Refir Bréfritari vill að íslenska refastofninum sé haldið í hæfilegri stærð.
Refir Bréfritari vill að íslenska refastofninum sé haldið í hæfilegri stærð.
Nokkrar greinar hafa birst í Morgunblaðinu og einnig Bændablaðinu að undanförnu er snerta áhrif villtra refa á fuglalíf landsins og þar með talinn æðarfuglabúskap og sauðfjárrækt.

Nokkrar greinar hafa birst í Morgunblaðinu og einnig Bændablaðinu að undanförnu er snerta áhrif villtra refa á fuglalíf landsins og þar með talinn æðarfuglabúskap og sauðfjárrækt. Fánaberi í þessari umræðu hefur verið Indriði Aðalsteinsson bóndi á Skjaldfönn og á hann þakkir skildar fyrir einarða afstöðu til málsins ásamt góðum rökstuðningi fyrir máli sínu. Eftir lestur blaðagreina Indriða síðustu mánuði hefur mér dottið í hug hvort hæstvirtur umhverfisráðherra, Sigrún Magnúsdóttir, hafi lesið umræddar greinar en fljótlega fjarlægðist ég þá hugsun. Hins vegar finnst mér trúlegt að umhverfisráðherra hafi rennt huganum til þeirra mála er snerta lífríkið úti í náttúru Íslands og myndað sér skoðun á því sem þar er um að vera og hver væri staðan til dæmis annars vegar í fuglalífinu og hins vegar þeim áhrifavaldi sem skaðar fuglastofn landsins. Miðað við fjölda í refastofni landsins síðustu ár má gera ráð fyrir að refir höggvi stór skörð í fuglalífið, t.a.m. rjúpu. Ekki er það mín meining að útrýma íslenska refnum heldur halda honum í hóflegri stærð sem miðast við bestu niðurstöðu um fjölda í refastofni landsins. Athygli vekur að friðlönd, t.d. á Hornströndum og víðar, eru uppeldisstofnanir refa, sem dreifast vítt um land sem vitað er. Ég vil höfða til háttvirts umhverfisráðherra og sveitunga míns að beita sér fyrir auknu fjármagni til sveitarfélaga svo þau ráði við að halda íslenska refastofninum í hæfilegri stærð að mati fróðra aðila um refastofninn. Að lokum vísa til umhverfisráðherra:

Í Svarfaðardalnum síst er nauð

þá sauðakjöt er tuggið,

af list er skorið laufabrauð

og lapið þorrabruggið.

Virðingarfyllst,

Þorgils Gunnlaugsson, Sökku 2.