég stunda mikið. Tónleikadagskráin mín er yfirleitt þannig að ég hoppa í flug að morgni til, spila síðan seinna sama dag eða kvöld og er komin aftur heim til Berlínar um hádegisbil daginn eftir. Þetta er kannski ekki dagskrá eða lífsstíll sem hentar öllum en mér finnst þetta mjög þægilegt. Nú er ég líka búin að vera svo lengi í borginni að hún er orðin mitt heimasvæði.“

Myrkir músíkdagar

Þrátt fyrir að lifa og starfa í Berlín er Hildur dugleg að heimsækja Ísland og segir mikilvægt að halda tengslum við landið enda fjölskyldan hennar og vinir margir hér á landi.

„Vissulega er margt sem fær hugann á flug til Íslands, ég nefni bara sem dæmi íslensku flatkökurnar og sjóndeildarhringinn. Ég er samt ekki tilbúin að koma heim, ekki alveg strax. Það gerist samt kannski einhvern tímann.“

Hildur er þó ekki alveg farin því hún kemur reglulega heim og nýlega var frumflutt verk eftir hana á Myrkum músíkdögum.

„Verkið Point of Departure var skrifað fyrir Nordic Affect. Þær pöntuðu þetta verk hjá mér eftir að ég skrifaði sólófiðluverk fyrir Höllu Steinunni, sem er listrænn stjórnandi hópsins. Það hefur því staðið til í nokkur ár að skrifa þetta verk. Það er mjög gaman að vinna með Nordic Affect, þær eru mjög ástríðufullar í því sem þær taka sér fyrir hendur og mjög duglegar að panta verk frá tónskáldum. Það er líka alltaf gaman að koma heim á Myrka músíkdaga og heyra hvað vinir manns eru að gera á Íslandi. Það er ákveðin orka í tónlistarsenunni heima sem ég finn ekki annars staðar. Svona einhver blanda af ástríðu og kaotík.“

Heimur kvikmyndaiðnaðarins

Oft gleymist að kvikmyndir eru meira en bara þekkt andlit leikara og stór nöfn leikstjóra og framleiðenda. Góð tónlist getur gert gæfumuninn um það hvort kvikmynd er góð eða stórkostleg. Getur einhver hugsað sér Titanic án tónlistarinnar? Hildur er orðin nokkuð eftirsótt í heimi kvikmyndagerðar enda tónlistin hennar oft sögð myndræn að hennar eigin sögn.

„Ég hafði svo sem ekki ætlað mér neitt sérstaklega út í kvikmyndatónlist en það hefur einhvern veginn bara æxlast þannig síðustu ár að ég hef unnið mikið í kvikmyndum. Fólk hefur oft haft á því orð að tónlistin mín sé mjög myndræn og henti þess vegna vel í kvikmyndir. Svo er minn helsti samstarfsmaður og tónlistarbróðir, Jóhann Jóhannsson, búinn að vera á rosalegu flugi í kvikmyndatónlist,“ segir hún en Jóhann hefur verið tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir tónlist sína og hlotið fjölda viðurkenninga og verðlauna.

„Við höfum unnið mjög náið saman síðasta áratug svo ég hef að miklu leyti leiðst út í þetta með honum. Við komum yfirleitt að flestum verkefnum hvort annars að einhverju leyti. Annars hef ég mjög gaman af því að vinna í kvikmyndum en ég er samt að passa mig aðeins að festast ekki alfarið í því.“

Kvikmyndatónlistin er því ekki það eina sem Hildur vinnur að en hún segir mikilvægt fyrir sjálfa sig og tónlist sína að geta unnið að tilraunamennsku, akústík og hljóðfærasmíði.

„Það er þar sem hjarta mitt slær og forvitnin sem drífur mig áfram. Það er ekki alltaf pláss fyrir tilraunastarfsemi í kvikmyndatónlist því þar er maður bara einn hlekkur í mjög stóru apparati og aðalhlutverk manns er að þjóna sögunni sem verið er að segja.“

Einstök upplifun

Þrátt fyrir að vilja breikka sjóndeildarhringinn og horfa út fyrir kvikmyndatónlistina segir Hildur það einstakt og í raun frábært tækifæri að fá að vinna að eins stórum verkefnum og kvikmyndatónlistin er.

„Kvikmyndaverin gera alveg svakalegar kröfur til allra sem koma að verkefnum hjá þeim. Kvikmynd á borð við t.d. Revenant verður að uppfylla ýtrustu kröfur enda er hljóðvinnsla og myndataka samband sem á að vera einhvers konar „gúrme“ fyrir bæði augu og eyru. Að fá að taka þátt í svona verkefni er ofboðslega skemmtilegt og það eru forréttindi að fá að vera hluti af innihaldri slíkrar konfektgerðar.“

Það skiptir Hildi þó ekki máli hvort verkefnið er á vegum Hollywood, upptaka með múm eða Myrkir músíkdagar. Góður tónlistarmaður og tónskáld má aldrei gefa minna en 100 prósent.

„Sjálf er ég t.d. þannig að ég er vakin og sofin yfir því sem ég geri. Mig dreymir yfirleitt alltaf það sem ég hef verið að vinna að yfir daginn. Ég sofna með tónlistina á lúppu í hausnum og er svo yfirleitt í upptökum eða að spila á tónleikum í draumum.“

Ólíkt vinnuferli

Klassískur tónlistarmaður frá litla Íslandi en kominn inn í heim stórmynda hlýtur að vera bæði áhugavert en kannski líka erfitt skref. Varla er hægt að nálgast öll verkefni eins?

„Það er mjög misjafnt hvernig ég nálgast verkefni og mér finnst mikilvægt að festast ekki í einhverri einni aðferðafræði í nálgun minni. Stundum hellist yfir mig efnið en fyrir öðru þarf ég meira að hafa. Þá skiptir ekki máli hvort ég er að vinna að kvikmyndatónlist eða annarri tónlist. Mestu máli skiptir að vera forvitin og ég reyni að kveikja á þeim þræði í heilanum. Fyrir mig er forvitnin grundvöllur sköpunargleðinnar og slekkur um leið á egóinu,“ segir Hildur en egóið getur verið slæmur förunautur í sköpunargleðinni.

„Það er einhver utanaðkomandi pressa, sem við berum vissulega pínulitla ábyrgð á sjálf, og því mikil blessun að geta tónað það niður í sköpunarferlinu. Ég segi því að það er mikil blessun að ekki er hægt að vera bestur í tónlist. Tónlistarmenn eru alltaf að læra og við getum alltaf bætt okkur.“