Sigurður Ingi Jóhannsson
Sigurður Ingi Jóhannsson
Agnes Bragadóttir agnes@mbl.

Agnes Bragadóttir

agnes@mbl.is

Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segir mikilvægt að Íslendingar sem sjávarútvegsþjóð haldi þeim rétti til streitu að nýta alla nytjastofna, þar á meðal hvali, á meðan það sé gert með sjálfbærum og hagkvæmum hætti.

„Það er auðvitað þjóðhagslegt tap að missa af þessum tekjum sem útflutningur á hvalaafurðum hefur gefið okkur og auðvitað er það einnig tekjutap þeirra sem hafa unnið að hvalveiðum og vinnslu hjá Hval hf. bæði fyrir einstaklinga og samfélög,“ sagði Sigurður Ingi. „Það er auðvitað mjög mikilvægt fyrir okkur sem sjávarútvegsþjóð að við höfum verið að nýta tvær hvalategundir með sjálfbærum hætti. Við höfum nýtt innan við 1% af þeim algjörlega í anda og skipulagi allra alþjóðasáttmála. Það er mikilvægt fyrir okkur að halda þeim rétti okkar til streitu að nýta alla nytjastofna, á meðan við gerum það með sjálfbærum og hagkvæmum hætti,“ sagði hann. Spurður hvort hann teldi að gert yrði tímabundið hlé á stórhvalaveiðum, eða hvort þeim þætti í útgerðarsögu Íslendinga væri lokið: „Það er auðvitað ljóst að meðan viðskiptaaðferðir Japana eru með þeim hætti sem raun ber vitni, þá hef ég fullan skilning á því að Hvalur hf. sé að gefast upp á þessum viðskiptum. En ef það verður breyting þar á, er væntanlega ekkert því til fyrirstöðu að þessi starfsemi haldi áfram á nýjan leik,“ sagði Sigurður Ingi. Hann kveðst telja mikilvægt að þessum rétti til hvalveiða sé viðhaldið, m.a. til þess að tryggja að ákveðnu jafnvægi í hafinu sé viðhaldið.