Þjálfaralausir Aron Kristjánsson er hættur en ekki er ljóst hver það verður sem tekur við af honum og stýrir landsliðinu í umspili HM í sumar.
Þjálfaralausir Aron Kristjánsson er hættur en ekki er ljóst hver það verður sem tekur við af honum og stýrir landsliðinu í umspili HM í sumar. — Ljósmynd/Foto Olimpik
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handbolti Ívar Benediktsson iben@mbl.is Liðinn er rúmur mánuður síðan Aron Kristjánsson sagði starfi sínu lausu sem landsliðsþjálfari karla í handknattleik.

Handbolti

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

Liðinn er rúmur mánuður síðan Aron Kristjánsson sagði starfi sínu lausu sem landsliðsþjálfari karla í handknattleik. Ekki fer á milli mála að stjórnendur Handknattleikssambandsins fara sér að engu óðslega við að leita að eftirmanni Arons. Þeir halda spilunum þétt að sér, segjast vera vinna í málinu undir forystu Guðmundar B. Ólafssonar formanns. Vöngum er velt enda að margra mati enginn augljós kostur í stöðunni, ólíkt því sem var þegar Aron tók við af Guðmundi Þórði Guðmundssyni 2012. Þá virtist liggja í loftinu að þegar Guðmundur hætti þá biði starfið Arons, hefði hann áhuga.

Það er í sjálfu sér gott og gilt að menn haldi spilunum þétt að sér skoði þá kosti sem fyrir hendi eru. Fari sér í engu óðslega. Kostirnir eru kannski fleiri og augljósari en talið hefur verið. Formaður HSÍ hefur ekki útilokað að útlendingurinn verði ráðinn í starfið. Orðrómur hefur verið uppi um að nokkrir útlenskir þjálfarar hafi sett sig í samband við HSÍ, m.a. Norðurlandabúar og frá ríkjum gömlu Júgóslavíu.

Geir Sveinsson og Kristján Arason hafa helst verið nefndir af íslenskum þjálfurum. Hvort alvara sé á bak við að ræða við annan hvorn um að taka að sér starfið skal ósagt látið. Kannski er þetta ferli hjá HSÍ bara sjónarspil og það liggi þegar fyrir hver tekur að sér að stýra landsliði þjóðarinnar eins og þrautreyndur handboltakappi sagði íslenska landsliðið í handbolta vera.

Eiga þeir að vera tveir?

Eða er HSÍ að reyna að leiða saman tvo eða þrjá þjálfara til þess að stýra landsliðinu? Slíka hugmynd líst mér ekkert á nema skýrt sér að einn þeirra sé ofar hinum. Þótt það hafi lukkast hjá KSÍ að hafa tvo við stjórnvölinn þá er ekki þar með sagt að slík samvinna heppnist í öllum tilfellum.

Næsti landsleikur verður að óbreyttu ekki fyrr en 12. júní og aftur fjórum dögum síðar gegn Portúgal í undankeppni heimsmeistaramótsins.

Guðmundur formaður sagði í samtali við undirritaðan á dögunum að ekki væri ljóst hvenær tilkynnt yrði um ráðningu landsliðsþjálfara. Þó yrði það tæplega dregið lengur en fram í næsta mánuð sem gengur í garð fljótlega eftir helgina. Stefnt væri á að nýr landsliðsþjálfari kallaði saman hóp til æfinga í byrjun þegar alþjóðlegir leikdagar landsliða eru skipulagðir m.a. undir forkeppni Ólympíuleikanna. Íslenska landsliðið tekur ekki þátt í forkeppninni. Þrátt fyrir það er stefnt á að íslenska landsliðið komi saman til æfinga í byrjun apríl enda eini vettvangurinn sem nýjum þjálfara býðst til þess að hitta landsliðsmenn áður en kemur að alvörunni í júní.

Eftir að hafa rabbað óformlega við nokkra reynda leikmenn íslenska landsliðsins á síðustu vikum og lesið viðtöl við einhverja þeirra þá hefur það komið á óvart að forsvarsmenn HSÍ, sem velta nú vöngum yfir hvern eigi að ráða í starf landsliðsþjálfara, hafa ekkert verið í sambandi við reynslumennina. Ekki vegna þess að leikmenn eigi að hafa ráðgjöf um hver verður ráðinn í starfið heldur frekar hitt til að heyra ofan í leikmenn sem hafa mikla reynslu, um hvaða lærdóm megi draga af síðustu árum. Hvað gekk vel og hvað miður. Hvað skal hafa í huga nú þegar staðið er frammi fyrir stórri ákvörðun? Þannig má draga lærdóm í þeirri vinnu sem landsliðsnefnd HSÍ og formaður eru í og hafa verið í síðustu vikur. Ef til vill er öll þessi vitneskja fyrir hendi innan landsliðsnefndar og stjórnar HSÍ og algjörlega óþarft að heyra í þeim sem staðið hafa í eldlinunni með landsliðinu undanfarinn áratug og jafnvel lengur og verið þátttakendur í mesta og lengsta blómaskeiði íslenska landsliðsins í handknattleik? Eða hefur allt bara verið í góðu lagi á undanförnum árum? Og var það bara lánleysi í leiknum við Hvít-Rússa á EM sem kom mönnum í þá stöðu að þarf að ráða landsliðsþjálfara í handknattleik karla? Annars er bara allt með sóma, utan vallar sem innan og ekkert sérstakt sem ber að hafa í huga, sem snýr að leikmönnum, eða taka tillit til.

Kannski veður undirritaður bara í villu og svíma?

Minnti á stórleik Hjalta

Í lokin er rétt að venda kvæði sínu í kross. Ekki verður skilið við vikuna án þess að minnast á stórbrotna frammistöðu markvarðar Gróttu, Írisar Bjarkar Símonardóttur, í undanúrslitaleiknum við Hauka í Cola Cola-bikarnum í fyrrakvöld í Laugardalshöll. Grótta átti undir högg að sækja nær allan leikinn. Haukar voru betri lengst af en stórbrotinn leikur Írisar undir lok venjulegs leiktíma og í báðum framlengingum kom í veg fyrir að Haukar lékju til úrslita við Stjörnuna í dag. Gamall „handboltarefur“ sagði við undirritaðan að hann hefði vart séð annan eins leik hjá handboltamarkverði í Laugardalshöll síðan FH-ingurinn Hjalti Einarsson lokaði markinu í bókstaflegri merkingu í landsleik við Rúmena.