Enn meira um aksturshæfileika Víkverja. Þannig er mál með vexti að Víkverji telur sig vera prýðilega góðan ökumann eins og hann hefur áður greint frá. En það eru víst ekki allir sammála þeirri staðreynd. Þar á meðal litli aðstoðarökumaðurinn, afkvæmi Víkverja sem þreytist ekki á því að biðja Víkverja um að hægja á sér.
Alveg nýlega þá barst litla aðstoðarökumanninum liðsauki: vinkona hans úr leikskólanum. Börnin sátu makindalega í aftursætinu einn daginn þegar Víkverji skutlaðist með þau. Að því er Víkverja sýndist þá nutu þau sín vel í aftursætinu. Alveg þar til afkvæmið byrjaði á ný að biðja Víkverja um að hægja ferðina. „Keyri ég hratt? finnst þér það?“ spurði Víkverji vinkonuna. „Já,“ var svarað afdráttarlaust.
Víkverji neyddist til að hægja ferðina og spurði „en núna?“ þegar hann hafði slegið töluvert af og fannst hann silast um göturnar. „Þetta er þægilegra og betra,“ heyrðist aftur í. Þá veit Víkverji það. Hann keyrir enn of hratt þrátt fyrir að hafa veitt því athygli og reynt að draga úr hraðanum. Keyra í núvitund – er það ekki eitthvað?