[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Hækkun verðlags á Íslandi er orðin áhyggjuefni fyrir íslenska kvikmyndagerð. Með sama áframhaldi gæti þróunin haft áhrif á útfærslu alþjóðlegra kvikmyndaverkefna á Íslandi og jafnvel dregið úr umfangi þeirra.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Hækkun verðlags á Íslandi er orðin áhyggjuefni fyrir íslenska kvikmyndagerð. Með sama áframhaldi gæti þróunin haft áhrif á útfærslu alþjóðlegra kvikmyndaverkefna á Íslandi og jafnvel dregið úr umfangi þeirra.

Þetta segir Leifur B. Dagfinnsson, stjórnarformaður Truenorth, en fyrirtækið hefur komið að gerð fjölda erlendra stórmynda á Íslandi á síðustu árum með stórstjörnum.

Fram hefur komið í Morgunblaðinu að slík verkefni hafa velt tugum milljarða króna á Íslandi á síðustu árum, samkvæmt tölum Hagstofunnar.

Leifur segir vinnuaflið á Íslandi samkeppnishæft í verði við til dæmis Bandaríkin og Bretland. Aðrir kostnaðarliðir, einkum matur, gisting, bílar og annar flutningur, séu hins vegar að hækka upp að sársaukamörkum.

„Gisting er klárlega að verða dýrari. Það er verið að rukka fyrir 2-3 stjörnu gistingu á verði 4-5 stjörnu gistingar. Þetta skiptir máli.“

Tjaldi ekki til einnar nætur

„Ísland er langt frá því að vera ódýrt. Verð á gistingu úti á landi er í sumum tilfellum eins og í stórborgum. Við það bætist að framboðið af gistingu er líka orðið of lítið. Við þurfum að hafa vakandi auga með þessu. Við viljum ekki tjalda til einnar nætur. Við höfum byggt upp þessa atvinnugrein í 15-20 ár og megum ekki fá það orðspor að vera of dýrt land. Þegar ég fer yfir kostnaðarliðina með erlendum framleiðendum súpa þeir hveljur. Við eigum enn svolítið langt í land með að geta gert heila erlenda bíómynd á Íslandi. Landið er of dýrt fyrir stúdíóin.“
Mikil umsvif
» Íslensk kvikmyndagerð velti samtals rúmum 75 milljörðum króna á verðlagi nú frá janúar 2008 og fram á mitt síðasta ár.
» Veltan nær til framleiðslu á kvikmyndum, myndböndum og sjónvarpsefni.
» Veltutölurnar eru frá Hagstofu Íslands.