Réttindi Í fyrstu snérust baráttumálin einkum um að verkafólk fengi greitt fyrir vinnu í peningum og um hvíldartíma. Myndin sýnir kröfugöngu sem farin var 1. maí í Reykjavík.
Réttindi Í fyrstu snérust baráttumálin einkum um að verkafólk fengi greitt fyrir vinnu í peningum og um hvíldartíma. Myndin sýnir kröfugöngu sem farin var 1. maí í Reykjavík. — Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon
Kristján H. Johannessen khj@mbl.is Alþýðusamband Íslands (ASÍ) fagnar eitt hundrað ára tilvist sinni hinn 12. mars næstkomandi og í tilefni þess verður efnt til veglegra hátíðarhalda víðsvegar um land.

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Alþýðusamband Íslands (ASÍ) fagnar eitt hundrað ára tilvist sinni hinn 12. mars næstkomandi og í tilefni þess verður efnt til veglegra hátíðarhalda víðsvegar um land.

„Við ákváðum að fagna þessum tímamótum með tónleikaveislu enda hefur tónlist leikið stórt hlutverk í verkalýðshreyfingunni alla tíð og um leið verið einkennandi í afmælisfagnaði ASÍ,“ segir Snorri Már Skúlason, deildarstjóri upplýsinga- og kynningarmála hjá ASÍ, í samtali við Morgunblaðið. Meðal annars verður boðið til tónleika á fjórum stöðum á landinu þar sem fjölmargir listamenn, ungir jafnt sem eldri, stíga á svið og skemmta viðstöddum. „Með þessu viljum við meðal annars ná til yngri hluta þjóðarinnar því verkalýðshreyfingunni hefur oft verið legið á hálsi fyrir það að vera gamaldags og þunglamaleg, en við viljum sýna að afmælisbarnið er kvikt og í fullu fjöri.“

Baráttusagan túlkuð með list

Afmælishátíðin hefst með fjölskylduskemmtun í tónlistar- og ráðstefnuhúsinu Hörpu í Reykjavík klukkan 14 á afmælisdaginn. Verður þar boðið upp á tónleika með Páli Óskari og Úlfi Úlfi í Norðurljósasal. Þá mun tvíeykið Hundur í óskilum setja upp stutta leiksýningu í Kaldalóni klukkan 15 og 16 þar sem farið verður yfir nokkra merkisatburði úr aldagamalli sögu verkalýðshreyfingarinnar.

„Við fengum þá til þess að setja upp leiksýningu og er ég viss um að hún eigi eftir að slá í gegn, en þeir vinna nú hörðum höndum að því, undir leiðsögn Kjartans Ragnarssonar [leikstjóra], að fínstilla sýninguna áður en að sjálfum afmælisdeginum kemur,“ segir Snorri Már og bendir á að sögu Alþýðusambandsins verða einnig gerð viðeigandi skil á ljósmyndasýningu, sem nefnist Vinnandi fólk , í Þjóðminjasafninu. „Við höfum í samvinnu við safnið unnið að undirbúningi sýningarinnar í hálft ár og hún verður gríðarlega flott,“ segir hann, en sýningin verður opnuð 5. mars næstkomandi.

Þennan sama dag verður sýningin Gersemar opnuð í Listasafni ASÍ og gefst almenningi þar færi á að kynna sér mörg af þekktustu myndverkum tuttugustu aldar eftir nokkra fremstu listamenn þjóðarinnar, s.s. Ásgrím Jónsson, Jón Stefánsson, Nínu Tryggvadóttur og Jóhannes Sveinsson Kjarval.

Lúðrasveit verkalýðsins verður að sjálfsögðu á sínum stað og standa meðlimir hennar fyrir fjörugum tónleikum í salnum Kaldalóni í Hörpu klukkan hálfsex á afmælisdaginn, en áðurnefnda viðburði í tónleikahúsinu geta landsmenn sótt án endurgjalds.

Þegar kvölda tekur hefjast svo fernir tónleikar samtímis klukkan 20 og verða þeir haldnir í Eldborgarsal Hörpu, Hofi á Akureyri, Edinborgarhúsinu á Ísafirði og Egilsbúð í Neskaupstað. Aðgangur á tónleikana er án endurgjalds en Snorri Már segir fólk hins vegar þurfa að verða sér úti um miða og eru þeir afhentir á vefsíðunum trix.is og harpa.is og hefst afhending þeirra á hádegi 4. mars næstkomandi.

Meðal þeirra sem fram koma á þessum tónleikum má nefna Retro Stefson, Mannakorn, Valdimar, Agent Fresco, Hvanndalsbræður, Emmsje Gauta, Mugison og Lay Low. Nánari upplýsingar um tónleikana og þá listamenn sem þar koma fram má finna á heimsíðu ASÍ.

Grímur Atlason heldur utan um afmælistónleikana. „Markmiðið er að halda góða hátíð sem getur glatt og skemmt fólki,“ segir hann og heldur áfram: „Ég held að flestir ættu að geta fundið sér eitthvað til skemmtunar á þessum degi enda taka flottir listamenn þátt í þessari hátíð víðsvegar um land.“

Spurður hvort ekki sé strembið að skipuleggja svo marga viðburði sem að auki eiga allir að hefjast á sama tíma kveður Grímur já við. „Þetta er vissulega mikil vinna en ég tók þetta að mér því mig langaði mjög að koma að þessu verkefni,“ segir hann.

Sagan hófst í Báruhúsinu í Reykjavík

Það var 12. mars árið 1916 sem fulltrúar sjö stofnfélaga söfnuðust saman í Báruhúsinu í Reykjavík og samþykktu stefnuskrá Alþýðusambandsins. Er talið að stofnfélagar hafi verið á bilinu 1.500 til 1.900 talsins, en í dag eru félagsmenn Alþýðusambands Íslands yfir 75 þúsund í tæplega 100 félögum og deildum. Hátt í helmingur þeirra er konur en kynjaskipt félög eru á hröðu undanhaldi. Aðildarfélögin raða sér svo í sex landssambönd.