6 mörk Daði Laxdal Gautason skoraði 6 mörk fyrir Gróttu og fær hér hraustlegar móttökur.
6 mörk Daði Laxdal Gautason skoraði 6 mörk fyrir Gróttu og fær hér hraustlegar móttökur. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handbolti Sindri Sverrisson Benedikt Grétarsson Í gærkvöldi varð ljóst að Grótta frá Seltjarnarnesi yrði í úrslitum hjá báðum kynjum í Coca Cola-bikarkeppni HSÍ.

Handbolti

Sindri Sverrisson

Benedikt Grétarsson

Í gærkvöldi varð ljóst að Grótta frá Seltjarnarnesi yrði í úrslitum hjá báðum kynjum í Coca Cola-bikarkeppni HSÍ. Í karlaflokki mun Grótta mæta Val, sem tókst að vinna Hauka, en Valsmönnum hefur gengið bölvanlega gegn Haukum um langa hríð.

Það er eitthvað ansi magnað og gott við sambandið á milli þjálfarans Óskars Bjarna Óskarssonar og bikarkeppninnar í handbolta. Í dag kemur í ljós hvort það skilar sér í enn einum bikarmeistaratitlinum sem Valur vinnur undir stjórn þessa mikla Valsara, þegar úrslitaleikurinn í Coca Cola-bikar karla fer fram. Valsmenn skiluðu sér í úrslitaleikinn með því að slá út Hauka, 24:22, í leik þar sem þeir höfðu frumkvæðið langstærstan hluta leiksins, sem þó var spennuþrunginn fram á lokamínútuna.

Það var mjög létt og yfirvegað yfirbragð yfir Óskari þegar hann steig inn á gólf Laugardalshallarinnar í gær, rétt eins og hann væri á leiðinni í smábjór með félögunum en ekki leik upp á líf og dauða. Þannig var það ekki þegar leið á leikinn, en Óskar Bjarni hefur gert þetta allt áður, oftar en flestir, og það hefur sitt að segja. Hann kann einhverja formúlu sem virkar.

Á árunum 2008-2011 fór Óskar fjögur ár í röð með Val í bikarúrslitaleikinn (!) og skilaði titli á Hlíðarenda í þrjú af þessum skiptum. Hann tók sér svo hlé frá þjálfun liðsins sumarið 2012 og tók við kvennaliði Viborg í Danmörku, sneri svo heim og var fljótt tekinn við kvennaliði Vals, áður en hann hljóp svo í skarðið hjá karlaliðinu ásamt Jóni Kristjánssyni þegar Ólafur Stefánsson tók sér frí (sem enn stendur yfir) sumarið 2014. Síðasta árið hefur Óskar svo séð um liðið, sem er aftur komið í þá stöðu að spila til bikarúrslita. Á meðan hann var í burtu fengu Valsmenn ekki einu sinni að upplifa leik í undanúrslitum.

Það var þó ekki eins og Óskar spilaði sjálfur leikinn við Hauka í gær. Hann varð auðvitað að treysta á lærisveina sína, og þeir spiluðu frábæran varnarleik að þessu sinni. Hlynur Morthens varði svo mjög vel í markinu, mun betur en Giedrius Morkunas sem svo oft hefur verið í hetjuhlutverki hjá Haukum síðustu misseri. En þetta hefði litlu skilað ef ekki hefði verið fyrir stórleik ungs Selfyssings sem hefur nú greinilega náð að jafna sig af meiðslum sem héldu honum frá keppni undir lok síðasta árs. Í síðustu viku sagðist Ómar Ingi Magnússon hér í blaðinu vonast til að vera „kominn á fullt eftir nokkrar vikur“ en í gær var greinilega þegar komið að þeim tímapunkti. Hann skoraði 10 mörk gegn hinni sterku vörn Hauka og Morkunas, lagði upp fyrir félaga sína og gat einhvern veginn alltaf staðið undir því þegar leitað var til hans í sóknarleiknum. Janus Daði Smárason reyndi að gera það sama fyrir Hauka en gekk ekki eins vel að þessu sinni.

Haukar héldu sér samt alltaf mjög nálægt Val í leiknum og hefðu vel getað spilað úrslitaleikinn. Valsmenn, með bikarformúlu Óskars í töskunni, verða hins vegar þess heiðurs aðnjótandi. Og hvernig svo sem fer hefur hann skilað bikarverðlaunum í hús, enn einu sinni.

Skylduverkefnið reyndist snúið

Flestir handboltaspekingar landsins áttu eflaust von á því að fyrstudeildarlið Stjörnunnar yrði úrvalsdeildarliði Gróttu lítil hindrun þegar liðin mættust í undanúrslitum bikarkeppni HSÍ í gær. Garðbæingar blésu hins vegar á alla spádóma og seldu sig dýrt frá upphafi leiks til lokaflauts.

Barátta Stjörnunnar dugði þó ekki til fulls gegn Gróttu, sem sigraði í leiknum 28:25 og það verða því Grótta og Valur sem mætast í úrslitaleiknum í Laugardalshöllinni í dag.

Eftir hnífjafnan fyrri hálfleik var staðan jöfn, 13:13, en bæði lið buðu upp á ágæt tilþrif í Höllinni í gær. Stjarnan lék af krafti og nýtti sér stórar glufur í vörn Gróttu. Það háði hins vegar Garðbæingum að varnarleikur liðsins náði aldrei þeim hæðum sem til þarf í svona leik.

Innkoma Lárusar G. vendipunktur

Lárus Helgi Ólafsson byrjaði leikinn í markinu hjá Gróttu en náði sér ekki á strik. Því kom nafni hans, Lárus Gunnarsson, í markið undir lok fyrri hálfleiks og þessi skipting reyndist snilldarbragð. Lárus varði síðasta skot Stjörnunnar í fyrri hálfleik og byrjaði síðan af miklum krafti í þeim síðari.

Stórleikur Lárusar varð til þess að Grótta náði undirtökunum og Seltirningar héldu þeim allt til leiksloka. Sigurinn reyndist á endanum sanngjarn en Stjarnan lét Gróttu svo sannarlega hafa fyrir hlutunum. „Við erum gott markvarðapar og það skiptir nákvæmlega engu máli hvor okkar stendur í búrinu, sigurinn er það eina sem skiptir máli,“ sagði hetja Gróttu, Lárus Gunnarsson, eftir leik.

Grótta hefur alla burði til að valda sterku liði Vals vandræðum í úrslitaleiknum á morgun. Markverðir liðins mynda góða heild og leikmenn eins og Daði Laxdal og Finnur Ingi Magnússon geta gjörbreytt leikjum upp á sitt eindæmi. Þjálfarinn Gunnar Andrésson hefur búið til sterka liðsheild og það væri glapræði fyrir Valsmenn að vanmeta Gróttu.

Einar Jónsson við suðumark

Einar Jónsson, hinn litríki þjálfari Stjörnunnar, var vægast sagt óáttur í leikslok og vandaði dómaraparinu ekki tóninn. Ingvar Guðjónsson og hinn færeyski Eydun Samuelsen dæmdu leikinn og náðu ekkert sérstaklega vel saman að mati Einars.

„Síðast þegar ég vissi voru bara leyfð þrjú skref í handbolta. Þessar reglur eru greinilega eitthvað öðruvísi í Færeyjum, ég bara þekki það ekki. Það er bara ansi erfitt að spila varnarleik ef menn fá endalaust að taka fjögur til fimm skref. Það er bara helvíti erfitt að eiga við það. En er ég ekki bara í þessu endalausa dómaratuði, eins og vanalega?“ sagði hundsvekktur Einar Jónsson að lokum.

Grótta – Stjarnan 25:28

Laugardalshöll, Coca Cola-bikar karla, undanúrslit, föstudag 26. febrúar 2016.

Gangur leiksins : 1:2, 5:5, 7:8, 10:11, 12:12, 13:13 , 14:15, 16:17, 16:20, 18:22, 21:24, 25:28 .

Mörk Stjörnunnar : Ari Magnús Þorgeirsson 6, Starri Friðriksson 5, Ari Pétursson 3, Hrannar Bragi Eyjólfsson 3, Hörður Kristinn Örvarsson 2, Sverrir Eyjólfsson 2, Eyþór Már Magnússon 2, Andri Hjartar Grétarsson 2.

Varin skot : Einar Ólafur Vilmundarson 8, Ísak Richter 1.

Utan vallar : 4 mínútur

Mörk Grótta : Finnur Ingi Stefánsson 6/1, Daði Laxdal Gautason 6, Aron Dagur Pálsson 5, Viggó Kristjánsson 5, Guðni Ingvarsson 3, Þráinn Orri Jónsson 2, Styrmir Sigurðsson 1.

Varin skot : Lárus Gunnarsson 11/1, Lárus Helgi Ólafsson 5.

Utan vallar : 2 mínútur

Dómarar : Eydun Samuelsen og Ingvar Guðjónsson

Áhorfendur : 1.256.

Valur – Haukar 24:22

Laugardalshöll, Coca Cola-bikar karla, undanúrslit, föstudag 26. febrúar 2016.

Gangur leiksins : 3:3, 5:4, 8:4, 11:7, 11:9, 13:12 , 17:16, 17:18, 19:18, 20:20, 23:21, 24:22 .

Mörk Vals : Ómar Ingi Magnússon 10/2, Guðmundur Hólmar Helgason 4, Elvar Friðriksson 3, Geir Guðmundsson 2, Sveinn Aron Sveinsson 2, Orri Freyr Gíslason 1, Alexander Örn Júlíusson 1, Atli Már Báruson 1.

Varin skot : Hlynur Morthens 20/2.

Utan vallar : 6 mínútur

Mörk Hauka : Adam Haukur Baumruk 6, Janus Daði Smárason 6/1, Tjörvi Þorgeirsson 3, Heimir Óli Heimisson 2, Elías Már Halldórsson 2, Brynjólfur Snær Brynjólfsson 1, Einar Pétur Pétursson 1, Matthías Árni Ingimarsson 1.

Varin skot : Giedrius Morkunas 16.

Utan vallar : 2 mínútur

Dómarar : Bjarki Bóasson og Gunnar Óli Gústafsson.

Áhorfendur : 1.423