[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Algengt er að persónugera stofnanir og fyrirtæki. Bankar eru sagðir taka ákvarðanir og í fjölmiðlum er eitt og annað haft eftir þeim. Í Kjarnanum var til dæmis sagt að „Íslandsbanka hugnaðist“ ekki hugmyndir kröfuhafa.

Algengt er að persónugera stofnanir og fyrirtæki. Bankar eru sagðir taka ákvarðanir og í fjölmiðlum er eitt og annað haft eftir þeim. Í Kjarnanum var til dæmis sagt að „Íslandsbanka hugnaðist“ ekki hugmyndir kröfuhafa. Einnig hefur Seðlabanki Íslands iðulega upp raust sína og „segir“ hvað honum „finnst“ um horfur í efnahagslífinu. „Seðlabankinn segir“ til að mynda í Kjarnanum að samsetning hagvaxtar hafi breyst. Flestar stofnanir virðast hafa eitthvað til málanna að leggja. Á vef Vísis stendur: „Póst og fjarskiptastofnun segir það rangt að stofnunin hafi heimilað hækkun gjaldskrár ...“ Slík dæmi er víða að finna. Ofangreindum dæmum er því ekki ætlað að vera neinum til háðungar.

Landssamband íslenskra útvegsmanna, sem var og hét fram í október 2014, var oft áhyggjufullt og ýmislegt var haft eftir því rétt eins og það hefði rödd en ekki forsvarsmenn eða félagsmenn þess, sbr. „LÍÚ hefur áhyggjur vegna verkfalls“ (RÚV.is). Þetta var augljóslega gert til að losna við langlokuna „forsvarsmenn Landssambands íslenskra útvegsmanna“. Auk þess má nefna að í ofangreindu orðasambandi laut forsetningin „af“ enn einu sinni í lægra haldi fyrir „vegna“, þ.e. að hafa áhyggjur af einhverju, en það er efni í annan pistil.

Í úrskurði Tryggingastofnunar ríkisins segir að benda megi á „að skoðanir TR um að óæskilegt sé að fólk flakki á milli landa til að fá meiri bótarétt“ hafi enga þýðingu og að „stofnunin [geti] ekki byggt niðurstöðu sína á því hvað stofnuninni finnst“. Tryggingastofnun hefur sem sagt „skoðanir“ en getur ekki „byggt niðurstöðu sína“ á því sem henni „finnst“.

Það er ekki séríslenskt að stofnanir hafi skoðanir á mönnum og málefnum. Í Ríkisútvarpinu var frétt um að alþjóðlegi bankinn HSBC bæðist afsökunar á vefsíðu sinni. Í erlendum fréttum er frásögnin einnig á þann veg í ýmsum miðlum, sem og í öðrum fréttum af fyrirtækjum og stofnunum.

Það er ekki nýtt að stofnanir séu persónugerðar í frásögnum. Í Eimreiðinni frá 1897 er eftirfarandi dæmi að finna: „gæti bankinn þá [...] heimtað hærra veð“; „ef bankinn yrði lipur viðureignar“; „gæti þá bankinn leyft þeim að borga skuld sína“. Í Samvinnunni frá 1931 talar banki til alþýðunnar, sbr. „bankinn segir sem svo við alþýðu manna: „Trúið mér fyrir fé yðar, á meðan þér bíðið eftir að koma því í lóg; ég skal geyma það ...““.

Frá því að ég man eftir mér var hamrað á því að verslanir lokuðu ekki heldur væri þeim lokað. Aftur á móti er ýmislegt haft eftir stofnunum rétt eins og þær fari í viðtal, skeri úr um mál og svari fyrir sig án nokkurs talsmanns. Í ljósi þess er vart forsvaranlegt að skammast yfir verslunum sem opna og loka.

Eftir stendur að stjórnendur falla í skuggann þegar fyrirtæki, félagasamtök og stofnanir tjá sig í fjölmiðlum án forsvarsmanns, sem gefur tilefni til að íhuga hver beri ábyrgð á því sem sagt er.

Eva S. Ólafsdóttir eva@skyrslur.is