Sigurgeir Kristinsson fæddist í Norðurgarði vestri í Vestmannaeyjum 6. desember 1935. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands 18. febrúar 2016.

Foreldrar hans voru Gísli Kristinn Aðalsteinsson, f. 31.12. 1903, d. 13.6. 1963, og Guðbjörg Sigríður Einarsdóttir, f. 21.12. 1905, d. 12.8. 1972.

Sigurgeir var næstelstur af sjö systkinum, þau eru:

1. Ástrós Eyja Kristinsdóttir, f. 7.11. 1933, d. 31.3. 2012. 2. Guðbjartur Kristinn Kristinsson, f. 12.4. 1937, d. 3.5. 2015. 3. Sveinsína Kristinsdóttir, f. 19.7. 1938. 4. Alfreð Kristinsson, f. 29.11. 1939, d. 10.9. 1974. 5. Árný Ingiríður Kristinsdóttir, f. 20.12. 1940. 6. Ásta Guðfinna Kristinsdóttir, f. 18.9. 1945.

Útför Sigurgeirs fer fram frá Þorlákskirkju í Þorlákshöfn í dag, 27. febrúar 2016, klukkan 14.

Það var árið 1986 sem Sigurgeir, alltaf kallaður Geiri, kom til mín þegar ég var að byggja verkstæðið og forvitnaðist eftir vinnu hjá mér. Ég spurði „hvenær geturðu byrjað?“ og hann sagðist byrja strax, sem hann gerði, enda tilbúinn með hamar í skottinu á bílnum. Eftir það var hann hjá okkur, þar til hann hætti að vinna fyrir tveimur árum.

Ekki leið á löngu þar til ég útbjó fyrir hann íbúð á verkstæðinu, þar leið honum mjög vel og vildi helst hvergi annars staðar búa, þrátt fyrir að margir vildu koma honum þaðan, hann mátti ekki heyra á það minnst.

Á hverjum einasta morgni kom Geiri heim til okkar Laufeyjar í morgunkaffi, en þá var hann búinn að fara í fjárhúsið og gefa kindinni og hrútunum. Geiri átti sitt eigið fjárhús þar sem hann var alltaf að dunda sér. Þar var hann með nokkrar kindur og hrútinn Dorra. Hann hugsaði mjög vel um sínar skepnur.

Þegar við Laufey ákváðum að fara að byggja okkur íbúðarhús, þá hjálpaði Geiri okkur við það og vildi klára þetta á mettíma. Eins þegar við byggðum sumarhúsið, þá var hann mættur eldsnemma á morgnana upp í Úthlíð til að hjálpa til við að byggja. Geira þótti gaman að vinna, sérstaklega þó að fúaverja.

Geiri fylgdist vel með krökkunum okkar og vildi vita hvað þau væru að aðhafast. Talaði alltaf um „strákinn og stelpuna“ svo ekki var alveg ljóst um hvern var að ræða. Eins talaði hann alltaf um „hann og hana“ þegar hann ræddi við annað fólk, en við lásum yfirleitt á milli línanna og áttuðum okkur á um hvern ræddi.

Geiri hafði mjög gaman af bílum og eignaðist hann þá marga. Eins hafði hann mikið gaman af mótorhjólum og átti slíkt. Hann var í mótorhjólaklúbbi í Vestmannaeyjum sem heitir Drullusokkarnir og var hann þar gerður að heiðursfélaga númer 14.

Geiri hafði gaman af því að ferðast og fór hann með okkur og strákunum í Trésmiðju Heimis í nokkrar ferðir til útlanda og talaði oft um hversu gaman honum hefði þótt í þessum ferðum.

Seinustu tvö árin bjó Geiri á 9-unni í Þorlákshöfn og líkaði honum vel að vera þar. Eftir að Geiri hætti að keyra, keypti hann sér rafskutlu sem hann fór á um þorpið og kom víða við og alveg reglulega hjá vinum sínum í Olís þar sem farið var yfir málin og fengnar nýjustu fréttirnar.

Geiri var einn af þessum karakterum sem maður kynnist ekki oft á ævinni. Hann var einn af þessum kynlegu kvistum, sem öllum þykir vænt um. Sem barn veiktist hann, sem markaði spor sín á hann það sem eftir var. Hann var þó alltaf sjálfstæður, vann og hugsaði mjög vel um dýrin sín. Geiri var mikill mannvinur og flestallir í Þorlákshöfn vissu hver Geiri var og tóku honum bara nákvæmlega eins og hann var, engum öðrum líkur.

Elsku Geiri, takk fyrir allt sem þú gerðir fyrir okkur. Hvíl í friði, kæri vinur.

Laufey, Heimir

og krakkarnir.

Fallinn er frá Sigurgeir Kristinsson frá Norðurgarði í Vestmannaeyjum.

Við hjónin vorum heppin að hafa fengið að kynnast honum Geira gamla. Hann var mikill dýravinur og átti bæði fjárhús og kindur. Alltaf þurfti að vera til nóg hey í hlöðunni fyrir skepnurnar. Þær mátti aldrei skorta neitt. Hann kom ófáar ferðir niður að Forsæti til að sækja heyrúllur. Hann fékk sérvalið hey í kindurnar og þær rúllur voru geymdar á góðum stað og vandlega merktar með G. Í þessum heimsóknum kíkti hann iðulega í fjósið og heilsaði upp á skepnurnar. Svo tókum við oft rúnt í kringum kartöflugarðana líka til að skoða hvernig sprettan væri. Einnig var fastur punktur að hella á könnuna og hlusta á Geira segja frá eins og honum einum var lagið og ekki þótti honum verra ef til var nýbakað með kaffinu.

Hann var mikið náttúrubarn og fór snemma á fætur til gegninga. Yfirleitt var dagurinn löngu byrjaður hjá honum þegar aðrir þorpsbúar skriðu á fætur. Svo kláraði hann vinnudaginn í Trésmiðjunni.

Geiri gamli naut þess að vera hluti af samfélaginu. Hann átti þeim heiðurshjónum Heimi og Laufeyju mikið að þakka og eins strákunum á verkstæðinu, því með þeirra hjálp fékk hann að starfa og lifa góðu lífi og vera hann sjálfur.

Það verður sjónarsviptir að Geira gamla og mun hans verða saknað.

Kristján og Anna, Forsæti IV.