Óheppinn Birkir Bjarnason hefur verið lykilmaður í liði Basel.
Óheppinn Birkir Bjarnason hefur verið lykilmaður í liði Basel. — Morgunblaðið/Golli
Birkir Bjarnason, landsliðsmaður í knattspyrnu, missir líklega af öðrum eða jafnvel báðum leikjum Basel gegn Sevilla frá Spáni í 16-liða úrslitum Evrópudeildar UEFA.

Birkir Bjarnason, landsliðsmaður í knattspyrnu, missir líklega af öðrum eða jafnvel báðum leikjum Basel gegn Sevilla frá Spáni í 16-liða úrslitum Evrópudeildar UEFA.

Birkir og félagar slógu Saint-Étienne frá Frakklandi út úr keppninni í fyrrakvöld en eftir leikinn, þar sem Birkir lék allan tímann, kom í ljós að hann væri handarbrotinn. Hann gekkst undir aðgerð í gærmorgun og þarf að hvíla í einar þrjár vikur.

Leikir Basel og Sevilla fara fram 10. og 17. mars og því er nær útilokað að hann nái fyrri viðureign liðanna sem fer fram í Basel. Birkir gæti náð leiknum á Spáni viku síðar.

Ísland mætir Danmörku og Grikklandi í vináttulandsleikjum 24. og 29. mars og þá ætti Birkir að vera klár í slaginn.

Erkifjendur eigast við

Stærstu tíðindin úr drættinum í 16-liða úrslit Evrópudeildarinnar í gær eru þau að grannliðin og erkifjendurnir Liverpool og Manchester United drógust saman. Fyrri leikurinn þeirra á milli fer fram á Anfield 10. mars og sá seinni á Old Trafford 17. mars.

Tottenham dróst gegn Dortmund frá Þýskalandi og það er önnur af áhugaverðustu viðureignunum. Annars mætast þessi lið:

Shakhtar Donetsk – Anderlecht

Basel – Sevilla

Dortmund – Tottenham

Fenerbahce – Braga

Villarreal – Leverkusen

Athletic Bilbao – Valencia

Liverpool – Manchester United

Sparta Prag – Lazio

vs@mbl.is