Repúblíkanar gætu staðið frammi fyrir tveimur slæmum kostum í haust

Þegar auðkýfingurinn Donald Trump tilkynnti framboð sitt til forseta Bandaríkjanna í fyrra töldu vísast til flestir að hann myndi ekki eiga nokkra möguleika á útnefningu Repúblíkanaflokksins. Sumir álitsgjafar spáðu því að við lok febrúar yrði allt loftið úr bólginni blöðru Trumps.

En tíminn leið og enn er beðið eftir því að blaðran tæmist. Ef eitthvað er virðist sem bæst hafi í hana frekar en hitt, sér í lagi eftir að Trump náði að vinna þrennar af fyrstu fernum forkosningunum. Hann leiddi meira að segja með svo miklum mun í Nevada að samanlagt fylgi næstu tveggja manna, öldungadeildarþingmannanna Marco Rubio og Ted Cruz, hefði ekki dugað til þess að skáka honum.

Ástæðurnar fyrir þessu eru margvíslegar og hefur þegar verið bent á þátt fjölmiðla, sem hafa sýnt Trump mun meiri athygli en öðrum frambjóðendum. Fjölmiðlaathygli ein og sér getur þó ekki útskýrt hvernig maður sem gengst upp í því að setja fram stórfurðulegar og jafnvel hneykslanlegar yfirlýsingar nær að halda fylgi sínu þrátt fyrir að almenn skynsemi kveði á um annað.

Nærtækara virðist að benda á að flestir hinir frambjóðendur repúblíkana virðast hafa verið svo vantrúaðir á að Trump gæti borið sigur út býtum að þeir eyddu mestum tíma sínum ekki í að tækla þau furðumál sem hann bar á borð, heldur í að rífa hver annan niður.

Fyrir helgi var þó annað uppi á teningnum, þar sem bæði Rubio og Cruz gengu hart að Trump í síðustu kappræðunum fyrir hinn svonefnda „ofurþriðjudag,“ en þá ákveða repúblíkanar í þrettán ríkjum hverjir af frambjóðendunum fái fulltrúa á flokksþinginu í júlí næstkomandi.

Fyrir þá Cruz og Rubio verður árangur á þriðjudaginn ekki einvörðungu mældur í því hvort þeir ná að vinna einhver af ríkjunum þrettán, heldur ekki síður hvor stendur sterkari á eftir í baráttunni gegn Trump.

Eftir kosningarnar á þriðjudag mun þrýstingur aukast á aðra frambjóðendur en þann sem er sigurstranglegastur gegn Trump að draga sig út úr keppninni og auka þannig líkurnar á að flokkurinn bjóði fram frambærilegan frambjóðanda. Geri flokkurinn það ekki stendur hann frammi fyrir tveimur mögulegum kostum. Annaðhvort að frambjóðanda flokksins verði hafnað í haust eða, sem væri jafnvel enn verri kostur fyrir flokk sem er í senn annt um land sitt og vill eiga framtíð í stjórnmálum, að koma manni í Hvíta húsið sem er slíkt ólíkindatól að hann gæti stórskaðað hagsmuni Bandaríkjanna.