— Morgunblaðið/Brynjar Gauti
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jón Birgir Eiríksson jbe@mbl.is Ákvæði íslenskra laga um heimildir endurupptökunefndar til að fella niður réttaráhrif dóma Hæstaréttar eiga sér ekki fyrirmynd í norrænum rétti nema að mjög litlu leyti.

Jón Birgir Eiríksson

jbe@mbl.is

Ákvæði íslenskra laga um heimildir endurupptökunefndar til að fella niður réttaráhrif dóma Hæstaréttar eiga sér ekki fyrirmynd í norrænum rétti nema að mjög litlu leyti.

Þetta kemur fram í grein Kristínar Benediktsdóttur, dósents við lagadeild Háskóla Íslands, og Stefáns Más Stefánssonar, prófessors við lagadeild Háskóla Íslands, sem birtist á síðasta ári í öðru tölublaði Úlfljóts, tímarits laganema.

Í greininni gagnrýndu höfundar lagasetningu um endurupptöku dómsmála, en þar segir að verulegur vafi leiki á stjórnskipulegu gildi lagaheimilda sem liggi að baki.

Hæstiréttur sló því föstu með dómi sínum í fyrradag að tiltekin lagaákvæði um nefndina færu í bága við 2. gr. stjórnarskráarinnar um greinar ríkisvaldsins. Endurupptökunefnd væri því óheimilt að ógilda dóma réttarins enda væri það dómsvaldsins að leysa endanlega úr réttarágreiningi milli manna.

Einsdæmi á Norðurlöndum

Höfundar greinarinnar telja að með stofnun nefndarinnar hafi verið gerð grundvallarbreyting á verkefnum dómsvaldsins í þeim skilningi að ákvörðun um endurskoðun á niðurstöðu dóma Hæstaréttar og óáfrýjaðra héraðsdóma, sem áður féll undir dómsvaldið, hafi verið verið fengin framkvæmdarvaldinu. Í greininni er fjallað um lagaumhverfi nágrannaþjóða okkar í endurupptökumálum. Telja höfundar að reglur í nágrannaríkjunum séu ekki sambærilegar við þær sem í gildi eru hér á landi.

Norðmenn eru fyrst teknir fyrir, en þar starfar sambærileg nefnd, sem vísar beiðnum um endurupptöku á dómum Hæstaréttar aftur til hans.

Í Danmörku fjallar sér dómstóll um endurupptöku undirréttar, millidómstigs og Hæstaréttar í sakamálum. Hæstiréttur fjalli um endurupptöku á einkamálum.

Í Finnlandi, Svíþjóð og Þýskalandi er endurupptaka dæmdra mála eingöngu málefni dómstólanna.

Höfundar telja það ástæðu til endurskoðunar laganna að íslensku lögin séu í jafn miklu ósamræmi við þau norrænu og raun ber vitni.

Endurskoðun Hæstaréttar

Þriðja atriðið sem þau Kristín og Stefán Már benda sérstaklega á í grein sinni er vald Hæstaréttar til að endurskoða ákvarðanir endurupptökunefndar.

Taka þau fram að nefndin sé skilgreind í lögum sem stjórnvald og niðurstöður hennar skoðist því sem stjórnvaldsákvarðanir og þær sæti almennt endurskoðun dómstóla, bæði um form og efni.

Færa höfundarnir rök fyrir því að það sé þannig á valdi dómstóla að endurskoða hvort skilyrði endurupptöku séu fyrir hendi, þeir hafi jafnvel sjálfstæðar skyldur til að kanna ávallt hvort skilyrði endurupptöku mála séu fyrir hendi.