Björg Margrét Indriðadóttir fæddist í Lindarbrekku í Kelduhverfi 25. maí árið 1930. Hún lést á Dvalarheimilinu Hvammi á Húsavík 15. febrúar 2016.

Björg var dóttir hjónanna Indriða Hannessonar frá Kelduneskoti og konu hans Kristínar Jónsdóttur frá Keldunesi. Hún átti eina eldri systur, Ingibjörgu, f. 19. apríl 1929, d. 15. maí 1998. Þá átti hún tvo yngri bræður, tvíburana Gunnar og Gunnlaug, fæddir 10. nóvember 1932. Gunnar lést 9. desember árið 2000.

Björg ólst upp í Lindarbrekku við störf og kjör síns tíma. Sem unglingur og ung stúlka vann hún á hóteli foreldra sinna sem þau ráku í Lindarbrekku. Um tvítugsaldur stundaði Björg nám í Húsmæðraskólanum á Laugalandi einn vetur.

Eiginmaður Bjargar var Haraldur Þórarinsson, fæddur 27. maí 1928, dáinn 4. júlí 2010. Þau gengu í hjónaband þann 12. nóvember 1952. Sonur þeirra er Indriði Vignir, bóndi í Kvistási, fæddur 15. júlí 1956. Þau eignuðust dreng sem fæddist þann 5. febrúar árið 1953, en lifði aðeins tvo daga.

Stofnsettu þau Haraldur og Björg nýbýlið Kvistás í landi Laufáss og byggðu sér íbúðarhús sem þau fluttu inn í árið 1959.

Björg var húsmóðir alla tíð. Hún starfaði nokkuð utan heimilis við fiskeldi. Björg söng í Kór Garðskirkju um árabil og var virkur félagi í Kvenfélagi Keldhverfinga fyrr á árum.

Útför Bjargar fer fram frá Garðskirkju í dag, 27. febrúar 2016, og hefst athöfnin klukkan 14.

Nú þegar ég sest niður og skrifa nokkur orð til að minnast Bjargar Margrétar Indriðadóttur, leitar hugur minn óneitanlega til æskuáranna. Björg var konan hans Haraldar Þórarinssonar í Kvistási í Kelduhverfi, eða Mannsa frænda eins og hann var alltaf nefndur heima. Þeir voru stórfrændur, pabbi og hann. Ég var 11-12 ára gömul þegar mér stóð til boða að dvelja hjá þeim í Kvistási og þangað fór ég í nokkur skipti vor og haust og kynntist þá þessu góða fólki, Björgu, Mannsa og Indriða Vigni syni þeirra. Við Indriði urðum fljótt góðir vinir og höfum verið svo alla tíð. Þetta var ekki eiginleg sveitadvöl í þeirri merkingu því Mannsi frændi var ekki bóndi með skepnuhald, heldur rak hann verkstæði og var því á kafi í vélum og slíku og þótti ráðsnjall og úrræðagóður til þeirra verka. En það var Björg sem stóð vaktina á heimilinu, enda ótrúlegur gestagangur því yfirleitt var viðskiptavinum vísað inn í kaffi til Bjargar á meðan gert var við, eða allir komu inn að verki loknu. Hún sá til þess að enginn fór ómettur frá Kvistási. Matur, kaffi eða hvorutveggja.

Allt frá því ég kom til þeirra í fyrsta sinn lét hún mig finna það á einlægan hátt hversu velkomin ég var og alltaf umvafði hún mig með sinni einskæru hlýju og væntumþykju. Sú væntumþykja var gagnkvæm.

Það var alltaf gott að koma í Kvistás, fara inn og banka á eldhúshurðina og bíða eftir að heyra Björgu segja: „Kom.“ Sjá hana gleðjast og brosa svo bjart að fitjaðist upp á nefið og heyra hláturinn um leið og hún fagnaði gestunum. Þá var hitað kaffi og farið með disk og annan inn í búr og allslags góðgæti borið fram um leið og innt var frétta af fjölskyldunni. Svo var talað og rifjað upp, hlegið og talað meira. Og tíminn varð einhvern veginn alltaf sá sami í þessu eldhúsi – þarna sem ég lærði að drekka kaffi. Og þó, margt hefur breyst enda líður tíminn og fólk eldist.

Áhugi Indriða á búskap og skepnuhaldi jókst með árunum og í dag er hann bóndi með kindur og geitur sem eru hans líf og yndi. Ég veit að Björg hafði oft áhyggjur af framtíð Indriða en hún naut þess líka að sjá hann vaxa og dafna við bústörfin og hún var mjög stolt af honum og það mátti hún líka vera.

Eftir fráfall Mannsa í júlí 2010 fór að halla á heilsu Bjargar og svo fór að hún flutti að lokum á Hvamm, dvalarheimili aldraðra á Húsavík. Hún gat þó vel fylgst með hvernig Indriða syni þeirra gekk að vera sinn eigin herra og sjá um sig sjálfur og búskapinn. Henni þótti einnig gott að vita til þess að Indriði er ekki einn því að í Kelduhverfi býr einstakt fólk sem er annt um nágranna sinn og lítur til með honum og gerir honum kleift að halda áfram að lifa því lífi sem hann kýs og að vinna áfram við það sem hann getur og kann. Slíkt verður seint fullþakkað.

Ég þakka Björgu samfylgdina, minning þeirrar góðu konu lifir og ég bið góðan Guð að styrkja Indriða frænda minn á sorgarstund.

Sigríður Ingvarsdóttir.