Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
„Blaðberarnir okkar eru einvala sveit sem sinnir sinni vinnu svo til fyrirmyndar er. Við viljum gera vel við þetta starfsfólk og að það fái lofið sem því ber,“ segir Örn Þórisson, dreifingarstjóri Árvakurs. Nýlega var blaðberum fyrirtækisins, sem sjá um dreifingu Morgunblaðsins og fleiri blaða, boðið í heimsókn í prentsmiðju Landsprents. Þar var frábærum árangri hinna ötulustu í hópnum fagnað, en á síðasta ári voru það 76 blaðberar sem unnu meira en 250 daga af 306 dreifingardögum og náðu að vera með kvartanafjölda innan gæðamarka.
Sjö blaðberar unnu alla 306 útgáfudaga Morgunblaðsins í fyrra, á síðasta ári og fjórir blaðberar af áðurnefndum 76, báru út kvartanalaust á síðasta ári. Það er með öðrum orðum sagt fullkominn árangur í starfi. Fengu þeir sérstaka viðurkenningu fyrir vel unnin störf.
Með sjö hverfi
Blaðberar Árvakurs bera, sem fyrr segir, út Morgunblaðið, en einnig koma þeir að dreifingu Fréttatímans, DV, Stundarinnar, tímarita Birtíngs, og bóka og blaða Eddu – útgáfu, hvar blöðin um Andrés Önd ber sennilega hæst.Auk viðurkenninga fyrir vel unnin störf var dregið í ferðahappadrætti þar sem allir blaðberarnir 76 voru í pottinum. Aðalvinningurinn, ferð til Flórens á Ítalíu með ferðaskrifstofunni VITA, féll í skaut hins serbneska Nenad Bogdanovic sem annast blaðburð í Smáranum í Kópavogi og Bökkum í Breiðholti Reykjavíkur. „Ég er með alls sjö hverfi og blaðafjöldinn getur rokkað frá 150 alveg upp í 1.200. Þetta er ágæt vinna sem ég hef stundað í alls sjö ár og sá tími segir sitt,“ segir Nenad sem er fjölskyldumaður. Bæði hann og kona hans vinna hjá Íslandspósti og eiga þrjú börn, 19, 8 og 3 ára.
„Ég hlakka til Flórensferðar. Raunar verð ég mikið á faraldsfæti á næstunni, því einnig stendur Frakklandsferð fyrir dyrum þar sem ég ætla að fylgjast með Íslendingum á EM,“ segir Nenad.