Gríðarlegt hagsmunamál framtíðarkynslóða Íslendinga

Gamalt baráttumál um að sameign íslenzku þjóðarinnar að auðlindum lands og sjávar verði bundin í stjórnarskrá er nú að komast í höfn. Stjórnarskrárnefnd sú, sem starfað hefur undir forystu Páls Þórhallssonar (fyrrverandi blaðamanns á Morgunblaðinu) frá hausti 2013 hefur nú lagt fram tillögu um ákvæði í stjórnarskrá þar sem segir m.a.:

„Auðlindir náttúru Íslands tilheyra íslenzku þjóðinni. Þær ber að nýta á sjálfbæran hátt og til hagsbóta landsmönnum öllum... Náttúruauðlindir og landsréttindi sem ekki eru háð einkaeignarrétti eru þjóðareign. Enginn getur fengið þessi gæði eða réttindi tengd þeim til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja þau eða veðsetja... Að jafnaði skal taka eðlilegt gjald fyrir heimildir til nýtingar auðlinda sem eru í eigu íslenzka ríkisins eða þjóðareign.“

Samþykki Alþingi þessa tillögu, sem telja má víst í ljósi þess að samstaða er um hana á milli fulltrúa allra þingflokka í nefndinni og þjóðin í kjölfarið í þjóðaratkvæðagreiðslu, sem telja verður öruggt er endanlegur sigur unninn í miklu stríði sem staðið hefur í a.m.k. aldarfjórðung og raunar lengur. Í greinargerð með tillögunni kemur fram að fyrstu hugmyndir í þessa veru hafi komið fram árið 1962 en stjórnarskrárnefnd dr. Gunnars Thoroddsens hafi lagt slíka tillögu fram árið 1983. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar vorið 2003 var ráðgert að ákvæði um að auðlindir sjávar væru sameign íslenzku þjóðarinnar yrði bundið í stjórnarskrá.

Það víðtæka pólitíska samkomulag, sem nú hefur náðst um þetta ákvæði, sem nær til allra auðlinda sem talist geta sameign þjóðarinnar er fyrst og fremst sigur fyrir íslenzku þjóðina.

Vafalaust verður áfram deilt um upphæðir og fyrirkomulag auðlindagjalds en um grundvallaratriði þessa máls verður ekki lengur deilt. Hér er um að ræða gríðarlegt hagsmunamál framtíðarkynslóða Íslendinga og jafnframt glöggt dæmi um að stundum getur tekið langan tíma að koma sjálfsögðum málum fram.

Í tillögum stjórnarskrárnefndar er jafnframt lagt til að fyrstu skref verði tekin í átt til beins lýðræðis. Það er líka mikill áfangi. Frá sjónarhóli þeirra, sem telja að beint lýðræði eigi að vera grundvallarþáttur í stjórnskipan Íslands er tillaga nefndarinnar einungis fyrsta skref en það er mikilvægt sem slíkt vegna þess að þar með er stefnan tekin í rétta átt.

Í tillögum nefndarinnar segir:

„Fimmtán af hundraði kosningabærra manna geta krafist þess að nýstaðfest lög frá Alþingi verði borin undir þjóðina í almennri, leynilegri og bindandi atkvæðagreiðslu... Fimmtán af hundraði kosningabærra manna geta enn fremur krafist þess að ályktun Alþingis skv. 21. gr. verði borin undir þjóðina í almennri, leynilegri og bindandi atkvæðagreiðslu... Til að hnekkja lögum eða ályktunum samkvæmt þessari grein þarf meiri hluti í þjóðaratkvæðagreiðslu, þó minnst fjórðungur kosningabærra manna, að synja þeim samþykkis.“

Í lagadeild Háskóla Íslands fyrir hálfri öld var okkur kennt að 26. gr. stjórnarskrárinnar um synjunarvald forseta hefði aldrei verið beitt og mundi aldrei verða beitt. Það breyttist sumarið 2004, þegar forseti Íslands synjaði staðfestingu laga, sem tryggja áttu dreifðara eignarhald á fjölmiðlum og koma í veg fyrir að viðskiptajöfrar legðu þá undir sig. Á síðari árum hefur þeim fjölgað sem telja að afnema eigi þetta ákvæði úr stjórnarskrá. Ekki er gerð tillaga um það að þessu sinni en þó segir í greinargerð nefndarinnar:

„Hins vegar er eðlilegt að ákvæðið komi til sérstakrar endurskoðunar með öðrum ákvæðum er varða embætti forseta lýðveldisins.“

Þessi orð vekja vonir um framhaldið.

Gera má ráð fyrir að skiptar skoðanir verði um hversu hátt eða lágt hlutfall kjósenda eigi að geta krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um lög eða þingsályktun. Sjálfum finnst mér að þetta hlutfall megi ekki vera hærra en sjálfsagt verða margir þeirrar skoðunar að það megi ekki verða lægra. Alla vega er ljóst að það er raunhæft að ná þessu marki og þess vegna er með þessu ákvæði tekið fyrsta skrefið en jafnframt mikilvægt skref í átt til þess að færa valdið frá hinum fáu til fjöldans.

Það breytir hins vegar ekki því að hér má ekki láta staðar numið heldur verður að halda áfram að þróa hugmyndir um beint lýðræði, sem henti aðstæðum okkar og æskilegt markmið er að ákveðin meginmál beri alltaf að bera undir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Loks er samstaða í nefndinni um nýtt ákvæði í stjórnarskrá um náttúru og umhverfi þar sem m.a. segir:

„Náttúra Íslands er undirstaða lífs í landinu. Ábyrgð á vernd náttúru og umhverfis hvílir sameiginlega á öllum og skal verndin grundvallast á varúðar- og langtímasjónarmiðum með sjálfbæra þróun að leiðarljósi...“

Væntanlega mun þetta stjórnarskrárákvæði auðvelda baráttu þeirra, sem telja að nóg sé komið af framkvæmdum á hálendi Íslands og lengra skuli ekki ganga. Svo og að koma í veg fyrir að aðrar náttúruperlur verði fórnarlömb framkvæmdagleði. Hvað ætli líði langur tími þar til gera verður ráðstafanir til að vernda náttúru Hornstranda og nyrztu byggða Stranda?

Stjórnarskrárbreytingar hafa áður strandað á miðri leið. Ganga verður út frá því sem vísu að betur muni til takast nú.

Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is