Hæstiréttur Málflutningur er hafinn í kaupréttarmáli Landsbankans.
Hæstiréttur Málflutningur er hafinn í kaupréttarmáli Landsbankans. — Morgunblaðið/Sverrir
Þorsteinn Ásgrímsson thorsteinn@mbl.is Málflutningur í kaupréttarmáli Landsbankans hófst í Hæstarétti í gær.

Þorsteinn Ásgrímsson

thorsteinn@mbl.is

Málflutningur í kaupréttarmáli Landsbankans hófst í Hæstarétti í gær. Í því eru Sigurjón Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, og Sigríður Elín Sigfúsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs bankans, ákærð fyrir umboðssvik við veitingu sjálfskuldarábyrgðar á lánasamningum tveggja aflandsfélaga við Kaupþing. Héldu félögin utan um kauprétti starfsmanna Landsbankans og voru þau skráð á Panama. Heildarábyrgðin hljóðaði upp á 6,8 milljarða.

Sigríður Elín og Sigurjón voru bæði sýknuð í héraðsdómi og ríkið dæmt til að greiða málsvarnarlaun verjenda upp á 23 milljónir.

Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari, fór fram á það við upphaf málflutnings síns að ákærðu yrðu sakfelld í Hæstarétti. Hann fór yfir málsatvik í stuttu máli, en þau eru óumdeild hjá bæði sækjanda og verjendum. Þar lýsti hann því að aflandsfélögin Empennage Inc. og ZimhamCorp hefðu fengið ábyrgðir frá Landsbankanum þegar félögin keyptu hlutabréf í Landsbankanum fyrir 2,5 milljarða og 4,3 milljarða. Voru kaupin fjármögnuð með lánveitingu frá Kaupþingi og voru vistuð á vörslureikningi í þeim banka. Átti þetta sér stað í júlí 2006, en í júní ári seinna voru bréfin og ábyrgðin flutt að fullu yfir í félagið Empennage og skilmálum lánasamningsins breytt, m.a. með lengingu samningsins um 2 ár.

Sigurjón og Sigríður Elín samþykktu þessi viðskipti og í seinna málinu hefur ekki fundist neitt staðfest ákvörðunarblað í málinu.

Líkti málinu við Ímon-málið

Líkti Helgi málinu við Ímon-málið, þar sem Sigurjón og Sigríður Elín voru dæmd í fangelsi fyrir umboðssvik og markaðsmisnotkun fyrir sölu á eigin bréfum til tveggja aflandsfélaga og lán til viðskiptanna. Hann sagði að við ákvörðun refsingar í þessu máli ætti að horfa til niðurstöðunnar í Ímon-málinu, þar sem um sambærileg brot væri að ræða. Í því máli fékk Sigurjón 3,5 ára fangelsi og Sigríður Elín 1,5 ára fangelsi.

Helgi lagði það jafnframt fyrir dóminn að skoða mögulegt refsiþyngingarákvæði samkvæmt 72. grein almennra hegningarlaga í brotum sem þessum. Hann sagði að væntanlega væri ekki hægt að flokka málið sem vanabrot þar sem fyrri mál sem Sigurjón og Sigríður Elín hafa verið dæmd fyrir gerðust eftir málsatvik þessa máls.