Stór Bókaúrvalið er mikið á markaðinum og hólfað niður eftir flokkum.
Stór Bókaúrvalið er mikið á markaðinum og hólfað niður eftir flokkum. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hjá mörgum er það líkt og jólin séu komin aftur þegar bókamarkaðurinn hefst, því þá er nú aldeilis hægt að gera góð kaup og næla sér í draumabækurnar, nú eða fylla á gjafalagerinn heima, til að eiga bækur til afmælisgjafa og jafnvel jólagjafa um næstu...

Hjá mörgum er það líkt og jólin séu komin aftur þegar bókamarkaðurinn hefst, því þá er nú aldeilis hægt að gera góð kaup og næla sér í draumabækurnar, nú eða fylla á gjafalagerinn heima, til að eiga bækur til afmælisgjafa og jafnvel jólagjafa um næstu jól.

Í gær hófst bókamarkaðurinn á Laugardalsvelli, undir nýju stúkunni við fótboltavöllinn, þjóðarleikvang Íslendinga. Vert er að taka fram að hann er ekki í Laugardalshöll eins og margir halda. Þarna eru bækur frá hinum fjölbreyttustu forlögum og bækur af öllum tegundum og gerðum, bæði nýjar og gamlar. Bókamarkaðurinn mun standa til og með 13. mars og opið er alla daga vikunnar frá kl. 10 og til 21 öll kvöld.

Á markaðinum þetta árið eru hvorki meira né minna en rúmlega 7000 titlar af bókum. Hið ánægjulega er að barnabókadeildin hefur stækkað um þriðjung og aldrei verið betra úrval af lesefni fyrir börn og ungt fólk, enda nauðsynlegt að hlúa vel að lesendum framtíðarinnar.

Sérstök áhersla er núna á þýdd og íslensk skáldverk í kiljuformi. Auk þess er gríðarlegt magn af fræðibókum, matreiðslubókum, hannyrðabókum, garðabókum, sjálfshjálparbókum, ævisögum, ljóðabókum, hljóðbókum og ýmsum handbókum.