Eimskip Gyfi Sigfússon forstjóri.
Eimskip Gyfi Sigfússon forstjóri. — Morgunblaðið/RAX
Hagnaður Eimskipafélags Íslands á síðasta ári var 17,8 milljónir evra, sem jafngildir liðlega 2,5 milljörðum króna á núverandi gengi. Þetta er 30,8% meiri hagnaður en árið 2014 þegar hann nam 13,6 milljónum evra.

Hagnaður Eimskipafélags Íslands á síðasta ári var 17,8 milljónir evra, sem jafngildir liðlega 2,5 milljörðum króna á núverandi gengi. Þetta er 30,8% meiri hagnaður en árið 2014 þegar hann nam 13,6 milljónum evra.

Rekstrartekjur Eimskips jukust um 10,6% á milli ára og námu rétt tæplega 500 milljónum evra í fyrra. Heildaraukning í magni í áætlunarsiglingum nam 4,2% frá árinu á undan, einkum vegna verulegs vaxtar í flutningum tengdum Íslandi, en einnig náðu flutningar í Noregi sér á strik þegar líða tók á árið. Tekjur af flutningsmiðlun jukust um 17,0% og námu þær 141,6 milljónum evra á síðasta ári.

Rekstrargjöld námu alls liðlega 454 milljónum evra og jukust um 10,0%. Laun og launatengd gjöld jukust um 17,9% frá fyrra ári en annar rekstrarkostnaður um 8,1%.

Hagnaður Eimskips fyrir afskriftir og fjármagnsliði, EBITDA, nam 45,2 milljónum evra, jafngildi 6,4 milljarða króna, og jókst um 17,3% á milli ára.

Heildareignir Eimskips í árslok námu 355 milljónum evra, eða ríflega 50 milljörðum króna. Nettóskuldir námu 35,4 milljónum evra og var eiginfjárhlutfall Eimskips 64,2% um í lok árs.

Gylfi Sigfússon forstjóri segir rekstrarniðurstöðuna í samræmi við væntingar og að rekstrartekjur og EBITDA hafi ekki verið hærri frá árinu 2009. „Fyrstu vikur ársins lofa góðu í samanburði við síðasta ár, bæði hvað varðar magn og afkomu. Afkomuspá okkar fyrir árið 2016 er EBITDA á bilinu 46 til 50 milljónir evra.“

Stjórn félagsins leggur til að greiddur verði arður til hluthafa sem nemur um 1,2 milljörðum króna, sem samsvarar 47,9% af hagnaði ársins 2015. sn@mbl.is