Stefán E. Stefánsson ses@mbl.

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

Í samningi milli Nýja Kaupþings (síðar Arion banka) og slitabús Kaupþings er varðaði yfirfærslu krafna á hendur 40 félögum og dótturfélögum þeirra frá slitabúinu til bankans er kveðið á um að slitabúið hafi heimild til að tilnefna sérstakan eftirlitsmann með kröfunum. Listinn kom fyrst fyrir sjónir almennings í frétt í ViðskiptaMogganum á fimmtudaginn, en hann hefur gengið undir nafninu „dauðalistinn“. Er þessi eftirlitsmaður nefndur „Kaupthing Observer“ í samningnum.

Helgi Sigurðsson hæstaréttarlögmaður telur mikinn vafa leika á því hvort lagaheimild hafi verið fyrir því að skipa eftirlitsmann af þessu tagi. Segir hann að þagnarskylduákvæði sem hvíla á fjármálafyrirtækjum, og tilgreind eru í 58. grein laga um fjármálafyrirtæki, setji mjög strangar kröfur um hverjir megi hafa aðgang að upplýsingum um viðskiptamenn fjármálafyrirtækja.

„Fyrir fram er erfitt að sjá að veita megi slíka heimild án þess að fyrir því sé skýr heimild í lögum. Þrátt fyrir að slitastjórnin hafi vitneskju um kröfur á hendur þeim fyrirtækjum sem eru á umræddum lista getur hún ekki haft aðkomu að innheimtu þeirra og áframhaldandi viðskiptasambandi þeirra við nýja bankann með þeim hætti sem lýst er í frétt Morgunblaðsins frá því á fimmtudaginn. Umfjöllun um meðferð krafna á hendur viðskiptamönnum krefst yfirleitt afhendingar á ýmsum trúnaðargögnum sem falla undir þagnarskylduákvæði laga um fjármálafyrirtæki og verður ekki séð á hvaða grunni eigi að veita slíkum eftirlitsmanni aðgang að þeim.“

Strangar kröfur um aðkomu

Helgi segir að lög um fjármálafyrirtæki geri mjög skýrar kröfur til þeirra sem aðgang að upplýsingunum megi hafa. Þá sé auk þess ekki ljóst með hvaða hætti hafi mátt fella fulltrúa Kaupþings undir þann hóp sem í lögunum er tilgreindur og má í raun hafa aðgang að upplýsingum um viðskiptamenn fjármálafyrirtækis.

Hann bendir á að allt bendi til að eftirlitsmaður Kaupþings hafi haft aðkomu eða afskipti að einstaka viðskiptum sem tengdust þeim fyrirtækjum sem nefnd eru á hinum svokallaða „dauðalista“.

„Það eru mjög strangar kröfur gerðar um að aðkoma stjórnarmanna og hluthafa sé bundin við þær stjórnunareiningar sem skilgreindar eru í lögunum. Lögin koma jafnframt í veg fyrir að stjórnarmenn, hvað þá aðrir, hafi afskipti af ákvörðunum um einstök viðskipti. Tilnefning sérstaks eftirlitsmanns með þennan víðtæka aðgang virðist á skjön við slíkar reglur.“

Eftirlitsmaðurinn
» Samkvæmt samningi milli Nýja Kaupþings og slitabús gamla Kaupþings hafði eftirlitsmaður slitabúsins viðtækar heimildir.
» Hann mátti sitja alla fundi lánanefndar bankans þar sem fyrirtækin á „dauðalistanum“ voru til umfjöllunar .
» Hann mátti sitja alla stjórnarfundi bankans þar sem fyrrnefnd fyrirtæki voru rædd.
» Hann mátti fá allar upplýsingar um fyrirtækin sem tengdust þeim.
» Eftirlitsmaðurinn mátti koma með skriflegar tillögur um með hvaða hætti farið yrði með kröfur á hendur fyrirtækjunum.