Hátíð Bændasamtökin búast við fjölda gesta á hátíðina í Hörpu.
Hátíð Bændasamtökin búast við fjölda gesta á hátíðina í Hörpu.
Búnaðarþing verður sett við hátíðlega athöfn í Hörpu á morgun, sunnudaginn 28. febrúar, klukkan 12.30. Af því tilefni verður slegið upp landbúnaðar- og matarhátíð í Hörpu á milli kl. 11 og 17 þar sem allir eru velkomnir og aðgangur ókeypis.

Búnaðarþing verður sett við hátíðlega athöfn í Hörpu á morgun, sunnudaginn 28. febrúar, klukkan 12.30. Af því tilefni verður slegið upp landbúnaðar- og matarhátíð í Hörpu á milli kl. 11 og 17 þar sem allir eru velkomnir og aðgangur ókeypis. „Gestum gefst kostur á að kynna sér úrval íslenskra búvara hjá nokkrum úrvinnslufyrirtækjum bænda, skoða búvélar og virða fyrir sér mannlífið í Hörpu,“ segir í frétt frá Bændasamtökunum. Fyrir utan tónlistarhúsið verður grillvagn sauðfjárbænda, hamborgarabíllinn Tuddinn, ásamt dráttarvélum og öðrum tækjabúnaði sem bændur nota í sínum störfum. Meðal fyrirtækja sem verða á svæðinu eru MS, Sláturfélag Suðurlands, Sölufélag garðyrkjumanna, Flúðasveppir, Biobú, Kraftvélar, Vélfang, Fóðurblandan og Landbúnaðarháskóli Íslands.

Setningarathöfnin er öllum opin. Sindri Sigurgeirsson, formaður BÍ, flytur setningarræðu og Sigurður Ingi Jóhannsson, landbúnaðarráðherra, ávarpar gesti. Guðlaug Elísabet Ólafsdóttir leikkona og bóndi á Mýrum stýrir athöfninni. Dömur í Graduale-kórnum syngja nokkur lög og bóndinn Svavar Pétur Eysteinsson, Prins Póló, flytur nokkra af sínum þekktustu slögurum.