Landspítali Mikið álag undanfarið.
Landspítali Mikið álag undanfarið. — Morgunblaðið/Ómar
Síðustu tveir mánuðir hafa verið óvenju þungir á Landspítalanum, að því er fram kemur í vikulegum pistli Páls Matthíassonar, forstjóra Landspítalans.

Síðustu tveir mánuðir hafa verið óvenju þungir á Landspítalanum, að því er fram kemur í vikulegum pistli Páls Matthíassonar, forstjóra Landspítalans.

Í pistlinum segir hann álagið á spítalanum endurspeglast í nýtingu sjúkrarúma, sem hafi verið yfir 100 prósent undanfarið, en Páll segir að til að spítalinn geti sinnt hlutverki sínu sem skyldi þurfi að miða við að nýting sé undir 85 prósent. Því hafi verið lögð þung áhersla á að þeir sem ekki þurfi lengur á þjónustu spítalans að halda hafi möguleika á að komast heim eða þangað sem viðeigandi þjónusta bjóðist.

Páll segir að lausn ástandsins liggi þó utan spítalans, en hann fagnar eflingu heilsugæslunnar sem heilbrigðisráðherra boðaði í vikunni, þrátt fyrir misjafnar skoðanir fólks á útfærsluatriðum.

Inflúensan nær hámarki

Í frétt sóttvarnalæknis á vef landlæknis segir að mun fleiri hafi greinst með inflúensu á heilsugæslustöðvum og bráðamóttökum; líklega sé inflúensan í hámarki um þessar mundir. Tólf sjúklingar lágu á Landspítalanum í vikunni vegna inflúensu.

Á fyrstu sjö vikum ársins hafa alls 24 innliggjandi sjúklingar fengið greiningu á inflúensu, flestir með undirliggjandi áhættuþætti.

jbe@mbl.is