Mér heyrist að vel mælist fyrir hjá íþróttaáhugamönnum að HSÍ sé með undanúrslitahelgi í Laugardalshöll til að knýja fram úrslit í bikarkeppninni. Vonandi er fyrirkomulagið komið til að vera.
Mér heyrist að vel mælist fyrir hjá íþróttaáhugamönnum að HSÍ sé með undanúrslitahelgi í Laugardalshöll til að knýja fram úrslit í bikarkeppninni. Vonandi er fyrirkomulagið komið til að vera. Í handboltahreyfingunni hafa menn reglulega fundið hjá sér þörf til að hræra í fyrirkomulagi deildakeppninnar.

Töluverð vinna hlýtur að liggja að baki þeirri umgjörð sem sköpuð er þessa daga í höllinni. Þar sýnist mér HSÍ standa sig mjög vel. Áhorfendur eru einnig vel með á nótunum. Mæta í litum sinna félaga og láta vel í sér heyra. Mun betur en á hefðbundnum deildarleikjum.

Um þúsund manns voru á hvorum leik á fimmtudagskvöldið og rúmlega það á leikjunum í gærkvöldi. Þá verður höllin væntanlega full eða rétt tæplega í dag. Ánægjulegt er að íþróttaáhugamenn séu enn duglegir að mæta á bikarúrslitaleiki. Á dögunum var til dæmis uppselt í fyrsta skipti í áraraðir á bikarúrslitaleik karla í körfuboltanum. Því miður er stundum full dauft fyrir minn smekk á hefðbundnum deildarleikjum í þessum vetraríþróttum en eftirspurnin eftir úrslitaleikjum er greinilega enn til staðar. Er það vel.

Markaðssetningin hefur einnig gengið ágætlega því flestir íþróttaáhugamenn eru með dagskrána á hreinu. Dregið var til undanúrslita á dögunum og var umgjörðin á blaðamannafundinum til fyrirmyndar. HSÍ og félögin vonuðust sjálfsagt eftir því að þar gætu fjölmiðlar fengið eitthvað fyrir sinn snúð. Það hljóta að hafa verið þeim vonbrigði þegar flestir leikmenn og þjálfarar svöruðu því til að þeim væri sama á móti hverjum þeir drægjust. Eflaust einlæg svör en hjálpa lítið til við markaðssetninguna.