Uppgjör Slitastjórn Kaupþings hafa á síðustu árum skipað þau Jóhannes Rúnar Jóhannsson, Theodór S. Sigurbergsson og Feldís Lilja Óskarsdóttir.
Uppgjör Slitastjórn Kaupþings hafa á síðustu árum skipað þau Jóhannes Rúnar Jóhannsson, Theodór S. Sigurbergsson og Feldís Lilja Óskarsdóttir. — Morgunblaðið/Kristinn
Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Slitastjórn Kaupþings þáði þóknun sem nam 288 milljónum króna á síðasta ári. Í slitastjórninni eiga sæti þrír fulltrúar, skipaðir af Héraðsdómi Reykjavíkur.

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

Slitastjórn Kaupþings þáði þóknun sem nam 288 milljónum króna á síðasta ári. Í slitastjórninni eiga sæti þrír fulltrúar, skipaðir af Héraðsdómi Reykjavíkur. Þóknun slitastjórnarinnar hækkaði um ríflega 45% frá árinu 2014 þegar hún fékk greiddar 198 milljónir vegna vinnu sinnar í þágu slitabúsins. Þetta kemur fram í ársreikningi Kaupþings fyrir síðasta ár sem nú hefur verið birtur.

Í reikningnum kemur fram að rekstrarkostnaður slitabúsins hækkaði um nærri 140% milli ára. Þannig nam heildarrekstrarkostnaður þess 11,9 milljörðum króna í samanburði við tæpa 5 milljarða á árinu 2014. Mest munar þar um gríðarlega hækkun ráðgjafarkostnaðar en hann fór úr réttum 3 milljörðum króna í rúma 8,3 milljarða. Mest hækkun varð á lögfræðiráðgjöf sem fór úr ríflega milljarði króna árið 2014 í tæpa 3,4 milljarða 2015. Inni í ráðgjafakostnaðinn er einnig reiknuð fyrrnefnd þóknun til slitastjórnar. Í ársreikningi slitabúsins er einnig færður til gjalda virðisaukaskattur af aðkeyptri ráðgjafarþjónustu frá árunum 2009 til 2012 og nemur hann 1,7 milljörðum króna. Byggist sá kostnaður á þeim úrskurði ríkisskattstjóra að slitabúunum hafi verið skylt að greiða virðisaukaskatt af kaupum á erlendri þjónustu.

Í tilkynningu frá Kaupþingi kemur fram að hækkun rekstrarkostnaðar megi fyrst og fremst rekja til erlendrar sérfræðiráðgjafar í tengslum við undirbúning og framkvæmd nauðasamnings.

Þá vekur nokkra athygli að laun og launatengd gjöld hækka milli ára og fara úr 1,2 milljörðum króna í 1,3 milljarða. Sú hækkun á sér stað á sama tíma og stöðugildum hjá slitabúinu fækkar úr 50 í 39. Þannig hækkar launakostnaðurinn um ríflega 8% á sama tíma og starfsfólki fækkar um 22%.

Eignirnar 816 milljarðar

Eignir slitabúsins hækkuðu um 16,2 milljarða frá fyrra ári og námu í árslok 816 milljörðum. Handbært fé jókst um 8,6 milljarða og stóð í 410,2 milljörðum. Lýstar kröfur á hendur Kaupþingi voru færðar niður í 676,4 milljarða í samræmi við ákvæði nauðasamnings og skilmála breytanlegs skuldabréfs. Þá var skuldbinding slitabúsins vegna stöðugleikaframlags í ríkissjóð 135,8 milljarðar króna.

Það sem af er ári hefur Kaupþing greitt stöðugleikaframlag sitt til ríkisins og hafið útgreiðslur til kröfuhafa í formi peningagreiðslna að upphæð 242,9 milljarðar króna, auk útgáfu breytanlegs skuldabréfs í pundum að fjárhæð 588,1 milljarður króna og hlutafjár í krónum að fjárhæð 13,9 milljarðar.