Búrfellsvirkjun Landsvirkjun hyggur á stækkun virkjunarinnar.
Búrfellsvirkjun Landsvirkjun hyggur á stækkun virkjunarinnar. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi Sævarsson
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Helstu framkvæmdaaðilar hins opinbera tilkynntu á útboðsþingi Samtaka iðnaðarins (SI) í gær áformaðar framkvæmdir á þessu ári fyrir tæpa 100 milljarða króna.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Helstu framkvæmdaaðilar hins opinbera tilkynntu á útboðsþingi Samtaka iðnaðarins (SI) í gær áformaðar framkvæmdir á þessu ári fyrir tæpa 100 milljarða króna. Þetta er veruleg aukning frá því í fyrra, þegar kynntar voru framkvæmdir á útboðsþingi upp á 58,5 milljarða.

Landsvirkjun áætlar að framkvæma fyrir um 20 milljarða króna. Þar á eftir koma Isavia, Landsnet og Framkvæmdasýsla ríkisins, sem eru með áform um framkvæmdir upp á 11-12 milljarða króna hvert.

„Orkufyrirtækin eru komin aftur af stað. Landsvirkjun, Orkuveita Reykjavíkur (OR) og Landsnet eru öll með stór áform um framkvæmdir og í þeim liggur aukningin á milli ára,“ sagði Árni Jóhannsson, forstöðumaður bygginga- og mannvirkjasviðs SI. Hann sagði að áform um hefðbundnar innviðafjárfestingar, svo sem í vegagerð og öðrum samgöngumannvirkjum ríkisins, virtust vera nálægt því óbreytt á milli ára. Fjárveitingar til Vegagerðarinnar vegna viðhalds og þjónustu vega lækka um 0,8 milljarða frá því í fyrra og verða um 10,3 milljarðar á þessu ári.

Reykjavíkurborg áætlar að verja um 9,3 milljörðum til fjárfestinga á þessu ári. Veitur, sem eru dótturfyrirtæki OR, ætla að fjárfesta í veitukerfum fyrir rúmlega 6,6 milljarða króna. Þar af eru nýframkvæmdir upp á 3,9 milljarða og endurnýjun upp á 2,7 milljarða. Orka náttúrunnar, sem er annað dótturfyrirtæki OR, áformar að fjárfesta samtals fyrir 3,5 milljarða 2016.

Fjárfestingaáætlun Kópavogs gerir ráð fyrir heildarfjárfestingu upp á um 2,2 milljarða á þessu ári. Faxaflóahafnir áætla að verja um 2,4 milljörðum til fjárfestinga og viðhalds á þessu ári, sem er um tvöfalt meira en í fyrra.