Síðsta gáta var sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson: Valfaðir í Valhöll heitir, Vinsæll þorrablótum á. Margur sitt í reiði reytir. Á róðrarbát er þollur sá. Harpa á Hjarðarfelli svarar: Eitt mun Óðins heiti Hár. Hákarlinn ég fékk í ár.

Síðsta gáta var sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson:

Valfaðir í Valhöll heitir,

Vinsæll þorrablótum á.

Margur sitt í reiði reytir.

Á róðrarbát er þollur sá.

Harpa á Hjarðarfelli svarar:

Eitt mun Óðins heiti Hár.

Hákarlinn ég fékk í ár.

Mitt í reiði reyti hár.

Róðrarbáts er þollur hár.

Árni Blöndal á þessa lausn:

HÁR ég tel hér Óðin heita.

HÁR er nefndur hákarlinn.

HÁRIÐ argir ýmsir reyta.

Einnig HÁR er þollurinn.

Helgi Seljan leysir gátuna þannig:

Hár var Óðins annars heiti

ómar söngur hár á blótum

Hár mitt lítið hér ég reyti

hárs í áratökum njótum.

Hér kemur loks skýring Guðmundar:

Óðinn Hárs og heiti ber.

Hár á blótum þorra er.

Reytir margur af heift sitt hár.

Hár er þollur til stuðnings ár.

Og síðan fylgir limra:

Reiðskjóti Gústa var grá meri,

gangþýð var sú og frá meri,

svo féll hún frá,

hann fékk sér þá

í staðinn hrekkjótta hámeri.

Og ný gáta eftir Guðmund:

Bungu á landi lítum vér.

Leynist undir höfuðskel.

Víða snýst á vegum hér.

Í vegg íbogið skarð það tel.

Jósefína Dietrich yrkir á Boðnarmiði:

Meðal þess sem mætti af okkur

.....................mannfólk nema

er meiri svefn í mjúku fleti

og miklu betri skammt af leti.

x

Gísli Ásgeirsson bætti við:

Höfði mínu halla þarf

.................... og huga að draumum.

Kveðju góða kettir senda

kvæðarófu þarf að enda.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is