Þórður Matthías Þórðarson fæddist á Krossi í Berufirði 10. desember 1925. Hann lést á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað 18. febrúar 2016.

Foreldrar hans voru Matthildur Bjarnadóttir, f. 1890, d. 1972, og Þórður Bergsveinsson, f. 1891, d. 1925. Þórður Matthías var yngstur fimm systkina. Þau voru: Bjarni, f. 1914, d. 1982, Sigursveinn, f. 1917, d. 1994, Ingólfur, f. 1921, d. 1983, og Sigríður, f. 1923, d. 2009. Uppeldissystir Þórðar er Þóra Guðjónsdóttir, f. 1935.

Hinn 25. desember 1948 kvæntist Þórður Ingibjörgu Finnsdóttur, f. 5. júní 1927, d. 5. október 2010. Foreldrar hennar voru Finnur Sigfús Jónsson, f. 1888, d. 1962, og Margrét Guðnadóttir, f. 1886, d. 1968. Börn Þórðar og Ingibjargar: 1) Þórður, f. 1948, maki Anna Margrét Björnsdóttir. Börn þeira eru Margrét, Ingibjörg og Þóra Matthildur. 2) Finnur, f. 1949, maki Socorro Perez Þórðarson. Börn hans eru Guðni, Anna Rósa, Ingibjörg og Kolfinna. 3) Skúli, f. 1952, d. 1991. 4) Sturla, f. 1956, maki Rakel Halldórsdóttir. Börn þeirra eru Halldór Freyr, Óskar, Þórður og Heiðrún Kara.

Barnabarnabörnin eru 16.

Þórður fæddist föðurlaus því faðir hans drukknaði þegar Þórður var í móðurkviði. Matthildur móðir hans flutti úr Berufirði með börnin til Norðfjarðar 1930 þegar Þórður var á fjórða ári því bróðir hennar Sigurður Bjarnason bjó þar og Bjarni, elsti sonur hennar, bjó hjá honum.

Þórður stundaði nám við Barnaskólann og Gagnfræðaskólann á Norðfirði. Hann hóf snemma að stunda launavinnu eins og strákar gerðu á þeim tíma. Fyrstu störf hans fólust í að stokka upp og beita og síðan lá leiðin til Hornafjarðar og Keflavíkur á vertíð. Þegar Þórður var liðlega tvítugur hóf hann að starfa hjá Pöntunarfélagi alþýðu í Neskaupstað (PAN) og þá fólust verkefni hans meðal annars í því að hugsa um bókhald og fjárreiður. Bókhald varð síðan lífsstarf hans. Þórður réðst til starfa á skrifstofu Samvinnufélags útgerðarmanna árið 1951 og sinnti þar bókhaldi til ársins 1955 en hóf þá störf á skrifstofu togaraútgerðanna í bænum. Á togaraskrifstofunni starfaði hann í tvö ár en þá lá leiðin á ný til Samvinnufélagsins, þar sem hann sinnti verkum til 1968. Skrifstofa Samvinnufélagsins sá um bókhald Síldarvinnslunnar á árunum 1957-1960 og þegar Síldarvinnslan festi kaup á fiskvinnslustöð og síldarsöltunarstöð Samvinnufélagsins árið 1965 annaðist skrifstofa þess allt bókhald fyrir þá starfsemi um þriggja ára skeið. Árið 1968 hóf Þórður síðan störf sem skrifstofustjóri Síldarvinnslunnar og gegndi því um þrjátíu ára skeið. Hann kvaddi starf sitt í árslok 1998. Fyrir utan sitt fasta starf sinnti Þórður bókhaldi fyrir helstu útgerðirnar í bænum um langt skeið. Þórður sinnti margvíslegum félagsstörfum, var meðal annars gjaldkeri Íþróttafélagsins Þróttar í hálfan annan áratug og bæjarfulltrúi fyrir Alþýðubandalagið á árunum 1978-1990.

Útför Þórðar fer fram frá Norðfjarðarkirkju í dag, 27. febrúar 2016, og hefst athöfnin klukkan 14.

Lilli afi var risastór persónuleiki með risastórt hjarta. Þegar ég var að alast upp í Neskaupstað var heimili Indu ömmu og Lilla afa góður staður til að koma á. Ég gat verið þar tímunum saman, lesið gömul dönsk Andrésblöð, lagt kapal eða byggt hús úr spilum. Þar hékk ég í áhyggjuleysi æskunnar og aldrei virtust þau verða leið á mér, óþæga stelpuskottinu sem talaði alltaf of mikið. Ég hjálpaði afa við að leysa upp frímerki og svo fengum við okkur kaffi með mikilli mjólk og miklum sykri.

Þegar ég varð unglingur fór ég að vinna á skrifstofunni hjá afa á sumrin. Það var stórkostlegt að fylgjast með afa í vinnunni. Hann gerði aldrei mannamun og fólk streymdi inn til hans til að fá aðstoð. Afi tók vel á móti fólki og passaði upp á að enginn liði skort. Segja má að afi hafi í raun verið einhvers konar félagsmálastofnun þess tíma. Þarna unnum við saman fjölmörg sumur. Afi var vinnuhestur og tók sér aldrei frí og varla kaffipásu.

Við Lilli afi áttum fjölmörg sameiginlega áhugamál. Við fylgdumst með komu farfuglanna og horfðum saman á óteljandi fótboltaleiki. Hann fylgdist vel með enska boltanum en átti samt ekki uppáhaldslið. Hann hélt einfaldlega með þeim sem voru neðstir í deildinni og í hverjum leik hélt hann með liðinu sem var að tapa. Hann vildi afnema rangstöðuregluna og vítaspyrnur því þá vorkenndi hann alltaf liðinu sem var dæmt á.

Lilli afi var mikill lestrarhestur. Hann vildi helst lesa nýjar bækur, t.d. eftir Jón Kalman og Einar Má Guðmundsson. Á síðustu árum voru bækurnar Þegar kóngur kom eftir Helga Ingólfsson og Stundarfró eftir Orra Harðarson í sérstöku uppáhaldi hans. Einnig var hann heillaður af Náðarstund eftir Hannah Kent og Mánasteini eftir Sjón. Við höfðum gaman að því að lesa sömu bókina og ræða svo um hana fram og til baka. Yfirleitt vorum við sammála.

Hin seinni ár ræddum við ekki síst um stjórnmál. Lilli afi var harður vinstri maður og hann vildi sjá samfélag þar sem jöfnuður ríkti. Ef hann hefði fengið að ráða hefði enginn verið sérstaklega ríkur og alls enginn fátækur. Líklega hefur enginn haft meiri áhrif á mínar pólitísku skoðanir en hann. Hann studdi mig dyggilega þegar ég ákvað að fara í framboð. Honum fannst ég reyndar ekki nægilega vel inni í öllum málum og skildi ekki af hverju ég horfði ekki á allt sem fram fór á Alþingisrásinni. Ég fékk því alltaf útdrátt úr því sem var í gangi á þinginu þegar ég kom til hans. Það gladdi hann mjög þegar ég fór inn á þing í tvær vikur í haust sem varaþingmaður VG. Hann horfði á þingið á hverjum degi og var reyndar alveg hissa á því að allir Norðfirðingar væru ekki að fylgjast með.

Lilli afi var glaðlyndur og skemmtilegur og ég var ekki tilbúin til að kveðja hann og líklega hefði ég aldrei orðið tilbúin. Hann hefur verið svo stór hluti af lífi mínu að ég á erfitt með að hugsa mér lífið án hans. Mér fannst hann eilífur. Ég er full af þakklæti fyrir að fá að hafa hann í mínu lífi og minningarnar um okkar fjölmörgu samverustundir eru huggun.

Ingibjörg Þórðardóttir.

xxxLilli Matt er fallinn frá. Hans verður sárt saknað. Saga Lilla og Neskaupstaðar er samofin og þeir voru ófáir þættir bæjarlífsins sem Lilli hafði afskipti af. Lilli umgekkst marga og bera allir sem hann hafði samskipti við honum vel söguna. Hann bar svo sannarlega hagsmuni heimabyggðarinnar fyrir brjósti og studdi eindregið öll þau málefni sem gátu eflt hana. Atvinnumálin, bæjarmálin og íþróttamálin voru þó án efa þeir málaflokkar sem helst nutu athygli hans og starfskrafta.

Þórður M. Þórðarson fluttist með móður sinni og systkinum til Neskaupstaðar árið 1930, en faðir hans drukknaði tæpum þremur mánuðum áður en hann kom í heiminn. Þarna var heimskreppan mikla að ganga í garð og atvinnuleysi og fátækt einkenndi íslenskt samfélag en fjölskyldan var samhent og þraukaði þessa erfiðu tíma. Án efa hefur kreppan mótað lífsviðhorf Lilla; hann aðhylltist róttækar stjórnmálaskoðanir og gerðist staðfastur verkalýðssinni. Ávallt skipaði hann sér í fylkingu með þeim sem stóðu lengst til vinstri í íslenskum stjórnmálum. Hann var einlægur sósíalisti. Þórður kynntist alvarlegu andstreymi í lífinu þegar hann veiktist af berklum sem ungur maður og það var einnig til að auka samúð hans með öllum þeim sem minna máttu sín í samfélaginu.

Sá sem þetta ritar var svo heppinn að alast upp í sama húsi og Lilli bjó í ásamt sinni fjölskyldu. Ávallt var töluverður samgangur á milli fólksins í húsinu og Lilli fylgdist gjarnan grannt með því sem við krakkarnir aðhöfðumst. Hann hvatti okkur til atvinnuþátttöku og þátttöku í íþróttum og félagsmálum, hann hvatti okkur til að hafa metnað fyrir öllu því sem norðfirskt var.

Síðar áttum við Lilli saman sæti í bæjarstjórn Neskaupstaðar á árunum 1982-1990. Þar vorum við samherjar og störfin þar með honum eru ógleymanleg. Lilli var ekki áberandi á bæjarstjórnarfundum. Hann tók ekki oft til máls og ræður hans voru ekki langar en þegar hann talaði var hlustað. Er hann hafði lokið máli sínu velktist enginn í vafa um viðhorf hans til þess málefnis sem var til umræðu; hann kom skoðunum sínum á framfæri með skýrum og skilmerkilegum hætti. Eins og fyrr greinir einkenndust viðhorf hans af róttækni og metnaði fyrir hönd byggðarlagsins en um leið voru skoðanir hans íhaldssamar hvað varðaði þjóðfélagsbreytingar. Hann átti til dæmis erfitt með sætta sig við hugmyndir um sameiningu sveitarfélaga, en ýmsir samherjar hans töldu slíka sameiningu óhjákvæmilega vegna þróunar samfélagsins.

Þá störfuðum við Lilli saman innan Íþróttafélagsins Þróttar og það eru eftirminnilegir tímar. Lilli var gjaldkeri félagsins og tryggði að starfsemin gæti ávallt gengið snurðulaust fyrir sig. Á þeim vettvangi sem öðrum lofuðu allir samskiptin við Lilla. Hann var kjölfestan sem treyst var á.

Lilli starfaði lengst af hjá öflugustu fyrirtækjunum í Neskaupstað; fyrst Samvinnufélagi útgerðarmanna og síðan Síldarvinnslunni hf. Hann gerði sér manna best grein fyrir því að gengi atvinnulífsins á staðnum var grundvöllur alls. Ef atvinnulífið gengi vel yrði hagur fólks og bæjarfélags góður og félagsstarfsemin í bænum átti einnig mikið undir slíkri velgengni. Þegar veiði var góð var allt í blóma en þegar afli var tregur mátti eiga von á erfiðleikum á flestum sviðum bæjarlífsins. Það var ómetanlegt að hafa Lilla í bæjarfulltrúahópnum því hann hafði yfirsýnina og gat með raunhæfum hætti metið stöðu og horfur bæjarsjóðs út frá því sem var að eiga sér stað á vettvangi atvinnulífsins. Lilli var í þeim hópi sem hikaði ekki við að mæla með þátttöku sveitarfélagsins í atvinnulífinu ef þörf var á og eins studdi hann ítrekað aðstoð bæjarfélagsins við einstaklinga þegar þeir fjárfestu í mikilvægum atvinnutækjum.

Með fráfalli Lilla hefur Neskaupstaður misst einn af sínum bestu drengjum. Við María vottum öllum aðstandendum hans innilega samúð á þessari stundu en minnum á að við getum öll yljað okkur við ljúfar minningar.

Smári Geirsson.

Þórður Matthías Þórðarson er fallinn frá. Hann var einn af frumkvöðlunum sem komu að stofnun Síldarvinnslunnar hf. fyrir hartnær 60 árum og hann var einn af kommunum í Neskaupstað sem áttu sinn þátt í því að berjast fyrir hagsmunum bæjarfélagsins og fyrirtækisins sem var burðarás atvinnulífsins.

Fljótlega eftir stofnun félagsins kom hann að bókhaldi þess, fyrst sem starfsmaður Samvinnufélags útgerðarmanna, en árið 1968 var hann ráðinn skrifstofustjóri Síldarvinnslunnar og gegndi því starfi á farsælan hátt í 30 ár. Lilli Matt var hægri hönd stjórnenda Síldarvinnslunnar og hann var ávallt vakinn og sofinn yfir starfseminni, sem lýsti sér í því að hann tók sér nánast aldrei frí. Honum var annt um framgang Síldarvinnslunnar og starfsmanna hennar enda lifði hann þá tíma að það var ekki alltaf sjálfgefið að eiga fyrir reikningum og launagreiðslum til starfsmanna. Sagan segir að á ákveðnu tímabili hafi Lilli skrifað undir ábyrgð á lántökum allflestra starfsmanna félagsins, þannig hafi bankinn veitt viðkomandi lánafyrirgreiðslu. Lilli ávann sér traust samferðarmanna sinna og norðfirðingar og aðrir sem til hans þekktu báru ómælda virðingu fyrir honum.

Lilli hélt vel utan um starf sitt og hugsaði vel um sitt fólk og samfélagið í heild. Þegar ég kom til starfa hjá Síldarvinnslunni hafði hann látið af störfum en hann kom í heimsóknir og spurði frétta og vildi fá að vita hvað væri umleikis og hvernig gengi. Hann hefur setið alla aðalfundi Síldarvinnslunnar frá stofnun og verður hans saknað á þeim vettvangi.

Það var jafnan fróðlegt og þroskandi að eiga samtal við Lilla. Hann gladdist yfir því sem gert var til að auka veg félagsins, hvort sem um var að ræða skipakaup eða annað sem til framfara horfði. Það er okkur sem yngri erum og treyst er fyrir rekstri félaga á borð við Síldarvinnsluna hollt að þekkja til sögunnar; það hefur svo sannarlega verið lærdómsríkt fyrir mig að fá að heyra reynslusögur frá Lilla og kynnast lífsskoðunum hans. Hann var stoltur af sínu fyrirtæki og vildi að það þjónaði bæjarbúum sem best og stæði að baki íþrótta- og góðgerðamálum í samfélaginu. Hann hafði skilning á því hversu samofin velgengni fyrirtækisins og samfélagsins er. Hann mátti aldrei neitt aumt sjá og vildi veg allra sem bestan.

Með Lilla er genginn góður maður. Ég votta afkomendum hans samúð mína um leið ég þakka honum störfin í þágu Síldarvinnslunnar.

Gunnþór Ingvason.

Þórði M. Þórðarsyni kynntist ég árið 1982, þegar ég fór fyrst til Síldarvinnslunnar til að vinna við endurskoðun. Á þessum árum var ekki algengt að fara til fyrirtækjanna í þeim tilgangi, enda fannst Lilla Matt, eins og hann var alltaf kallaður, mjög skrýtið að ég skyldi koma á svæðið. Við náðum strax vel saman þó svo að pólitískar skoðanir okkar væru ólíkar. Samstarfið gekk vel og ekki bar skugga á. Lilli var mikill Norðfirðingur og allt var best sem tengdist staðnum, ekki síst veðrið. Í einhverri heimsókn austur, að vetrarlagi, kom ég á skrifstofuna á nær sama tími og Lilli. Ég hafði orð á því hve veðrið væri vont, Lilli leit út og sagði: „Nú, það var ágætt þegar ég kom.“

Þegar ég tók við sem forstjóri Síldarvinnslunnar var Lilli að láta af störfum hjá félaginu. Samband okkar var samt alltaf mikið og gott á þeim sjö árum sem ég starfaði fyrir félagið. Það var alltaf gott að leita til hans og ræða málin á opinn og heiðarlegan hátt. Hann hafði alltaf skoðun á rekstrinum, kaupum á fleiri skipum og kvóta, styrkingu félagsins og byggðarinnar þar með. Þetta voru hans ær og kýr alla tíð.

Eftir að ég flutti frá Neskaupstað hefur það verið fastur liður í dagskrá minni að fara á Kommablótið svokallaða. Mikilvæg venja í þeim ferðum var að fara og heimsækja Lilla á blótsdaginn. Þá var dregin upp flaska af viskýi eða koníaki og málin rædd. Eftir slíkar umræður vorum við oftast orðnir vel hreifir og tilbúnir í blótið. Nú í janúarlok fór ég og heimsótti hann og koníak var dregið upp. Við ræddum allt og ekkert, pólitík og ekki pólitík og Lilli var alveg skýr. En eitthvað sagði mér að heimsækja hann á sunnudeginum áður en ég færi suður aftur. Það var góð ákvörðun, enda mun ég hvorki njóta veitinga Lilla fyrir ókomin blót né umræðna um daginn og veginn, pólitík og ekki pólitík. Þessa mun ég sakna.

Mikill höfðingi, sem var hvers manns hugljúfi, er genginn. Hans verður sárt saknað af öllum sem kynntust honum og af samfélagi sem var samofið lífi hans.

Við Malla vottum ættingjum Þórðar M. Þórðarsonar dýpstu samúð við fráfall hans.

Björgólfur Jóhannsson.