Halldór Karl Halldórsson fæddist á Borgarfirði eystra 5. janúar 1937. Hann andaðist á Sjúkrahúsinu á Akureyri 16. febrúar 2016.

Foreldrar hans voru Halldór Ásgrímsson alþingismaður og kaupfélagsstjóri, f. 17. apríl 1896, d. 1. desember 1973, og Anna Guðný Guðmundsdóttir, kennari og skólastjóri, f. 7. desember 1895, d. 20. nóvember 1978. Hann fluttist með fjölskyldu sinni til Vopnafjarðar þriggja ára gamall og ólst þar upp. Bræður Halldórs eru Árni Björgvin, f. 17. október 1922, d. 31. mars 2000, Ásgrímur Helgi, f. 7. febrúar 1925, d. 28. mars 1996, Ingi Björn, f. 7. desember 1929, d. 22. júní 2009 og Guðmundur Þórir, f. 10. ágúst 1932.

Halldór kvæntist 10. október 1958 Sjöfn Aðalsteinsdóttur húsmóður, f. 10. október 1935, d. 10. mars 1999. Hún var dóttir Aðalsteins Jóhannssonar járnsmiðs, f. 8. desember 1910, d. 8. apríl 1987, og Maríu Davíðsdóttur verkakonu, f. 8. september 1905, d. 27. maí 1987. Halldór og Sjöfn skildu árið 1985.

Börn þeirra eru 1. María Hrönn, f. 1953, maki Árni Árnason, f. 1951, börn a) María Sjöfn, f. 1972, börn, Helga Björk f. 1991 og Aron Árni, f. 1996. b) Agnar Karl, f. 1982, maki Ingibjörg María Konráðsdóttir, f. 1995, börn Árni Rúnar, Hrannar Kári og óskírður drengur. 2. Aðalsteinn Arnar, f. 1958, maki Helga Björnsdóttir, f. 1962, börn a) Daníel Örn, f. 1982, maki Dögg Júlíusdóttir, f. 1979, barn, Bragi Fannar, f. 2004. b) Björn Metúsalem, f. 1989. 3. Anna Halldóra, f. 1963, maki Magnús Ólafur Kristjánsson, f. 1968, börn a) Eva, f. 1981, maki Fjölnir Guðmannsson, f. 1981. b) Kristján Steinn, f. 1990, maki Petrea Kristín Vignisdóttir, f. 1995. c) Baldvin Kári, f. 1997. d) Hafsteinn Ingi, f. 1999. 4) Þór Halldórsson, f. 1964, maki Helga Vilborg Sigjónsdóttir, f. 1968, börn a) Þórgunnur, f. 1991, maki Þórður Sævar Jónsson, f. 1989. b) Halldór Karl, f. 1993. c) Bjarney Anna, f. 1999.

Sambýliskona frá 1991 Anna Guðlaug Ásgeirsdóttir, f. 1942. Halldór og Anna slitu samvistir.

Halldór stundaði nám í Barna- og unglingaskóla Vopnafjarðar og lauk námi þaðan árið 1952, var síðan við nám á Laugum í Reykjadal og við Samvinnuskólann á Bifröst árin 1956-1958.

Hann vann ýmis störf samhliða námi en hóf störf hjá Sambandinu árið 1958.

Árið 1961 flutti Halldór ásamt fjölskyldu sinni til Hafnar í Hornafirði og starfaði þar hjá Kaupfélaginu árin 1961-1964. Árið 1964 flutti fjölskyldan til Vopnafjarðar þar sem Halldór tók við starfi kaupfélagsstjóra hjá Kaupfélagi Vopnfirðinga. Því starfi gegndi hann til ársins 1979 en flutti þá til Reykjavíkur og starfaði hjá Sambandinu og síðar Olíufélaginu árin 1979 til starfsloka árið 2004.

Halldór var félagsmálamaður og var m.a. fyrsti formaður nemendafélags Samvinnuskólans á Bifröst. Hann starfaði í flugmódelklúbbi á Höfn, var hvatamaður að stofnun Lionsklúbbs Vopnafjarðar sem og Hestamannafélagsins Glófaxa á Vopnafirði og stofnfélagi í báðum félögunum. Halldór flutti aftur til Vopnafjarðar árið 2007 og bjó þar til æviloka.

Útför Halldórs fer fram frá Vopnafjarðarkirkju í dag, 27. febrúar 2016, og hefst athöfnin kl. 14.

Maggi? Sæll vinur, Dóri! Þannig hófust gjarnan símtölin frá Halldóri tengdaföður mínum, á vinarkveðju. Þegar ég lít til baka finnst mér það bæði notalegt og viðeigandi því að fyrir mér var hann einmitt það, hann var vinur minn. Það var gott að eiga vináttu Halldórs og samskiptin við hann voru öðru fremur skemmtileg og hressandi. Hann var húmoristi, hafði gaman af góðum sögum og hló oft mikið og hátt. Nokkrar uppáhaldssögur rifjaði hann upp reglulega og hló alltaf jafnmikið í hvert skipti. Í fjölskyldunni eru ýmis orðatiltæki tengd slíkum sögum og þarf þá ekki nema eina litla setningu til að kalla fram hlátur en þær eru þá flestum öðrum algerlega óskiljanlegar. Tilvitnunin í baðvörðinn sem spurði svo eftirminnilega; „E I bú ba?“er sígilt dæmi um slíkt. En það útleggst sem eruð þið búnir í baði.

Við Halldór áttum samleið um langan tíma og reyndist hann mér ávallt vel. Hann var ákveðinn og sjálfstæður í allri framgöngu og fór sínar eigin leiðir. Ég minnist sambúðar okkar við hann í Hraunbænum, notalegra samverustunda í sumarhúsinu á Húsum og skemmtilegra heimsókna hans til okkar Önnu í gegnum tíðina. Hann var lestrarhestur og unnandi góðra bóka, fróður um menn og málefni og sérstaklega um sögu Vopnafjarðar, sem hann sýndi mikinn áhuga. Honum þótti vænt um æskustöðvar sínar og eftir áratuga búsetu í Reykjavík tók hann sig upp og flutti aftur árið 2007 á Vopnafjörð, þar sem hann bjó síðustu æviárin. Hann var grúskari og hafði gaman af að glugga í gömul skjöl, bækur og ekki síst myndir. Það var bæði fróðlegt og skemmtilegt að sitja með honum yfir slíku. Á seinni árum safnaði hann saman á tölvutækt form miklum fjölda ljósmynda, einkum frá Vopnafirði og af Vopnfirðingum. Með því lagði hann grunn að stóru myndasafni sem síðan hefur vaxið og dafnað bæði í umsjá hans og annarra.

Eins og gengur og gerist í erli hversdagsins leið misjafnlega langt á milli þess sem við hittumst eða töluðumst við. Síðasta árið fjölgaði símtölunum hins vegar nokkuð þó að þau væru jafnan stutt. Alltaf var notalegt að heyra í mínum manni og sérstaklega gaman þegar hann tók sínar víðfrægu hlátursrokur. Þessi símtöl eru mér dýrmæt minning nú þegar Halldór hefur kvatt okkur eftir stutta en nokkuð snarpa baráttu við veikindi. Ég vil að leiðarlokum þakka Halldóri fyrir allt sem hann var mér og mínum. Ég minnist hans með þakklæti og hlýju. Blessuð sé minning hans.

Magnús Kristjánsson.

Dóri frændi skipaði alltaf sérstakan sess í hjarta mínu. Hann var yngsti bróðir pabba, hress og skemmtilegur. Þegar við hittumst eða töluðum saman í síma fór ég alltaf burt með gleði í hjarta af þeim fundum. Hann var alla tíð órjúfanlega tengdur Vopnafirði, þar ólst hann upp, var kaupfélagsstjóri um nær tveggja áratuga skeið og þangað flutti hann aftur til að búa þegar Elli kerling fór að sækja að. Á Vopnafirði lágu leiðir okkar oft saman. Fyrst hjá afa og ömmu í Kaupvangi þegar ég var barn og hann unglingur enn í foreldrahúsum.

Við hétum sama nafni en vorum samt ekki nafnar, í þeirri merkingu sem mér lærðist að skilja það orð, því hann hét eftir Halldóru föðursystur sinni, ég í höfuðið á afa, föður hans. Nú hygg ég að fáir leggi svo þröngt skilgreinda merkingu í hugtakið nafnar. Þau systkinin Halldór og Halldóra hétu svo aftur hvort eftir sínum vini langafa og langömmu. Þannig voru nöfn rakin hér í eina tíð, til uppruna síns.

Allir voru þeir bræðurnir fimm fæddir á Borgafirði eystra, allir fluttu þeir með foreldrum sínum til Vopnafjarðar. Þá var Dóri frændi þriggja ára en karl faðir minn átján ára kominn til náms í MA. Allir mótuðust þeir bræður á þessum tveimur stöðum, en þó með mismunandi hætti. Faðir minn var alltaf Borgfirðingur í hjarta sér, en Dóri Vopnfirðingur. Þegar fjölskyldan í Kaupvangi rifjaði upp minningar frá Borgarfirði og gengið var út frá að þær væru sameiginlegar þeim öllum þurfti Dóri oft að minna á að hann var einungis á þriðja árinu þegar fjölskyldan flutti þaðan.

Í mínum huga tengdist Dóri alltaf tveimur höfuðskepnum, hákarli og hestum. Bréf sem hann fékk sem polli frá stórabróður á MA var stílað á Hákarl Halldórsson, það vakti mikla lukku. Hann hljóp með það um þorpið og sýndi öllum að hann væri Hákarl. Eitt sinn hringdi ég í Dóra til að fá ráð um hvernig ég gæti kennt börnum að njóta hákarls. Hann sagði það einfalt, sitja með þeim fyrir framan sjónvarpið og lauma upp í þau einum og einum bita þegar þau göptu af undrun. Nú eru börn hætt að undrast. Móttökur þegar farið var til Vopnafarðar í heimsókn hjá Dóra og Sjöfn voru höfðinglegar. Hápunkturinn var boð um útreiðartúr og þegar heim var komið var boðið upp á hákarl, súrt slátur og brennivíni. Þá var gaman að lifa.

Það var líkt með þeim bræðrum Dóra og pabba að þeir voru menn gleðinnar. Dóri vildi njóta líðandi stundar, njóta þess að líða vel í góðra vina hópi. Hann naut sín best þegar hann hafði fólk í kringum sig. Þá geislaði af Dóra, þessum hressa, heillandi og skemmtilega manni með sína góðu nærveru.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama;

en orðstír

deyr aldregi,

hveim er sér góðan getur.

(Úr Hávamálum)

Ég votta börnunum hans Dóra frænda, þeim Hrönn, Aðalsteini Önnu Halldóru og Þór sem og tengdabörnum, barnabörnum og barnabarnabörnum innilega samúð mína við fráfall góðs drengs.

Halldór Árnason.

Nú er horfinn á braut einn af mínum elstu vinum á Vopnafirði, Halldór Karl Halldórsson. Við kynntumst stuttu eftir að ég flutti til Vopnafjarðar og vinátta okkar entist þar til Halldór hvarf af þessum heimi. Það teygðist nokkuð á vináttuböndunum um áratuga skeið en við tengdum böndin betur þegar hann flutti aftur heim á Vopnafjörð, þar sem hann valdi að eyða ævikvöldinu.

Halldór Karl eyddi bernskuárunum í Kaupvangi og bjó þar í foreldrahúsum til fullorðinsára. Meiri hluta starfsævi bjó hann fjarri Vopnafirði, en flutti aftur heim þegar Kaupvangur hafði risið úr öskustónni og hafði aftur tekið við hlutverki reisulegasta húss Vopnfirðinga. Halldór naut þess að líta inn í kaffisopa eftir að ég hóf rekstur kaffihúss í Kaupvangi. Í suðausturhorninu, þar sem áður var búðarborð KVV, nutum við Þórunn Egilsdóttir margra ánægjustunda með Dóra. Fyrir sjö árum settum við þrjú, ásamt Ara Hallgrímssyni heitnum, í gang Myndagrúsk, merkilega söfnun mynda og upplýsinga um myndefni sem varðar Vopnafjörð. Sl. sjö ár hefur hópur eldri Vopnfirðinga hist hvern miðvikudag yfir vetrartímann og skoðað myndir á tjaldi. Halldór Karl átti í upphafi myndagrunn í tölvu með nær þrjú þúsund myndum. Myndasafnið, sem nú innheldur tólf þúsund myndir, ber nafn hans og er frábær gjöf til varðveislu menningarverðmæta eins og var hans markmið með starfseminni.

Við sem vorum félagar Dóra í Myndagrúski eigum eftir að minnast hlátursrokanna þegar hann sagði frá prakkarastrikum og rófnaþjófum fyrri tíma. Með honum hverfur hluti menningararfs okkar samfélags sem ekki tókst að bjarga áður en vinur okkar varð hallur af heimi. Með þessum orðum viljum við Þórður þakka Halldóri Karli vináttu liðinna ára.

Fyrir hönd félaganna í Myndagrúski sendum við börnum hans, barnabörnum og bróður Halldórs innilegar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning góðs vinar.

Ágústa Þorkelsdóttir.