Maður nokkur sem bjó austan múrsins í Berlín pantaði sér forláta Volgu með tvígengisvél. Þegar hann spurði sölumanninn hvenær hann gæti nálgast bílinn var svarið að hann fengi lyklana að bílnum á þessum sama degi en að tíu árum liðnum.

Maður nokkur sem bjó austan múrsins í Berlín pantaði sér forláta Volgu með tvígengisvél. Þegar hann spurði sölumanninn hvenær hann gæti nálgast bílinn var svarið að hann fengi lyklana að bílnum á þessum sama degi en að tíu árum liðnum. Spurði þá maðurinn hvort það gæti orðið fyrir eða eftir hádegið þann ágæta dag. Sölumaðurinn brást illa við og spurði hvers vegna í ósköpunum það skipti máli, þetta væri eftir tíu ár. Kaupandinn horfði rólegur á sölumanninn og svaraði því til að hann þyrfti að fá þetta á hreint því að píparinn væri væntanlegur upp úr hádeginu.

Þó að sagan sé ekki endilega sönn varpar hún nokkru ljósi á afleiðingar þess áætlanabúskapar sem kommúnistar austantjaldsríkjanna höfðu innleitt og fengið of marga til að trúa á. Hlutirnir gengu ekki eins og þeir hefðu átt að ganga og margt af því sem hinn frjálsi markaður hefði getað leyst með skjótvirkum og farsælum hætti var hneppt í dróma ríkisafskipta og hugmynda um „áætlunina stóru“.

Fyrrnefndri sögu skaut niður í kollinn á undirrituðum þegar hann á dögunum hlýddi á forvitnilegt viðtal við eina fastráðna starfsmann hinnar svokölluðu Stjórnstöðvar ferðamála. Henni var komið á fót á grundvelli samkomulags milli ríkisstjórnarinnar, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka ferðaþjónustunnar í október síðastliðnum. Henni er ætlað að starfa til ársins 2020 og að sjá til þess að „næstu fimm ár verði nýtt til að ráðast í þau verkefni sem nauðsynleg eru til að leggja þann trausta grunn sem kallað er eftir í íslenskri ferðaþjónustu“.

Í viðtalinu sagði starfsmaðurinn meðal annars: „Nú er það þannig að það er kannski erfitt að fara í einhverjar drastískar aðgerðir hvað varðar stýringu ferðamanna á þessu ári, en það er um að gera að fara að vinna í þeim áætlunum.“ Samkvæmt starfsmanninum er því bara „um að gera“ að fara að vinna í áætlunum. Þess má geta í ljósi þessara ummæla að aðeins frá þeim tíma er stjórnstöðinni var komið á laggirnar hafa á fimmta hundrað þúsund ferðamanna lagt leið sína til landsins. Nýjar tölur frá Hagstofunni, um fjölda gistinátta í janúar, benda til að fjölgun ferðamanna verði umfram það sem spár gerðu ráð fyrir og því munu að öllum líkindum um 1,6 milljónir ferðamanna koma hingað á árinu 2016. Ísland er með öðrum orðum að drukkna í ferðamönnum og innviðir landsins eru ekki undir það búnir.

Þeir sem bera ábyrgð á því að ferðaþjónustan fari ekki úr böndunum, og þar vísa ég til ráðuneytisins sem um málið fjallar, Ferðamálastofu, Ferðamálaráðs, Samtaka ferðaþjónustunnar og Íslandsstofu, verða nú að taka sig taki og upplýsa almenning um það hvernig eigi að bregðast við. Þar dugar ekki að segja „um að gera“ að fara að hugsa út í hlutina. Ef hlutirnir verða keyrðir áfram á því hugarfari mikið lengur verða þeir sem ábyrgðina bera efni í skemmtisögur framtíðarinnar, rétt eins og bílasölumaðurinn í Austur-Berlín þarna um árið. ses@mbl.is

Stefán Einar Stefánsson