[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á vettvangi Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Slátrun er að komast í fullan gang í laxasláturhúsi Arnarlax hf. á Bíldudal. Sláturhúsið er það fyrsta hérlendis sem byggt er upp að norskri fyrirmynd þar sem laxinn er fluttur lifandi úr sjókvíum í land.

Á vettvangi

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Slátrun er að komast í fullan gang í laxasláturhúsi Arnarlax hf. á Bíldudal. Sláturhúsið er það fyrsta hérlendis sem byggt er upp að norskri fyrirmynd þar sem laxinn er fluttur lifandi úr sjókvíum í land. Auk þess er notaður búnaður til að kæla laxinn strax niður, með aðferðum svonefndrar ofurkælingar, fyrir flutning á erlenda markaði.

„Ég er ánægður með hvað við erum komnir langt á stuttum tíma. Það er þó enn mikil vinna eftir í að bæta eldið. Stóra myndin er komin. Ég er stoltastur af því að við skulum hafa náð að byggja sterkan grunn sem gefur okkur tækifæri til að byggja ofan á,“ segir Kristian Matthíasson, forstjóri Arnarlax. „Markmið okkar er að verða stöðugt betri. Gera enn betur á morgun það sem við gerum vel í dag,“ bætir hann við.

Slátrun stýrt með brunnbát

Fyrstu laxaseiðin úr seiðastöð Arnarlax voru sett út í sjókvíar fyrirtækisins í Arnarfirði vorið 2014. Slátrun á fyrstu kynslóðinni hófst nú í janúar. Hún fór hægt af stað enda verið að koma upp nýjum búnaði og þjálfa starfsfólk en hún er nú að komast á fullan skrið. Slátrað er fjóra daga vikunnar og reiknar Víkingur Gunnarsson, framkvæmdastjóri hjá Arnarlaxi með því að í næstu viku fari 100 tonn af afurðum í gegnum sláturhúsið og pökkunarstöðina og þaðan beint á erlenda markaði.

Arnarlax hefur tekið í notkun brunnbát sem keyptur var frá Noregi. Gunnar Þórðarson BA er fyrsti liðurinn í slátruninni. Brunnbáturinn fer að kvöldi út í sjókvíarnir og sækir þann skammt sem fara á í gegnum pökkunarstöðina daginn eftir. Þetta kvöld var skammturinn 2.000 laxar. Fiskurinn er stór og fallegur, að meðaltali rúm 6 kíló en þeir stærstu um 11 kíló. Þeir sprikla hraustlega þegar hert er að þeim í kvínni til að auðvelda flutninginn inn í tank brunnbátsins.

Fiskurinn er geymdur í bátnum um nóttina en dælt lifandi eftir leiðslu inn í sláturhúsið snemma morguninn eftir.

Báturinn getur flutt allt að 60 tonn af lifandi fiski og er vel tækjum búinn. Víkingur segir að brunnbátnum sé stýrt eftir sölunni. Flesta daga þessa vikuna voru teknir 2.700 laxar. Allt búið að selja fyrirfram. Hann bendir jafnframt á að ef spáð er stormi sé hægt að láta bátinn taka tveggja daga skammt og fiskurinn einfaldlega geymdur annan dag í tönkum skipsins við bryggju í Bíldudalshöfn.

Ofurkæling lengir endinguna

Slátrun hefst snemma morguns. Byrjað er á því að kæla laxinn vel niður í svokölluðum blæðingartanki. Þá er hann slægður og öll innyfli sogin úr kviðarholinu. Slógið fer í sérstaka tanka sem fluttir eru í Borgarnes þar sem unnið er úr þeim lýsi og mjöl í lítilli verksmiðju sem sérhæfir sig í laxaslógi. Sem sagt: Hráefnið er gjörnýtt.

Eftir slægingu fer fiskurinn aftur í kælitank þar sem hann er kældur niður fyrir frostmark, án þess þó að hann frjósi. Þessi kælitækni er ný í laxavinnslu og eru tækin hönnuð og smíðuð af Skaganum og 3X Technology. Bendir Víkingur á að ofurkælingin skapi möguleika til að flytja fiskinn út án þess að ísa hann. Fiskholdið sjálft er svo kalt að það þarf ekki frekari kælingu. Hafa verið gerðar tilraunir með þetta sem sýna að geymslutími verður mun lengri en með ísun. Enn er settur smá ís í kassana, að ósk kaupenda, en smám saman er verið að draga úr því. Það sparar verulega mikla fjármuni í flutningskostnaði að losna við að flytja ísinn því greiða þarf fyrir hvert kíló af honum með sama hætti og afurðirnar. Jafnframt er hægt að koma meiri laxi í kassana.

Eftir þetta er afurðunum pakkað í viðeigandi umbúðir, heilum með haus og sporði. Flutningabíll sækir laxinn á hverjum degi og flytur fyrir skip eða flugvélar morguninn eftir, allt eftir því hvert varan á að fara. Laxinn kemst á markað í Evrópu, Bandaríkjunum eða Asíu einhvern næstu daga, ferskur eins og nýslátraður.

Víkingur segir að slátrunar- og pökkunarlínan sé einföld og þurfi ekki mikið pláss en geti annað miklu magni. Til að ljúka uppbyggingunni þurfi að setja upp róbóta við pökkunarendann til að stafla kössunum og draga úr erfiði starfsfólksins. „Þá getur þetta hús tekið við 10 þúsund tonnum af hráefni á ári. Eftir verða auðveld störf sem allir geta gengið í,“ segir Víkingur.

Stækkað upp í 10 þúsund tonn

Arnarlax er í miklu stækkunarferli. Það hefur öll leyfi til að framleiða rúmlega 3.000 tonn af laxi á ári og er langt komið í ferli að fá leyfi fyrir alls 10 þúsund tonna framleiðslu, í sex staðsetningum í Arnarfirði.

„Markmiðið er að framleiða að minnsta kosti 10 þúsund tonn. Til að geta það þurfum við að stækka seiðastöðina til að hafa nógu mörg seiði til að setja í sjó,“ segir Kristian. Seiðastöðin er í Tálknafirði og er hafinn undirbúningur að stækkun hennar. Stöðin er fullnýtt nú. Þar eru milljón seiði sem sett verða út í sjókvíarnar með vorinu. Þessi þriðja kynslóð í laxeldinu hjá Arnarlaxi mun skila um 4 þúsund tonna framleiðslu í fyllingu tímans.

Eldið er kynslóðaskipt. Þegar lokið verður slátrun úr fyrsta árgangi verður svæðið hvílt í eitt ár.

„Við þurfum einnig að bæta tæknibúnað okkar til að geta framleitt enn betri afurðir í framtíðinni og draga úr kostnaði,“ segir Kristian.

Í framtíðaráætlunum Arnarlaxmanna er enn frekari stækkun og bygging vinnslustöðvar fyrir laxabita. Þeir telja þó að það sé síðari tíma mál og í raun of stór biti fyrir samfélagið á Bíldudal. Þeir vilja einbeita sér að því að stækka upp í 10 þúsund tonn í sátt við samfélagið. Það sé nægilega stórt verkefni í bili.

Stemning fyrir íslenskum laxi

Vel gengur að selja laxinn frá Bíldudal á erlendum mörkuðum. „Það er stemning fyrir íslenskum laxi. Það hjálpar okkur að íslenskar sjávarafurðir hafa gott orð á sér og íslenskur lax þykir spennandi,“ segir Víkingur Gunnarsson. Hærra verð fæst fyrir íslenskan lax en norskan á mörkuðunum en Kristian Matthíasson bendir á að verðmunurinn hverfi fljótt í meiri flutningskostnaði.

Ýmis ljón eru á þeim vegi og oft flókið að koma fiskinum út á markaðina. Allt þarf að smella saman, bæði flutningur frá Bíldudal og til útlanda.

Dýrt er að flytja laxinn beint út með flugi og því er reynt að koma honum með flutningaskipum. Alltaf þarf þó að byrja á því að flytja hann með flutningabíl frá Bíldudal um heiðar og fjallvegi og ef til vill með ferju yfir Breiðafjörð til Reykjavíkur. Þaðan fara flutningaskip Eimskips og Samskipa. Einu sinni í viku stendur þannig á að best er að flytja fiskinn alla leið til Vestmannaeyja. Hann nær ekki í skip Samskipa sem fer frá Reykjavík að kvöldi en kemst um borð í skipið þegar það kemur við í Vestmannaeyjum á leið til Evrópu.

Kristian segir að stjórnvöld þurfi að gæta þess að Íslendingar hafi alltaf besta mögulega aðgang að öllum mörkuðum. Bendir hann á að íslenskur lax sé útilokaður frá Kína þrátt fyrir fríverslunarsamning landanna og einnig Rússlandi vegna innflutningsbanns. Þá sé tollur lagður á lax sem seldur er til Evrópusambandslanda.

„Sýnt hefur verið fram á það að hægt er að framleiða góðan lax hér á landi á réttan hátt og með viðráðanlegum kostnaði. Það sem gerist þegar hann kemur í land er útfærsluatriði. Hár flutningskostnaður í lofti og á sjó og fákeppni á þeim markaði hefur komið á óvart og við munum þurfa að setja mikla vinnu í þann hluta. Þá verður Ísland laxaframleiðsluland sem hægt er að reikna með í framtíðinni,“ segir Kristian.