[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
FH-ingurinn Hilmar Örn Jónsson heldur áfram að bæta eigið met í lóðkasti á háskólamótum í frjálsíþróttum innanhúss í Bandaríkjunum.

FH-ingurinn Hilmar Örn Jónsson heldur áfram að bæta eigið met í lóðkasti á háskólamótum í frjálsíþróttum innanhúss í Bandaríkjunum. Í fyrradag kastaði hann lóðinu 20,32 metra og bætti eigið met sem sett var fyrr í mánuðinum um sjö sentímetra og hafnaði í sjötta sæti á mótinu. Hilmar Örn sem hefur sérhæft sig í sleggjukasti hefur bætt Íslandsmetið jafnt og þétt síðustu vikur. Lóðið sem kastað er vegur lóðkasti 35 lbs sem svarar til um 15,88 kg. Þar sem ekki keppt í sleggjukasti innandyra reyna margir sleggjukastarar sig í lóðkasti yfir vetrartímann.

Knattspyrnulið Fjarðabyggðar, sem leikur í 1. deild karla, hefur fengið til sín varnarmann frá Malí sem síðast var á mála hjá Chievo Verona í ítölsku A-deildinni. Hann heitir Oumaro Coulibaly og er 22 ára gamall miðvörður. Coulibaly hefur verið í röðum Chievo frá árinu 2010 en lítið komið við sögu með aðalliði félagsins og verið lánaður til liða í neðri deildum á Ítalíu. Hann hefur leikið með Lumezzane í C-deildinni undanfarin tvö ár.

Danski knattspyrnumaðurinn Sebastian Svärd er genginn til liðs við Þrótt í Reykjavík, nýliðana í Pepsi-deild karla, og er kominn með leikheimild. Svärd, sem er 33 ára gamall varnartengliður, hefur komið víða við en hann var í röðum enska stórliðsins Arsenal frá 1999 til 2006. Hann spilaði þó aldrei með aðalliði félagsins en var lánaður til FC Köbenhavn, Bröndby, Stoke og Vitoria í Portúgal. Hann spilaði síðan með Mönchengladbach og Hansa Rostock í Þýskalandi, Roda í Hollandi, Silkeborg í Danmörku, Syrianska í Svíþjóð, Wycombe á Englandi og nú síðast með Songkhla í Taílandi.