[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Af kvikmyndum Benedikt Bóas Hinriksson benedikt@mbl.is Fast and the Furious (F&F) gengið er á leiðinni til landsins og sumir meira að segja mættir til að undirbúa tökur.

Af kvikmyndum

Benedikt Bóas Hinriksson

benedikt@mbl.is

Fast and the Furious (F&F) gengið er á leiðinni til landsins og sumir meira að segja mættir til að undirbúa tökur. Þegar þetta var tilkynnt stökk ég mína litlu hæð í loft upp enda Fast and the Furious-myndirnar ákaflega góð afþreying. Ekki hoppaði ég minna þegar tilkynnt var að myndin yrði tekin upp í minni heimasveit, Mývatnssveit. Næstum allt laust gistipláss í sveitinni er bókað vegna komu tökuliðsins þangað. Það verður nefnilega að vega upp á móti ljótleikanum á Akranesi þar sem tökur eru einnig áætlaðar.

Á vef Skessuhorns kemur fram að fjölmennt lið tækni- og tökufólks muni fylgja verkefninu hingað til lands og gert sé ráð fyrir að um 80 bílar auk tækja og annars búnaðar verði flutt til landsins. Samkvæmt mjög ótraustum heimildum 641.is, eins og þeir orðuðu það sjálfir, er líklegt að tekinn verði upp kappakstur á ís og ísinn svo sprengdur í loft upp.

Hver vill ekki sjá Mývatn sprengt í loft upp? Ég sá allavega að Mývetningar voru byrjaðir að ryðja snjó af vatninu. Ég ætla að fullyrða að þetta verður svalasta ísl-enska atriði allra tíma. Þetta mun ekki verða toppað. Vin Diesel í Mývatnssveit, jafnvel þótt það verði tekið upp með grænskjás tækninni. Það jafnast ekkert á við það.

Ekki má vanmeta snilldina

Margir fussa og sveia þegar minnst er á Fast and the Furious en það má ekki vanmeta snilldina sem liggur að baki þessara mynda. F&F er frábær kvikmyndasería sem allir aðdáendur góðra hasarmynda ættu að vera löngu búnir að sjá. Myndin sem verður tekin upp hér á landi verður sú áttunda í röðinni en sú sjöunda halaði inn 1,5 milljörðum dollara í miðasölu um allan heim sem kemur henni á topp tíu listann yfir mest sóttu kvikmyndir allra tíma.

Merkilega litlar upplýsingar er að finna um Fast 8 en harðhausinn Vin Diesel hefur staðfest að myndirnar verði hið minnsta tíu. Það finnst mér frábærar fréttir. Þessi á að vera frumsýnd í apríl á næsta ári, Fast 9 verður frumsýnd í apríl 2019 og Fast 10 kemur 2021. Vitað er að Vin Diesel, Jason Statham, Michelle Rodriguez, Tyrese Gibson og sjálfur Dwayne Johnson, betur þekktur sem The Rock munu snúa aftur í áttunda meistaraverkið. Þá er jafnvel talað um að Charlize Theron verði vonda konan. Helen Mirren hefur einnig verið orðuð við hlutverk en annað er á huldu.

Æsispenna á hraðbrautum

The Fast and the Furious birtist fyrst á hvíta tjaldinu árið 2001. Strax var ljóst að bílaáhugamenn og aðrir áhugamenn um frekar stórbrotna atburðarás væru að fá helling fyrir peninginn. Þar var Dominic Toretto kynntur til leiks sem Vin Diesel leikur svo afbragðsvel. Merkilegt að kvikmyndaakademían hafi ekki verðlaunað hann fyrir sína frammistöðu. Kannski af því að hann er ekki alveg nógu hvítur á hörund.

Mynd númer eitt sló í gegn og þykir nokkuð góð. Hún eldist fjandi vel. Æsilegir eltingaleikir, hraði og spenna. Það er uppskrift sem getur ekki klikkað. En framleiðendurnir gerðu mistök og drifu í mynd númer 2. Sú er slök, jafnvel þótt Eva Mendes sé í henni. Tokyo Drift var sú þriðja. Var svona allt í lagi mynd, ekkert sérstök.

Sú fjórða gaf allt í botn á ný og bensínfóturinn hefur verið djöfulli þungur síðan. Það er ekki mikið um hægar senur í F&F. Sú fimmta, sjötta og svo loks sjöunda eru allar stórkostlegar þar sem bílarnir og atburðarásin er í fimmta og jafnvel sjötta gír. Stundum meira að segja með nítrói. Það er allt á fullu. Loks þegar hægt er að draga andann renna glæsilegar setningar inn í handritin. F&F hefur þannig hermt eftir kónginum Sly Stallone og aukið vægi góðra atriða með frábærum hnyttnum tilsvörum.

„I live my life a quarter mile at a time. Nothing else matters: not the mortgage, not the store, not my team and all their bullshit. For those ten seconds or less, I'm free,“ sagði Vin Diesel eitt sinn þegar hann var að útskýra hvað það væri við að spyrna við annan bíl.

„Ask any racer. Any real racer. It don't matter if you win by an inch or a mile. Winning's winning,“ sagði hann sömuleiðis með sinni brakandi röddu. Þetta þarf ekkert að útskýra. Þeir sem hafa verið í sigurliði þekkja þetta.

Harmdauði Walker

Ekki er hægt að skrifa um F&F-gengið án þess að minnast Paul Walker sem lék hinn myndarlega Brian O'Conner. Walker lést árið 2013 og var tökum á sjöundu myndinni að ljúka. Auðvitað fór Hollywood á hliðina og handritshöfundarnir breyttu endinum í eitthvað sem er þegar orðið klassískt. Þegar börnin mín verða stærri og vaxinn upp úr barnamyndum munu þau minnast á þetta atriði eins og mín kynslóð minnist þegar Keikó stökk yfir girðinguna í Free Willy. Endaatriðið í sjöundu myndinni er ekkert minna en epík og fær alla harðhausa til að fá eitthvað í augun. Þvílík snilld.

F&F heiðra minningu Walker með bravör. Þeir félagar, aka inn í sólarlagið og rifja upp sitt hraða ferðalag. Svo beygir Walker á meðan Diesel-inn ekur áfram. Þvílík sena. Einföld en áhrifamikil. Wiz Khalifa gerði lagið See You Again sem tilnefnt var til fjölda verðlauna og innrammaði dramað sem fylgdi harmdauða Walker.

Sumir fussa og sveia yfir F&F en það geri ég ekki. Ef þú ert ekki kominn um borð í F&F-lestina þá er smá pláss. Hoppaðu um borð. Þar er lífið svo sannarlega skemmtilegt.