Steinunn Yngvadóttir fæddist á Húsavík 1. nóvember 1945. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Lundi á Hellu 19. febrúar 2016.

Foreldrar hennar voru Ingvi Karl Jónsson, f. 16. mars 1920, látinn 2. maí 1998, og Guðbjörg Jónsdóttir, f. 25. nóvember 1922, látin 12. september 2002.

Alsystkini eru Margrét Inga, f. 1944, d. 1944, Elínborg, f. 1948, d. 2003.

Sammæðra: Hermundur Svansson, fæddur 1952, Jón Tómas Svansson, fæddur 1958.

Samfeðra: Jón Norbert, fæddur 1952, Georg Bergmann, fæddur 1953, Reynir Baldur, fæddur 1955, Ingvi Carles Ingvason, fæddur 1956, látinn 1999.

Steinunn hóf búskap 1963 með Kristjáni Gísla Kristjánssyni sjómanni, fæddur 13. júní 1941, látinn 19. júní 2008.

Foreldrar Kristjáns Gísla voru Kristján Ágústsson og Kristbjörg Guðmundsdóttir.

Börn Steinunnar og Kristjáns Gísla eru: 1) Kristbjörg Steinunn, fædd 11. október 1963, gift Bjarna Ragnarssyni, fæddur 11. janúar 1954, og eiga þau synina Gísla Ragnar, f. 23. febrúar 1987, og Sverri Tómas, f. 16. september 1991. Bjarni á dótturina Melissu Katrínu, f. 23. desember 1975. 2) Kristján Jón, fæddur 14. apríl 1971. 3) Magnús Tómas, fæddur 4. júlí 1976, kvæntur Margréti Berglindi Einarsdóttur, fædd 18. febrúar 1976. Þau eiga börnin Gísla Þór, f. 8. júní 2008, og Írisi Lilju, f. 16. janúar 2010.

Steinunn fluttist frá foreldrum sínum sex ára gömul á Hofsós til ömmu sinnar og afa, Steinunnar Jónsdóttur og Jóns Tómassonar, og ólst upp hjá þeim á Hofsósi. Á Hofsósi kynntist hún manni sínum og hófu þau búskap 1963. Steinunn hefur unnið ýmis störf sem hafa fallið til í gegnum tíðina, t.d. við fiskvinnu, á saumastofu, sem húsvörður, en lengst af vann hún við að matreiða í mötuneytum.

Útför Steinunnar fer fram frá Hofsóskirkju í dag, 27. febrúar 2016, klukkan 11. mbl.is/minning

Elsku mamma mín, þá er komið að því að kveðja þig í síðasta sinn. Og mér finnst það ekki eins erfitt og mér hefði þótt það einhvern tímann fyrr, því þú ert búin að fara í gegnum svo margt á þinni ævi.

Öll þín ár hefur þú verið að annast einhvern, og engan þekki ég sem hefði gert það eins vel og þú hefur gert. Ég hef svo oft sagt þér það að þú gerðir þér ekki grein fyrir hvað við systkinin vorum þakklát fyrir síðustu umönnun þína sem stóð yfir í 10 ár. Þegar þú tókst ákvörðun um að hlúa að pabba heima hjá ykkur.

En þú byrjaðir lítil stelpa að hugsa um aðra og gerðir fram á síðustu stundu, því margir gestir sem komu á hjúkrunarheimilið þar sem þú varst héldu að þú værir sjálfboðaliði þar, en ekki heimiliskona, slíkur var krafturinn í þér og dugnaðurinn.

Þú annaðist umhverfið þitt á svo margan hátt og veit ég að það eru ófáir einstaklingarnir sem þú ert búin að metta í gegnum árin.

Ég man fyrst eftir þér að elda fyrir aðra þegar pabbi var á sjó frá Grindavík og þú að elda og ég að skottast með þér eins og alltaf á vertíðum. Alltaf farið á vertíð á veturna og þið höfðuð ekki neina barnapíu þannig að ég var bara tekin með og oft höfum við rifjað þau ævintýri upp og hlegið að þeim.

Alltaf man ég eftir ykkur pabba að vinna saman, þið gerðuð allt saman. Ég man að einu sinni var ég eitthvað að hvetja þig til að endurnýja ökuskírteinið þitt og fara að keyra meira svo þú gætir stokkið það sem þér dytti í hug án þess að biðja pabba að skutla þér og þá sagðirðu við mig: „Elskan mín, ég þarf ekkert að fara neitt sem pabbi þinn fer ekki líka.“ Svona voruð þið.

Þú varst svo kát og glöð með góðan húmor sem hefur ábyggilega hjálpað þér í gegnum öll þau verkefni sem þú fékkst. Já, mamma mín, þú varst einstök og nú þegar ég hugsa um þig þá finn ég fyrir gleði því nú veit ég að þú ert komin heim, heim til pabba sem var þér allt. Þið voruð svo samrýmd og flottar fyrirmyndir fyrir okkur sem að ykkur stöndum. Og þá er ég ekki síst að meina ömmustrákana þína sem þú hugsaðir um eins og þið ættuð þá og alltaf áttu þeir annað heimili hjá ykkur, hvar sem þið voruð á landinu. Og hafa þeir báðir talað um hvað þeir voru heppnir með ykkur sem ömmu og afa.

En ég finn að stundum kemur upp í hugann að ég hefði viljað að þú hefðir fengið hjálp fyrr við þínum sjúkdómi því hann var farin að láta á sér kræla fyrir svo mörgum árum. En enginn sá það nema þínir nánustu og erfitt fyrir okkur að fá ekki hjálp fyrir þig en það verður ekki á allt kosið í þessu lífi eins og þú sagðir stundum.

Elsku mamma mín, takk fyrir allt sem þú hefur gefið mér, sem þú hefur kennt mér og sem þú hefur sagt mér. Gullkornin þín og minning lifir áfram með okkur, elska þig. Þú skilar kveðju frá okkur.

Þín dóttir,

Kristbjörg.

Elsku Steinunn okkar, þú varst kraftmikil, glaðlynd og skemmtileg kona með endalausa orku og útgeislun. Mikið sem við erum þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast þér og þínum og að eiga vinskap þinn öll þessi ár. Þú varst gull af manni og stóðst þig vel í öllu því sem þú tókst þér fyrir hendur, hvort sem það var heima fyrir eða í störfum þínum annars staðar, alltaf varstu boðin og búin til að hjálpa þeim sem á þurftu að halda. Þú varst listakona sem skapaði ótrúlega fallega muni úr fjölbreyttum efnum sem fundust í náttúrunni. Við munum eftir steinunum og víðihekkinu sem þú komst með frá Hofsósi og kuðungunum sem Magnús kom með af sjónum, allt varð þetta að listaverkum hjá þér. Elsku Steina, nú er hvíldin komin og við vitum að þú fylgist vel með öllum þínum.

Við kveðjum þig, vinur, í síðasta sinn

og söknuður hug okkar fyllir.

Nú minningar vakna um vinskap og tryggð

er vorsólin tindana gyllir.

Nú þakkað skal allt sem við áttum með þér,

það ætíð mun hug okkar fylla.

Brátt sumarið kemur með sólskin og yl

þá sólstafir leiðið þitt gylla.

(Aðalheiður Hallgrímsdóttir)

Innilegar samúðarkveðjur sendum við til fjölskyldu þinnar.

Unnur Þormóðsdóttir,

Víðir Óskarsson,

Þórey Axelsdóttir.