Steingerður Alfreðsdóttir fæddist 26. desember 1933 í Hlíð í Ljósavatnshreppi (nú Þingeyjarsveit). Hún lést 16. febrúar 2016.

Hún var dóttir hjónanna Alfreðs Ásmundssonar bónda í Hlíð, f. 23. júní 1898, d. 30. júlí 1981, og Dagrúnar Jakobsdóttur húsfreyju, f. 22. júní 1912, d. 28. maí 1992. Þau giftust 10. júlí 1932. Steingerður átti fjórar systur, Bryndísi, f. 12. nóvember 1932, d. 1. apríl 2010, Guðrúnu, f. 22. september 1935, Ástu, f. 7. september 1943, og Kristínu, f. 9. nóvember 1953. Einnig eignuðust þau hjónin Alfreð og Dagrún dreng árið 1951, sem dó í bernsku sama ár. Heima í Hlíð ólust einnig upp Áslaug Kristjánsdóttir, f. 14. september 1927, en hún og Dagrún voru systradætur, og tveir synir Áslaugar, Kristján, f. 11. janúar 1950, d. 24. apríl 2011, og Valtýr, f. 22. maí 1951.

Steingerður hlaut hefðbundna barnaskólamenntun þess tíma á heimaslóðum en fór síðan í Húsmæðraskólann á Laugum.

Þann 2. september 1973 giftist Steingerður Ingvari Kárasyni, bónda í Árlandi í sömu sveit, f. 16. október 1931, d. 30. nóvember 2001. Foreldrar hans voru Kári Arngrímsson, f. 28. mars 1888, d. 9. september 1967, og Elín Ingjaldsdóttir, f. 2. ágúst 1891, d. 5. ágúst 1969, bóndi og húsfreyja í Staðarholti.

Steingerður og Ingvar eignuðust tvö börn. 1) Elín Svava, f. 11. desember 1972, í sambúð með Haraldi Bergi Ævarssyni, f. 7. september 1972, þau eiga þrjú börn: Jóhönnu Margréti, f. 23. ágúst 2008, Freydísi Ósk, f. 8. maí 2011, og Kristján Val, f. 5. júlí 2012. 2) Kári, f. 16. apríl 1979, giftur Ástu Eybjörgu Þorsteinsdóttur, f. 15. nóvember 1983, þau eiga tvö börn: Írisi Hrönn, f. 29. júlí 2007, og Ingvar Örn, f. 8. febrúar 2012.

Steingerður stundaði búskap ásamt manni sínum í Árlandi allt þar til hann lést. Fluttist hún þá til Akureyrar, þar sem hún bjó sér heimili í Hamarstíg 39 þar til hún fluttist á Dvalarheimilið Hlíð í nóvember 2013. Steingerður var alla tíð virk í félagsstarfi og söng með Kirkjukór Þóroddsstaðarkirkju en einnig með Kvennakórnum Lissý og síðast kór félags eldri borgara á Akureyri „Í fínu formi“.

Útför Steingerðar fer fram frá Þóroddsstaðarkirkju í dag, 27. febrúar 2016, og hefst athöfnin klukkan 14. Jarðsett verður í Þóroddsstaðarkirkjugarði.

Ég vissi strax hvað klukkan sló þegar hringt var í mig og sagt að Steingerður, Denga, eins og hún var kölluð, ætti skammt eftir ólifað. Það kom ekki á óvart þar sem höfuðmein hafði hægt og bítandi dregið úr henni þrótt næstliðin ár. Nú er hún öll.

Eins og jafnan við þessar kringumstæður leitar hugurinn til baka. Denga átti mikinn þátt í því að mér finnst ég hafa átt dásamlega bernsku. Ungur var ég tekinn í fóstur í Hlíð, þegar Áslaug móðir mín fékk berkla. Þar eignaðist ég nýja foreldra, Dagrúnu og Alfreð sem reyndust mér afar vel. Það gerðu einnig dætur þeirra allar. Denga mín var mér allt í senn, dásamleg systir, góður vinur og einnig á yngri árum sem besta móðir þegar gott var að eiga margar mömmur og vera dálítið dekraður.

Denga hlaut hefðbundna menntun þess tíma í farskóla sveitarinnar og fór síðan í Húsmæðraskólann á Laugum. Hún vann Hlíðarheimilinu mikið en einnig var hún stundum fjarri heimahögum í ýmsum störfum.

Árið 1971 var mikið ár örlaga og tímamóta fyrir Dengu. Þá hófust náin kynni hennar og Ingvars Kárasonar, bónda í Árlandi. Hún fluttist þangað og þar bjuggu þau allan sinn búskap. Þar hlotnaðist Dengu mesta hamingja lífsins þegar hún eignaðist börnin sín Elínu Svövu og Kára.

Á glöðum stundum kom ég gjarnan í Árland ásamt góðum vinum í sveitinni og þá var jafnan mikið sungið. Eitt af skyldulögunum var ljóð og lag eftir Jónas Tryggvason.

Ég skal vaka í nótt,

meðan svanirnir sofa,

meðan sólgeislar fela sig

bláfjöllin við.

Yfir dalnum er hljótt

og nú dimmir í kofa.

Inn í draumheima svíf þú

hinn ljúfasta frið.

Létt um vorgróna hlíð

sveipast þokubönd þýð.

Yfir þögulum skógi

er næturró blíð.

Ég skal vaka í nótt,

meðan húmið er hljótt.

Ég skal halda um þig vörð,

meðan sefur þú rótt.

Eftir að yfir lauk hjá Ingvari 30. nóvember 2001 fluttist Denga til Akureyrar þar sem hún bjó sér heimili í Hamarstíg 39 þangað til hún fluttist á Dvalarheimilið Hlíð í nóvember 2013. Denga var alla tíð virk í félagsstarfi og söng með Kirkjukór Þóroddsstaðarkirkju en einnig með Kvennakórnum Lissý og síðast kór félags eldri borgara á Akureyri „Í fínu formi“.

Við sjáum að dýrð á djúpið slær,

þó degi sé tekið að halla.

Það er eins og festingin færist nær,

og faðmi jörðina alla.

Svo djúp er þögnin við þína sæng,

að þar heyrast englar tala,

og einn þeirra blakar bleikum væng,

svo brjóst þitt fái svala.

Nú strýkur hann barm þinn blítt og hljótt,

svo blaktir síðasti loginn.

En svo kemur dagur og sumarnótt,

og svanur á bláan voginn.

(Davíð Stefánsson.)

Að leiðarlokum er full ástæða til að þakka fyrir gengnar gleðistundir og viðurgjörning allan, bæði til sálar og líkama í Árlandi og síðar á Akureyri. Minningarnar ylja og verða aldrei frá manni teknar og ég vil þakka vináttu sem hefur verið mér mikils virði. Með þessum hinstu orðum kveð ég Dengu mína. Hvíli hún í Guðs friði.

Henni fylgja kærar kveðjur frá eftirlifandi systrum, ástvinum þeirra og ættingjum sem mér er ljúft að koma á framfæri.

Afkomendum öllum, aðstandendum og vinum Steingerðar Alfreðsdóttur votta ég mína dýpstu samúð.

Valtýr Sigurbjarnarson.

Hún Denga mín í Hlíð er látin, 82 ára gömul. Þó að árin hafi liðið og aldurinn færst yfir þá var Denga alltaf sama unga konan í mínum augum og varð í raun aldrei gömul fyrr en veikindin fóru að hrjá hana. Fyrir mér var hún alltaf Denga í Hlíð. Frá því að ég man eftir mér var hún nágranni okkar í sveitinni og góður vinur sem gott var að leita til og það sama má segja um þær allar Hlíðarsystur. Eftir lát Ingvars flutti hún til Akureyrar og settist að í næstu götu við mig og hófst þá að nýju sami, gamli nágrannakærleikurinn. Denga var falleg og þokkafull kona sem alltaf bar með sér hlýju. Hún Denga var hógvær en hafði af svo mörgu fallegu að státa, mér efst í huga, af svo ótal mörgu, er ótrúleg hæfni í laufabrauðsútskurði og efast ég um að nokkur geti fetað í hennar spor. Öll handavinna lék í höndum hennar og eru það mér dýrmætar minningar, stundirnar sem við sátum saman við þá iðju. Ég á henni ótal margt að þakka, hún kenndi mér svo mikið, hlustaði á mig þegar ég þurfti á að halda og veitti mér oft hjálp og stuðning. Minni Dengu tel ég hafa verið sérstaklega gott og þá ekki síst á textum og ljóðum og sögum úr sveitinni okkar, frásagnahæfileiki hennar var einstakur og er ég svo heppin að hafa fengið að njóta þess. Ein er sú minning sem birtist mér daginn sem hún dó, að hún stóð í stofunni heima á kvöldvöku í Ystafelli og söng silfurtærri röddu lagið „Ég stóð um nótt“. Það lag er og verður alltaf lagið hennar.

Ég stóð um nótt við stjórn á völtu fleyi,

er stjörnur lýstu svala vetrardröfn,

og var að harma þessa víðu vegi,

sem vekja þrá, en sýna hvergi höfn.

(Ísólfur Pálsson)

Elín, Halli, Kári, Ásta og börn, ég sendi ykkur mínar innilegustu samúðarkveðjur. Megi Guð fylgja ykkur.

Elsku Denga mín, hjartans þakkir fyrir mig og mína.

Ég mun sakna þín.

Helga Ingólfsdóttir.