Brussel Háloftaveitingastaðirnir sem þekkjast undir nafninu Dinner in the Sky eru víða um heim. Hér má sjá fólk að snæðingi í Brussel, en hugmyndin á rætur sínar að rekja til Belgíu. Áform eru um að opna slíkan stað í Reykjavík.
Brussel Háloftaveitingastaðirnir sem þekkjast undir nafninu Dinner in the Sky eru víða um heim. Hér má sjá fólk að snæðingi í Brussel, en hugmyndin á rætur sínar að rekja til Belgíu. Áform eru um að opna slíkan stað í Reykjavík. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðar Guðjónsson vidar@mbl.is Uppi eru áform um að opna veitingastað á Klambratúni í sumar. Staðurinn mun njóta þeirrar sérstöðu að gestir eru dregnir upp í um 45 metra hæð með krana þar sem þeir geta notið útsýnis yfir borgina.

Viðar Guðjónsson

vidar@mbl.is

Uppi eru áform um að opna veitingastað á Klambratúni í sumar. Staðurinn mun njóta þeirrar sérstöðu að gestir eru dregnir upp í um 45 metra hæð með krana þar sem þeir geta notið útsýnis yfir borgina. Jóhannes Stefánsson veitingamaður, gjarnan kenndur við Múlakaffi, er einn þeirra sem standa að verkefninu, sem hefur fengið jákvæða umsögn hjá umhverfis- og skipulagssviði, og var erindi hans tekið fyrir á fundi borgarráðs í fyrradag.

Jón Axel Ólafsson, útgefandi hjá Eddu, er talsmaður hópsins sem stendur að verkefninu, sem hann segir að samanstandi af vinum. Hann segir að hugmyndin sé upprunnin í Belgíu og nefnist vörumerkið Dinner in the Sky.

Staðir í 53 borgum

Þegar eru sambærilegir veitingastaðir í 53 borgum. Jón Axel segir að fjármögnun verksins sé ekki tryggð og að ekki sé búið að stofna félag utan um reksturinn en búið sé að fá leyfi til þess að nota vörumerkið á Íslandi og í Noregi. Fyrstu skrefin séu að fá hin ýmsu leyfi hjá borginni áður en haldið sé áfram. „Við erum nokkrir vinir sem fengum þessa hugmynd þegar við sáum þetta erlendis,“ segir Jón Axel. Hann segir að eðli málsins samkvæmt verði bara um sumaropnun að ræða. „Við viljum vinna þetta í samstarfi við borgina við uppbyggingu hjá Kjarvalsstöðum, sem við teljum að sé eitt fallegasta hús borgarinnar, á einu fallegasta svæði borgarinnar,“ segir Jón Axel. Spurður hvort menn hafi ekki áhyggjur af vindum og veðrum, segir Jón Axel svo ekki vera. „Er ekki hægt að segja að veðrið á Íslandi sé yfirleitt gott á sumrin og sólsetrið í júní og júlí er með því fallegra sem gerist,“ segir Jón Axel.

Gestir í beltum

Að sögn hans er eldað á staðnum og verður um að ræða aðstöðu fyrir 22 gesti sem setjast á pall sem hífður er upp í allt að 45 metra hæð. Skuldbindur hver gestur sig til að vera í einhvern ákveðinn tíma áður en farið er niður. Allir eru spenntir í sætin sín auk þess sem starfsfólk er fest í öryggislínu en ekkert handrið er til að halla sér upp að.

Sjálfur segist Jón Axel ekki hafa prófað að borða við þessar aðstæður en stefni að því að gera það bráðlega í Mexíkó.